Perla Sundlaugin í Selárdal er mörgum kær enda þykir staðsetning hennar á bökkum laxveiðiárinnar Selár einstök. Laugin verður opnuð á ný í dag.
Perla Sundlaugin í Selárdal er mörgum kær enda þykir staðsetning hennar á bökkum laxveiðiárinnar Selár einstök. Laugin verður opnuð á ný í dag. — Morgunblaðið/Jón Sigurðarson
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta hefur verið leiðinlega langt stopp en nú virkar allt vel á ný,“ segir Þráinn Hjálmarsson, starfsmaður í þjónustumiðstöð Vopnafjarðarhrepps.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hefur verið leiðinlega langt stopp en nú virkar allt vel á ný,“ segir Þráinn Hjálmarsson, starfsmaður í þjónustumiðstöð Vopnafjarðarhrepps.

Sundlaugin í Selárdal verður opnuð á hádegi í dag eftir miklar truflanir á starfsemi að undanförnu. Vegna vatnsleysis af völdum góðviðrisins í sumar varð að loka lauginni nokkrum sinnum síðsumars og í haust en síðustu tvær vikur hefur hún verið lokuð vegna bilunar.

„Það var vatnslaust út af þurrki, það var vandamál í sumar. Svo hefur vatnsleysið sjálfsagt orðið til þess að dælubúnaður fór í ólag,“ segir Þráinn í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að inntak í aðstöðuhús sundlaugarinnar hafi verið stíflað og ekki hafi fengist kalt vatn inn í húsið. Fyrir vikið þurfti að grafa mikið upp í kringum sundlaugina og skipta um vatnsinntak.

Selárlaug þykir með skemmtilegri sundlaugum á landinu. Laugin stendur á bakka hinnar kunnu laxveiðiár Selár þar sem hún rennur í grunnu gljúfri. Rétt við sundlaugina er uppspretta með heitu vatni og var vatn úr þeirri uppsprettu notað til margra ára í sundlaugina. Heilbrigðiseftirlitið taldi það fyrirkomulag óhæft og í dag er uppsprettuvatnið nýtt til að hita upp vatnið í sundlauginni.

Þráinn segir að allt hafi verið reynt til að halda sundlauginni opinni síðustu mánuði. Til að mynda hafi kalt vatn verið flutt úr þorpinu á slökkvibílnum til að hægt væri að halda úti skólasundi fyrir krakkana á Vopnafirði. Hann kveðst ekki geta neitað því að lokunin hafi reynst mörgum í sveitinni þungbær enda sé ferð í laugina hluti af daglegu lífi.

„Jú jú, það eru margir orðnir langþreyttir á ástandinu. Við erum minntir á það reglulega, starfsmenn bæjarins, hvort við ætlum nú ekki að fara að opna laugina. En nú horfir til betri vegar,“ segir hann.

Selárlaug var gerð sumarið 1949 af félagsmönnum í Einherja, ungmennafélagi Vopnafjarðar, að því er fram kemur á heimasíðu sveitarfélagsins. Gerðu þeir laugina að mestu í sjálfboðavinnu og var hún vígð sumarið 1950. Á þessum tíma var Selárlaug eina heita laug Austurlands.