Í safni Kristín G. Guðnadóttir sýningarstjóri og Helgi Már Kristinsson sýningarhönnuður í Listasafni Íslands með tvö af verkum Muggs á bak við sig.
Í safni Kristín G. Guðnadóttir sýningarstjóri og Helgi Már Kristinsson sýningarhönnuður í Listasafni Íslands með tvö af verkum Muggs á bak við sig. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Sýning um listamanninn Mugg, Guðmund Thorsteinsson, verður opnuð í dag, laugardag, kl. 15.30 í Listasafni Íslands. Muggur fæddist á Bíldudal árið 1891 og flutti með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar árið 1903.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Sýning um listamanninn Mugg, Guðmund Thorsteinsson, verður opnuð í dag, laugardag, kl. 15.30 í Listasafni Íslands. Muggur fæddist á Bíldudal árið 1891 og flutti með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar árið 1903. Þar nam hann myndlist við Konunglega listaháskólann á árunum 1911-1915 og tók að því loknu við listferill sem varð aðeins tæp tíu ár þar sem Muggur lést úr berklum árið 1924. Á þeim stutta tíma tókst honum þó að afkasta miklu og einna þekktast af verkum hans er barnabókin ástsæla Dimmalimm sem hann bæði skrifaði og myndlýsti. Þótti stíll hans natúralískur og frásögnin oftar en ekki í fyrirrúmi, eins og því er lýst í tilkynningu, og verk hans einkennast af fjölbreytileika og leit að listrænu frelsi.

Notaði óhefðbundin efni

Kristín G. Guðnadóttir er sýningarstjóri sýningarinnar og segir hún að þó Muggur hafi fyrst og fremst starfað sem myndlistarmaður hafi hann líka leikið á sviði og sungið gamanvísur. Sem myndlistarmaður fékkst hann bæði við olíumálverk, teiknaði og vann klippi- og vatnslitamyndir auk þess að vinna með óhefðbundin efni.

„Það sem einkenndi hann svolítið var þessi notkun hans á óhefðbundnum efnum eins og textíl og útsaumi. Það þótti nú ekki vera karlmannlega iðja að fást við útsaum þannig að hann var svolítið á undan sinni samtíð og ögraði samtímanum með því að fást við miðla sem ekki voru viðurkenndir sem verðugir,“ segir Kristín. „Og ekki nóg með það heldur tróð hann líka upp á skemmtunum, söng og lék og var gríðarlega hæfileikaríkur á mörgum sviðum. Og þessi fjölhæfni hans, auk þess að hann var einstaklega myndarlegur maður, varð til þess að honum var boðið aðalhlutverkið í kvikmyndinni Sögu Borgarættarinnar og ég held að Gunnar Gunnarsson hafi staðið á bak við það.“

Fyrsti húmoristinn

Á sýningunni er leitast við að gera öllum þáttum myndsköpunar Muggs skil og spannar hún vítt svið. Má þar í verkum hans sjá landslag, sveitasælu, þjóðlíf á Íslandi og erlendis, ferðaminningar frá framandi stöðum og þá m.a. skemmtanalífi í New York sem hann upplifði árið 1915.

Einnig má sjá í verkum Muggs þjóðsagna- og ævintýraheim þar sem fíngerðir prinsar og prinsessur dvelja í fögrum höllum, tröllaheima myrkurs og ógnar og náðarheim trúarinnar þar sem Kristur læknar sjúka, eins og það er orðað í tilkynningu. Þar segir einnig að myndskreytingar Muggs við þjóðsögur séu oft með áherslu á skoplegar hliðar þeirra og hann fyrir vikið talinn fyrsti húmoristinn meðal íslenskra myndlistarmanna.

Kristín segir sýninguna í Listasafni Íslands vera yfirlit yfir allan feril Muggs og verkunum skipt í efnisflokka en ekki raðað í tímaröð. „Við erum með landslag og ferðamyndirnar hans, þjóðsögur, ævintýri og trúarleg verk sem voru stór hluti af því sem hann gerði,“ útskýrir hún.

Nú er heldur ólíklegt að yngri kynslóðir Íslendinga þekki til Muggs en Kristín bendir á að flestir þekki hann enn í dag sem höfund Dimmalimmar . „Það hefur ekki verið haldin yfirlitssýning á Muggi í 30 ár og auðvitað fennir fljótt í sporin þegar verkin eru ekki dregin fram en ég held að margir tengi við Dimmalimm og við erum svo heppin að fá frumhandritið að Dimmalimm á sýninguna sem hefur aldrei verið sýnt áður,“ segir hún.

Ný hlið á Muggi

Verkin á sýningunni eru bæði í einkaeigu og úr safneigninni en árið 1958 fékk safnið 46 verk eftir Mugg að gjöf frá danska listmálaranum og prófessornum Elof Risebye.

„Við fórum í mikla herferð, auglýstum eftir verkum og erum búin að skrá um 150 verk í einkaeigu. Sum þeirra hafa aldrei verið sýnd áður og það er mjög áhugavert. Ég held að okkur takist að draga fram dálítið nýja hlið á Muggi og sýna bæði breiddina og dýptina í höfundarverki hans,“ segir Kristín.

Hún segir sérstöðu Muggs á sínum tíma hafa verið áhuga hans á mannlífi og þjóðlífi. „Ég held að hans verði minnst í sögunni fyrir myndskreytingarnar sínar og fyrir þessar þjóðlífsmyndir,“ segir Kristín að lokum.

Sýningin stendur yfir til 13. febrúar 2022.