90 ára Sigrún Guðmundsdóttir á 90 ára afmæli á morgun. Hún fæddist í Reykjavík 3. október 1931. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Þórdís Sveinbjarnardóttir frá Heiðarbæ í Þingvallasveit og Guðmundur Jóhannsson frá Nesjavöllum. Þau skildu.
90 ára Sigrún Guðmundsdóttir á 90 ára afmæli á morgun. Hún fæddist í Reykjavík 3. október 1931. Foreldrar hennar voru hjónin Halldóra Þórdís Sveinbjarnardóttir frá Heiðarbæ í Þingvallasveit og Guðmundur Jóhannsson frá Nesjavöllum. Þau skildu.

Sigrún ólst upp með móður sinni, fyrst hjá sr. Guðmundi Einarssyni og frú Önnu Þorkelsdóttur á Mosfelli í Grímsnesi til 6 ára aldurs og síðan á Seli í Grímsnesi þar sem móðir hennar bjó með seinni manni sínum, Árna Kjartanssyni.

Hún lauk landsprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1949 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1952. Hún stundaði síðan nám í ensku hjá Námsflokkum Reykjavíkur og þýsku- og spænskunám hjá Námsflokkum Kópavogs. Hún lauk sérkennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1971 og sótti kennaranámskeið flest sumur á starfsferlinum og fylgdist þannig vel með helstu breytingum á kennsluháttum.

Sigrún var kennari við Skóla Ísaks Jónssonar og Les- og leikskóla Sumargjafar í Drafnarborg 1952-1953, Landakotsskóla 1955-1958, Laugalækjarskóla 1960-1964 og Hvassaleitisskóla 1965-1994. Við Hvassaleitisskóla annaðist hún sérkennslu í lestri ásamt bekkjarkennslu.

Sigrún er mikil ræktunarkona. Hún gróðursetti tré og skrautjurtir í garði sínum við Álfhólsveg í Kópavogi og við sumarbústaðinn á Seli. Þar gnæfa nú hávaxin og gróskumikil tré hátt yfir sumarbústaðinn. Hún ræktaði allt grænmeti til heimilisnota. Hún er mikill fagurkeri, hefur saumað, prjónað, heklað, rýjað og saumað út fjölda fagurra muna til daglegra nota og til að prýða heimilið. Ferðalög innanlands og til útlanda hafa veitt henni mikla gleði.

Þórunn hálfsystir hennar og Þórdís dóttir Þórunnar höfðu húsnæði hjá henni og var mjög kært með þeim alla tíð. Börn Þórdísar og eiginmanns hennar, Skúla Kristinssonar, eru Aðalbjörg, Halldóra Þórdís og Árni Kristinn.

Sigrún er gift Kristjáni Sigtryggssyni, fv. skólastjóra og organista. Hún dvelur nú á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg.