Úthlutun Landskjörstjórn hélt fund um úthlutun þingsæta síðdegis í gær. Þar ákvað hún að úthluta þingsætum samkvæmt þeim úrslitum sem fengust eftir að endurtalning fór fram.
Úthlutun Landskjörstjórn hélt fund um úthlutun þingsæta síðdegis í gær. Þar ákvað hún að úthluta þingsætum samkvæmt þeim úrslitum sem fengust eftir að endurtalning fór fram. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Logi Sigurðarson Unnur Freyja Víðisdóttir Formenn ríkisstjórnarflokkanna hittust í gær í Ráðherrabústaðnum þar sem áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf flokkanna var rætt.

Logi Sigurðarson

Unnur Freyja Víðisdóttir

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hittust í gær í Ráðherrabústaðnum þar sem áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf flokkanna var rætt. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að skipting einstakra ráðuneyta hefði ekki verið rædd á fundinum.

„Við erum bara fyrst og fremst ennþá að skoða stóru myndina og ræða hvernig við gætum náð því best fram með hugsanlegri uppstokkun á kerfinu, þ.ám. ráðuneytum og stofnunum,“ sagði Sigurður Ingi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að fundurinn hefði gengið vel fyrir sig og andinn verið góður. Engar endanlegar ákvarðanir hefðu verið teknar heldur stóru málin rædd.

„Við erum fyrst og fremst að velta fyrir okkur endurskoðun á verkefnum, tilflutningi verkefna og skoða hvaða leiðir eru færar í því. Það skiptir náttúrlega miklu máli að áherslur ríkisstjórnar hverju sinni birtist í verkefnaskipan stjórnarráðsins.“

Katrín bætir við að mikilvægt sé að leggja málefnalegan grunn áður en ráðist verður í endanlegar ákvarðanir.

„Annars vegar að ákveða hvaða flögg þessi ríkisstjórn vill reisa, hvaða ágreiningsefni við þurfum að leysa áður en við leggjum af stað og hvaða viðfangsefni þarf svo að takast á við á kjörtímabilinu óháð þeirri ríkisstjórn sem situr. Þannig að þetta er eiginlega þrískipt.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók í sama streng en sagði að líklega myndi Sjálfstæðisflokkurinn halda sama fjölda ráðuneyta.

„Þetta er allt að mjakast í rétta átt finnst mér, engin stórkostleg vandamál, við þekkjumst auðvitað vel og allt það en okkur líður þannig að við þurfum að halda aðeins áfram að tala saman.“

Töluvert búið en mikið eftir

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins og þingflokkur Vinstri-grænna funduðu í gær um svokallaða undirbúningskjörbréfanefnd og einnig var fundað um yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður.

„Ég held að stjórnarmyndunarviðræðurnar gangi ágætlega, það er greinilega töluvert búið en það er líka mikið eftir,“ sagði Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði flokkinn hafa fundað í fyrradag um utankjörbréfanefndina. Spurður um stöðu stjórnarmyndunarviðræðnanna sagðist Willum lítið geta sagt.

„Þau halda spilunum þétt að sér þessi þrjú, enn sem komið er,“ sagði Willum.

Landskjörstjórn fundaði einnig í gær með fulltrúum stjórnmálaflokkanna á þingi og úthlutaði þingsætum eftir úrslitum kosninganna. Ákveðið var að úthluta þingsætum samkvæmt þeim úrslitum sem fengust eftir að endurtalning fór fram í Norðvesturkjördæmi, eins og frægt er.

Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, vildi ekki tjá sig um ákvörðun stjórnarinnar.