Norður-Kórea Loftvarnaeldflaugin nýja hefur sig hér til lofts í gær.
Norður-Kórea Loftvarnaeldflaugin nýja hefur sig hér til lofts í gær. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í gær um eldflaugatilraunir Norður-Kóreumanna, en náði ekki samkomulagi um ályktun gegn þeim.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í gær um eldflaugatilraunir Norður-Kóreumanna, en náði ekki samkomulagi um ályktun gegn þeim. Bandaríkin, Bretar og Frakkar kölluðu eftir fundinum, sem haldinn var á bak við luktar dyr, og stóð hann yfir í um klukkustund.

Fyrr um morguninn tilkynntu ríkisfjölmiðlar Norður-Kóreu að nýrri loftvarnaflaug hefði verið skotið á loft, en samkvæmt núgildandi ályktunum öryggisráðsins er landinu óheimilt að stunda nokkurs konar tilraunir eða prófanir á eldflaugum.

Samkvæmt heimildarmönnum AFP-fréttastofunnar innan öryggisráðsins þrýstu Frakkar á að ráðið næði saman um ályktun gegn tilraununum, en Rússar og Kínverjar sögðu slíka yfirlýsingu vera ótímabæra, og að meiri tíma þyrfti til þess að skoða stöðuna.

Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir að öryggisráðið myndi funda á fimmtudaginn, en þá höfðu Rússar og Kínverjar beðið um meiri frest til að kynna sér málin, og endurtóku þá afstöðu á fundi ráðsins.

Kínverjar eru helstu bandamenn Norður-Kóreumanna og þeirra helsta viðskiptaþjóð. Tóku þeir þó þátt á sínum tíma í að samþykkja alþjóðlegar refsiaðgerðir á hendur Norður-Kóreu vegna tilrauna þeirra með kjarnorkuvopn, en Rússar og Kínverjar hafa kallað eftir því undanfarin misseri að létt verði á þeim aðgerðum.

Aukin spenna á Kóreuskaga

Eldflaugatilraun Norður-Kóreumanna í gærmorgun fylgir fast á hæla tilraunaskots á þriðjudaginn, þar sem stjórnvöld í Pyongyang lýstu því yfir að þau hefðu þróað „ofurhljóðfráa“ eldflaug, það er eldflaug sem ferðast á minnst fimmföldum hljóðhraða, og gáfu til kynna að sú gæti borið kjarnaodda.

Höfðu Norður-Kóreumenn áður prófað nýja langdræga stýriflaug, og hafa hin tíðu tilraunaskot að undanförnu aukið mjög á spennuna á Kóreuskaganum. Fordæmdi Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í fyrradag boð Bandaríkjastjórnar um að hefja viðræður án skilyrða sem „auma brellu“, og sakaði Kim ríkisstjórn Joes Bidens um að viðhalda sömu „fjandsamlegu stefnu“ sem fyrirrennarar hans í embætti hefðu viðhaft.

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, kallaði á dögunum eftir því að Kóreuríkin tvö héldu leiðtogafund og lýstu því formlega yfir að Kóreustríðinu væri lokið, en vopnahlé hefur verið í gildi frá árinu 1953.

Gaf Kim Yo-jong, systir Kims Jong-uns, þeim tilraunum undir fótinn í síðustu viku, en þá sagði hún að hugmyndir Moons væru áhugaverðar. Hins vegar þyrftu Suður-Kóreumenn að láta af „fjandsamlegum aðgerðum“ sínum, áður en hægt væri að boða til leiðtogafundar, og er talið að Kim hafi þar vísað til sameiginlegra heræfinga Suður-Kóreu og Bandaríkjahers.

Segja sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu að stjórnvöld þar séu líklega að nota tilraunirnar til þess að þrýsta á Suður-Kóreu og umheiminn og reyna að fá hverjar þær ívilnanir sem í boði séu, sér í lagi þar sem Moon eigi skammt eftir af forsetatíð sinni, og sé farinn að huga að arfleifð sinni í embætti.