Nýir bílar Sala nýrra fólksbíla hefur aukist um 34,6% á þessu ári.
Nýir bílar Sala nýrra fólksbíla hefur aukist um 34,6% á þessu ári. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Mikil sala hefur verið á nýjum fólksbílum að undanförnu og jókst sala nýrra fólksbíla í seinasta mánuði um 15,3% miðað við september í fyrra að því er fram kemur í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu. Alls voru skráðir 1.

Mikil sala hefur verið á nýjum fólksbílum að undanförnu og jókst sala nýrra fólksbíla í seinasta mánuði um 15,3% miðað við september í fyrra að því er fram kemur í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Alls voru skráðir 1.168 nýir fólksbílar í seinasta mánuði en í september í fyrra voru 1.014 nýir fólksbílar skráðir.

„Í heildina eftir fyrstu níu mánuði ársins hefur sala nýrra fólksbíla aukist um 34,6% miðað við sama tímabil í fyrra. Í ár hafa selst 9.780 nýir fólksbílar samanborið við 7.268 nýja fólksbíla í fyrra,“ segir í fréttatilkynningu Bílgreinasambandsins. Einstaklingar keyptu 730 nýja fólksbíla í september sl. samanborið við 670 á sama tíma í fyrra. Það sem af er þessu ári hafa einstaklingar keypt 4.326 fólksbíla og er aukningin 8,6%.

Almenn fyrirtæki önnur en ökutækjaleigur keyptu 217 nýja fólksbíla í september í ár en þeir voru heldur fleiri í sama mánuði í fyrra eða 248 bílar en sala til ökutækjaleiga heldur áfram að aukast. Þær keyptu 208 nýja fólksbíla í september sem er tæplega 145% aukning frá í fyrra.

Nýorkubílar (rafmagns-, tengiltvinn-, hybrid-, metan-) eru 68% allra seldra nýrra fólksbíla á árinu.