Ráðagóð Hjónin Edda og Abbi eiga ráðavél sem kemur sér vel því mikið er um að börn leiti svara hjá þeim við ýmsum stórum spurningum.
Ráðagóð Hjónin Edda og Abbi eiga ráðavél sem kemur sér vel því mikið er um að börn leiti svara hjá þeim við ýmsum stórum spurningum. — Ljósmynd/Sindri Swan
Margrét Þóra Þórsdóttir Akureyri „Ég lá undir feldi í fósturstellingu og reyndi af alefli að detta niður á bestu hugmynd í heimi,“ segir Margrét Sverrisdóttir leikari sem hefur ásamt eiginmanni sínum, Oddi Bjarna Þorkelssyni, sóknarpresti á Möðruvöllum í Hörgárdal, skrifað handrit að þáttunum Himinlifandi, en fyrsti þáttur verður frumsýndur á morgun, sunnudag, á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri.

Margrét Þóra Þórsdóttir

Akureyri

„Ég lá undir feldi í fósturstellingu og reyndi af alefli að detta niður á bestu hugmynd í heimi,“ segir Margrét Sverrisdóttir leikari sem hefur ásamt eiginmanni sínum, Oddi Bjarna Þorkelssyni, sóknarpresti á Möðruvöllum í Hörgárdal, skrifað handrit að þáttunum Himinlifandi, en fyrsti þáttur verður frumsýndur á morgun, sunnudag, á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri.

Margrét og Oddur Bjarni fara einnig með aðalhlutverkin í þáttunum. Himinlifandi er fyrsta leikna barnaefnið fyrir sjónvarp sem framleitt er af fagfólki utan höfuðborgarsvæðisins. Um er að ræða 12 þátta seríu sem unnin er í samstarfi við þjóðkirkjuna og Biskupsstofu.

Margrét segir að fulltrúar frá Biskupsstofu hafi átt fund með þeim hjónum í fyrra og beðið þau að búa til barnaefni. Hún hefur starfað sem leikari og hafði umsjón með Stundinni okkar í tvo vetur, en segist svo alveg óvart hafa tekið beygju og byrjað að skrifa handrit á fullu, m.a. barnaefni. „Það gerist stundum í lífinu að maður fer að gera eitthvað annað en til stóð,“ segir hún en kveðst hafa haft gaman af. Tilboðið kom á besta tíma, í miðjum kórónuveirufaraldri þegar ekkert var að gerast í leikhúsum.

„Þessi tími hentaði mér mjög vel, því ég var ekkert að gera,“ segir hún og bætir við að hún hafi haft algjörlega frjálsar hendur með efnisval. Þó að kirkjunnar fólk hafi óskað eftir barnaefninu hafi fyrst og fremst verið lagt upp með að mæta þeim spurningum og klemmum sem börnin standa frammi fyrir, frekar en endursögn á biblíusögum.

Spilað á tilfinningaskalann

Margrét segir að hún hafi eftir nokkra umhugsun dottið niður á hjónin Eddu og Abba sem lifa í skrautlegu koti sínu. Þau eru á óræðum aldri, gætu vel verið afi og amma yngstu áhorfendanna. Þau eiga svonefnda ráðavél og með aðstoð hennar takast þau á við ýmsar stórar spurningar sem koma upp í lífinu, eins og til að mynda hvort við eigum alltaf og undantekningarlaust að segja satt, hvernig eigi að takast á við myrkfælni, óöryggi og þess háttar hluti sem börn og eftir atvikum fullorðnir standa stundum frammi fyrir. „Það er spilað á allan tilfinningaskalann, gleði og sorg og margt alvarlegt sem þarf að takast á við en sprell og gleði er sjaldnast langt undan,“ segir hún.

Sérstakt þema er í hverjum þætti og vissulega má finna góðan boðskap í öllum þáttum. Hjónunum berast t.d. bréf frá börnum í hverjum þætti þar sem bornar eru upp spurningar sem þau leita svara við. Stundum hafa þau sjálf ekki svörin á reiðum höndum og þá er aldeilis gott að eiga ráðavélina góðu. Raunveruleg börn af Norðurlandi koma fram í vélinni sem ráðgjafar.

Töluverð tíðindi

Margrét kveðst hlakka til að sjá þættina í sjónvarpinu, það verði spennandi að sjá viðtökur áhorfenda, en þættirnir verða sýndir á N4 annan hvern sunnudag og eins verður hægt að nálgast þá víðar, m.a. á vefsíðu stöðvarinnar. Þættirnir voru teknir upp í Hlöðunni við Litla-Garð á Akureyri. Eva Björg Harðardóttir leikmyndahönnuður gerði ævintýralega leikmynd sem prýðir þættina.