Leifsstöð Miklar annir hafa verið á flugvellinum síðustu mánuði enda þarf að kanna alla farþega. Reglum var breytt nú um mánaðamótin.
Leifsstöð Miklar annir hafa verið á flugvellinum síðustu mánuði enda þarf að kanna alla farþega. Reglum var breytt nú um mánaðamótin. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Þessar nýju reglur einfalda lífið klárlega. Sérstaklega fyrir farþega sem koma hingað til lands,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Þessar nýju reglur einfalda lífið klárlega. Sérstaklega fyrir farþega sem koma hingað til lands,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Í gær gengu í gildi nýjar reglur um komur íslenskra ferðamanna til landsins. Felld hefur verið niður krafa um að fólk sem hefur tengsl við Ísland þurfi að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi við komuna. Það þarf þó eftir sem áður að fara í sýnatöku innan 48 tíma frá heimkomu. Óbólusettir þurfa að sæta fimm daga sóttkví eftir sýnatöku auk þess að fara í PCR-próf þegar sóttkví lýkur.

Arngrímur minnir á að ferðamönnum er enn þá skylt að forskrá sig fyrir komuna til landsins á vefnum Covid.is. „Við þurfum svo enn þá að taka á móti öllum farþegum og staðfesta hvort viðkomandi sé skráður í kerfin. Það þarf áfram að kanna alla,“ segir hann.

Hvað varðar sýnatöku við komuna segir Arngrímur að þó farþegar hafi um það val kjósi flestir að fara í sýnatöku í Leifsstöð. „Og það gengur mjög vel fyrir sig,“ segir hann.

100 þúsund króna sektir

Morgunblaðið hefur fengið ábendingar þess efnis að farþegar sem eiga bókað flug hingað til lands með erlendum flugfélögum hafi rekið sig á vegg í samskiptum við flugfélögin. Þegar þeir hafi reynt að upplýsa flugfélögin um þessar breyttu reglur hafi virst sem svo að félögin hafi engar upplýsingar fengið.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að allir tengiliðir félagsins, þar með hjá erlendu flugfélögunum, hafi verið upplýstir um breytingarnar þegar þær voru kynntar í vikunni.

„Við veitum okkar viðskiptavinum alltaf upplýsingar þegar það verða breytingar. Það er svo þeirra að taka það áfram,“ segir Guðjón. Hann bætir við að Isavia bendi öllum farþegum sem þangað leita á að ítarlegar upplýsingar sé að finna á covid.is.

Lögreglan hefur frá því í byrjun árs haft heimild til að sekta þá farþega sem hingað hafa komið án vottorðs um neikvæða niðurstöðu úr skimun sem framkvæmd var mest 72 tímum fyrir brottför. Sektin hefur numið 100 þúsund krónum. Samkvæmt upplýsingum frá Arngrími aðstoðaryfirlögregluþjóni hafa 276 mál komið upp frá 1. janúar og fram til dagsins í dag. Sektað var í 118 tilvikum en rannsókn 90 mála var hætt. Eitt mál er í ákærumeðferð og 67 bíða afgreiðslu. Í 160 tilvikum af 276 var um fólk með íslenskt ríkisfang að ræða en 116 voru með erlent ríkisfang.

Engum meinuð heimkoma

Óljóst var um tíma hvort lagastoð væri fyrir því að meina fólki að koma til landsins ef það framvísaði ekki neikvæðu kórónuveiruprófi eins og reglur kváðu á um. Arngrímur aðstoðaryfirlögregluþjónn segir við Morgunblaðið að hann geti ekki svarað til um hvort dæmi séu um að fólki hafi verið vísað frá þar eð ábyrgðin hafi verið lögð á flugfélög að tryggja að farþegar framvísuðu neikvæðum prófum fyrir brottför til Íslands.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að í fyrstu hafi reglurnar verið þannig að flugfélögum bæri að tryggja það við innritun að farþegar væru með neikvætt Covid-próf meðferðis. Þó hafi flugfélögum í raun ekki verið heimilt samkvæmt reglunum að meina íslenskum ríkisborgurum að koma til landsins án þess. Síðar hafi þessi skylda verið afnumin og flugfélögin hafi ekki þurft að bera ábyrgð á prófunum. Hins vegar hafi Icelandair frá upphafi kannað hvort fólk hefði próf og hvatt það til þess að fara í próf á flugvöllum ef svo var ekki. Hún kveðst ekki þekkja dæmi þess að Íslendingum hafi verið meinað að koma hingað til lands vegna þess að þeir hafi ekki framvísað neikvæðu kórónuveiruprófi.