Jón Sigurðsson fæddist 23. ágúst 1946. Hann lést 10. september 2021.

Útför Jóns Sigurðssonar fór fram 24. september 2021.

Fundum okkar Jóns Sigurðssonar bar fyrst saman í Háskólanum í Reykjavík þar sem við störfuðum við viðskiptadeild skólans. Góðmennskan og glettnin skein úr augum þessa yfirvegaða nýja kollega og ekki leið á löngu þar til við fundum út sameiginlegt áhugamál, Borgarfjörðinn. Við unnum saman á róstursömum tíma í íslensku þjóðfélagi og því var róandi að eiga samræður um Bifrastarævintýrið og Jónasarskólann, stórmerkilega bók Jóns sem ég vissi ekki þá að ég ætti eftir að lesa spjaldanna á milli. Háskólinn í Reykjavík var ung stofnun í þá daga og starfsmenn allir mun yngri en Jón. Fannst mér sem nærvera hans gæddi viðskiptadeildina menningarlegri festu.

Háskólinn á Bifröst á Jóni mikið að þakka. Hann var sá sem lagði grunn að því að leiða skólann upp á háskólastig en hann stýrði skólanum frá árinu 1981 til 1991. Þannig breyttist Samvinnuskólinn sem var deild innan Sambands íslenskra samvinnufélaga í sjálfseignastofnun árið 1990 og tók til starfa á háskólastigi sem Samvinnuháskólinn á Bifröst. Árið 1994 fékk skólinn leyfi menntamálaráðuneytisins til að brautskrá námsmenn í rekstrarfræðum. Var það enn einn liður í sögu skólans sem ávallt hefur einkennst af því að laga sig stöðugt að menntaþörfum landsmanna hverju sinni.

Enn á ný bar fundum okkar Jóns saman þegar við hittumst í vetur sem leið á göngu í Jafnaskarðsskógi. Við ræddum um skólann, gönguparadísina Bifröst, fegurðina í Norðurárdalnum og dásemdina sem fylgir því að búa hér. Auðvitað ætlaði hann að koma í kaffi, kaffibolla sem aldrei var drukkinn.

Háskólinn á Bifröst vottar Sigrúnu Jóhannesdóttur eiginkonu Jóns og afkomendum þeirra samúð sína. Blessuð sé minning um góðan mann.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst.