Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms
Eftir Hjörleif Hallgríms: "Miðflokkurinn yrði mjög hæfur og vel stjórntækur í næstu ríkisstjórn."
Óli Björn Kárason, alþingismaður og sjálfstæðismaður, skrifar sína vikulegu grein í Mbl. miðvikudaginn 29. sept. sem ber yfirskriftina „Lesið í úrslit kosninga“. Þar kemur hann víða við á mjög svo sanngjörnum nótum og þá ekki síst um stjórnarandstöðuna og segir hana hafa skíttapað sem er orð að sönnu. En hann víkur líka að öðru ekki síður mikilvægu, sem er væntanlegt óbreytt samstarf fráfarandi ríkisstjórnar með VG og Katrínu Jakobsdóttur í forsæti og telur það langt í frá einfalt. Hugmyndafræðilegur ágreiningur er verulegur, segir Óli Björn, svo sem skipulag heilbrigðiskerfisins, orkunýting og orkuöflun, skattar og ríkisrekstur og frá þjóðgörðum til skipulagsmála og þvingana í loftslagsmálum, svo minnst sé bara á aðalásteytingarmálin en þó kemur fleira til. Öll friðunarvitleysan, sem svo sannarlega hefur gengið út í hreinar öfgar hjá hinsegin manninum Guðmundi Inga, ráðherra umhverfismála, sem einnig hefur verið duglegur við að eyða peningum og þá er nú ótalið frumhlaup Katrínar Jak. er hún lagði legstein við Ok, sem aldrei var neinn jökull, bara góður snjóskafl eins og við þekktum þá í innbænum á Akureyri í gamla daga. Að mínum dómi er Katrín ekki sú manneskja sem margir vilja vera láta. Það yrði miklu meiri friður og þægilegra að taka Miðflokkinn sem þriðja flokk í ríkisstjórn þótt meirihlutinn yrði naumur því það hefur svo sem gerst áður. Réttast væri að sleppa öfgafólkinu í VG, sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa verið í miklum vandræðum með. Að lokum vil ég segja við Sigurð Inga og aðra framsóknarmen að í Miðflokki er til margt framsóknarfólk jafnaðar og samvinnu.

Höfundur er eldri borgari á Akureyri.