[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Úrslit kosninganna um liðna helgi eru mönnum enn ofarlega í huga, þó ekki væri nema vegna óvissunnar í kjölfar mistaka við talningu í Norðvesturkjördæmi, en svo eru auðvitað margir uppteknir af viðræðum stjórnarflokkanna um endurnýjað stjórnarsamstarf. Þar skiptir kosningaárangur flokkanna talsverðu máli þegar kemur að því að semja um ráðherrastóla og stefnumál í stjórnarsáttmála.

Þar munu vafalaust allir flokkar gefa talsvert eftir og pólitísk nauðsyn hefur sín áhrif, en eftir sem áður þarf að horfa til úrslitanna, hvaða árangri flokkarnir náðu og hvar; hvað má úr því lesa um vilja kjósenda, sem endurnýjaðri ríkisstjórn er hollast að fara eftir.

Stjórnarflokkarnir hafa að vonum keppst við að undirstrika þá traustsyfirlýsingu kjósenda við ríkisstjórnarsamstarfið, sem felist í kosningunum. Þar má segja að gervallri stjórnarandstöðunni nema Flokki fólksins hafi verið hafnað og ríkisstjórnin jók meirihluta sinn.

Vinstrisveiflan sem ekki var

En það má lesa fleira úr úrslitunum. Í miðri kosningabaráttunni, þegar fylgi tók loks að hreyfast í könnunum, mátti greina væga vinstrisveiflu. Sú sveifla gekk raunar til baka fyrir kjördag, en úr sjálfum kosningaúrslitunum var engin leið að lesa vinstrisveiflu úr kortunum. Öðru nær og mætti frekar segja að vinstrinu hafi verið hafnað, þar sem Sósíalistaflokkurinn komst ekki á blað eftir allt saman og bæði Samfylking og Píratar hlutu illa útreið.

En hvað má þá segja um Vinstri-græn, flokk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra? Hann missti fjórðung fylgis síns frá kosningunum 2017, þótt vissulega megi benda á að það hafi gerst þegar eftir þær kosningar. Og þrátt fyrir að flokkurinn hafi náð að auka fylgið talsvert á lokametrunum, þá blasir við að Katrínu Jakobsdóttur mistókst að endurheimta fyrra fylgi. Að því leyti má vel segja að úrslitin séu hluti af afhroði vinstrisins.

Á hinn bóginn er ekki unnt að segja að kosningarnar hafi verið sigur hægriflokka, svona að því marki sem þeir eru til á Íslandi. Talað er um að Sjálfstæðisflokkurinn sé hægriflokkur, en hann stendur býsna nærri miðju, ekki ósvipað kristilegum demókrötum suður í álfu. Hann náði að halda fylgi sínu mikið til óbreyttu, þótt hann hafi víðast dalað örlítið, sem að einhverju leyti má, eins og hjá mörgum flokkum öðrum, rekja til fjölgunar framboða.

Miðflokkurinn er sömuleiðis blendinn til hægri og hið sama má á sinn hátt segja um Viðreisn, sem átti að heita til hægri við miðju, en hallar sér orðið um sumt til vinstri. Miðflokkurinn var nálægt því að þurrkast út af þingi og árangur Viðreisnar ekkert til þess að færa í tal.

Aftur á móti má segja það um báða þá flokka, sem mest juku fylgi sitt, Framsóknarflokk og Flokk fólksins, að þeir eru báðir miðjuflokkar, en samt frekar óræðir á þessum hefðbundna vinstri-hægri-ás og fátt ef nokkuð í helstu stefnumálum þeirra, sem auðveldar slíka staðsetningu. En e.t.v. athyglisvert, að báðir höfðu það helst að markmiði að bæta kjör eða aðstæður bágstaddra, efnalítilla, barna og aldraðra.

Fjórir ásar eða fleiri

Kannski er það þó of einföld eða jafnvel röng nálgun í stjórnmálaumhverfi 21. aldar að horfa aðeins til vinstri-hægri-áss. Líkt og dregið hefur verið fram hér að framan og margir þekkja sjálfsagt af eigin raun af svokölluðum kosningakompásum duga þeir engan veginn til. Flokkar geta verið frjálslyndir í samfélagslegum efnum en íhaldssamir í ríkisfjármálum, nú eða öfugt. Sumir hneigjast til alþjóðlegrar nálgunar en aðrir leggja meira upp úr þjóðlegum gildum, vilja t.d. ganga í Evrópusambandið eða fara úr Atlantshafsbandalaginu, dást að fjölmenningu eða ekki. Skipta má flokkum í borgaralega flokka eða róttæka, sem er svipað og hægri-vinstri en þó ekki alveg hið sama. Aðrir eru hallir undir pópúlíska nálgun í málflutningi sínum meðan aðrir eru meiri kerfisflokkar, og svo mætti lengi áfram telja.

Hér að ofan má sjá huglægt mat á nokkrum þessara ása, ásamt með skilum þar á milli ef menn vilja hugsa í meirihlutum, en flokkarnir eru misákafir í þessum efnum. Rétt er að ítreka að sú hugsanaæfing byggist ekki á neinum vísindalegum rannsóknum og er meira til gamans gerð, þótt vissulega megi úr því lesa vísbendingar um hvaða flokkar eru líklegri til þess að geta unnið saman en aðrir. Nú eða runnið saman ef tvístrun hins pólitíska litrófs á Íslandi skyldi einhvern tímann linna.