Þór fæddist í Reykjavík á Bjarkargötu 10, 21. nóvember 1949. Hann lést 11. september 2021.

Foreldrar Þórs voru Matthías Ingibergsson apótekari, f. 21.2. 1918, d. 28.6. 2000, og Katla Magnúsdóttir húsmóðir, f. 28.7. 1924, d. 22.10. 2016.

Systkini Þórs eru: Freyja, f. 26.1. 1946, Guðrún Edda, f. 19.12. 1952, og Sif, f. 1.6. 1954.

Þór ólst upp á Selfossi, þar sem faðir hans fékk stöðu apótekara í Apóteki Kaupfélags Árnesinga. Eftir barnaskólann fór Þór í Skógarskóla, síðan í verslunarskóla til Þýskalands.

Þór vann lengi sem blaðamaður hjá Vísi, síðar vann hann hjá Icelandair í London og Air Atlanda.

Í gegnum þá vinnu kynntist Þór fyrrverandi eiginkonu sinni, Janet Kendall-Jones, f. 27.10. 1952. Foreldrar hennar voru Gladys Doreen Jones, f. 8.12. 1925, d. í apríl 1978, faðir hennar var Peter Kendall-Jones, f. 13. apríl 1914, d. í apríl 1992.

Þór og Janet eignuðust dótturina Yrju, f. 4.4. 1991. Þær mæðgur búa í Bretlandi.

Þór og Jan ráku verslunina Kendal á Laugaveginum, seldu þar fínar kristals- og postulínsvörur frá Bretlandi o.fl.

Þau fluttu síðan til Bretlands og bjuggu og stunduðu verslunarrekstur þar. Leiðir þeirra Jan og Þórs skildi eftir 34 ára hjúskap og þá flutti Þór aftur til baka til Íslands og bjó til dauðadags í Reykjavík.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna 22. september 2021.

Þór bróðir okkar fæddist í Reykjavík 21. nóvember 1949. Þriggja ára gamall flutti hann með foreldrum sínum og systur á Selfoss. Þar ólst hann upp og átti góða æsku og eignaðist góða vini.

Eins og títt var á uppvaxtarárum Þórs fór hann í sveit á sumrin í nokkur ár. Fyrst að Laugardalshólum í Laugardal, þá smágutti, til þáverandi ábúenda. Móðir hans hafði sjálf verið í sveit á sama bæ frá unga aldri á hverju sumri í 16 ár. Þar kynntist hann fyrst sveitalífinu og heillaðist af því. Einkum kviknaði hjá honum óbilandi áhugi á hestum og hestamennsku. Síðar á ævinni eignaðist hann sína eigin hesta og naut þess að skreppa í reiðtúra og sinna umhirðu þeirra. Hann var einnig í stuttan tíma í sveit í Neðra-Dal í Biskupstungum hjá æskuvinkonu móður hans, og eiginmanni hennar og sonum.

Þór hafði fallegt hjarta, var hjálpfús og alltaf tilbúinn að bjóða fram lið sitt. Minntist hann oft á að hafa bjargað yngri systrum sínum úr „barnabreks-klípum“ eins og þegar þær máluðu „listaverk“ á veggi heimilisins. Vildi hann forða þeim frá yfirvofandi hegningu föður þeirra, tók fram áhöld og byrjaði að hreinsa „listaverkin“ af veggjunum. Kom faðir hans að honum við þá iðju og taldi að Þór væri að reyna að fjarlægja eigin verk og var tekinn rækilega í karphúsið í þeirra stað. Átti hann það til að fara í jakahlaup á Ölfusá ef aðstæður leyfðu og lenti þá aftur í „karphúsi“ föður síns.

Eftir lögboðna skólagöngu á Selfossi var hann sendur til frekari náms í Skógaskóla, en undi hag sínum ekki þar og fór þá til Þýskalands í verslunarskólanám. Hann nýtti sér ekki það nám fyrr en síðar á ævinni. Eftir heimkomuna fór hann að vinna sem blaðamaður hjá Vísi og var meðal annars sendur sem blaðamaður til Vestmannaeyja við upphaf gossins í Eyjum.

Eftir einhvern tíma sem blaðamaður fór hann að vinna á Reykjavíkurflugvelli hjá Icelandair en síðar Atlanda. Á þeim tíma kynntist hann Janet Kendall Jones frá Simbabve. Felldu þau hugi saman og giftust árið 1979. Bjuggu þau um tíma í Kópavogi og ráku saman verslun í Reykjavík sem hét Kendal. Eftir það fluttu þau til Englands og stunduðu þar einnig verslunarrekstur um tíma. Þar eignuðust þau einkadótturina Yrju árið 1991 og var hún sólargeisli föður síns alla tíð. Þar sem hestamennskan hafði ávalt verið hans stóra áhugamál þráði hann að kynna dóttur sína fyrir hestamennsku og keypti í þeim tilgangi íslenskan hest í Bretlandi. Undi fjölskyldan hag sínum vel í Bretlandi í mörg ár, en svo kom að því að þau hjónin slitu samvistum. Flutti Þór í kjölfarið til Íslands og bjó þar til dauðadags en þær mæðgur búa enn í Bretlandi. Þrátt fyrir skilnaðinn héldu þau þrjú nánu sambandi og vináttu allt fram á hans síðasta dag.

Að lokum sótti hinn illvígi sjúkdómur krabbamein Þór heim og varð hans banamein eftir harða og hetjulega baráttu í nokkur ár. Hann lést á líknardeild Landspítalans 11. sept. sl.

Elsku Jan og Yrja, við systur og fjölskyldur okkar vottum ykkur dýpstu samúð vegna andláts Þórs.

Megi hann hvíla í friði!

Freyja, Edda og Sif.

Þór Matthíasson er látinn eftir stranga baráttu við krabbamein. Hann tókst á við sjúkdóminn af festu og kjarki, kvartaði ekki og vildi ekki láta vorkenna sér. Þór var góður drengur, mörgum kostum búinn, heilsteyptur, réttsýnn og sanngjarn. Þór hafði góða frásagnargáfu og var þannig talsvert líkur móður sinni, henni Kötlu, sem hafði slíka náðargáfu. Hann var hjartahlýr og traustur félagi. Hann tók verðandi mági sínum mjög vel og fyrir það er ég ákaflega þakklátur.

Sem ungur maður starfaði Þór lengi hjá Loftleiðum. Lífið breyttist úr fjörugu ungkarlalífi í staðfestu eftir námskeið nokkurt í Reykjavík, sem nokkrir starfsmenn Loftleiða á Heathrow sóttu. Þar hitti hann unga konu sem hann hreifst ákaflega af. Nokkur kvöld meðan á námskeiðinu stóð þurfti ég að hlusta á langar lýsingar Þórs á þessari konu, þannig að mér fannst sem ég gjörþekkti Jan löngu áður en ég hitti hana. Lýsingar Þórs á henni reyndust allar vera sannar og var hún honum traustur félagi og vinur alla tíð.

Þór og Jan bjuggu mestan hluta af búskapartíð sinni í Englandi, þar sem þau ráku m.a. verslun með veiðivörur. Þau voru höfðingjar heim að sækja. Í fallegu suðurensku umhverfi naut Þór sín ákaflega vel. Hann þekkti vel til veiðistaða og veiðiaðferða í ám og vötnum, auk þess sem Suður-England býður upp á fjölbreytilega skotveiði. Hann átti í ástar/haturs-sambandi við íkorna svæðisins og reyndi árangurslaust að losa sig við þá með loftriffli. Íkornar eru kvikir og Þór vildi eflaust ekki skaða þessi fallegu dýr.

Íslenski hesturinn var hluti af lífsstílnum þótt fjölskyldan byggi erlendis. Mikill tími fór hjá þeim feðginum í að sinna Sendli, hesti Yrju. Sendill þurfti sína athygli og hreyfingu og þessu áhugamáli Yrju sinnti Þór af mikilli elju. Sjálfur var hann reyndar liðtækur hestamaður á unglingsárunum. Yrja stundaði tónlistarnám sem barn og unglingur og æfði og spilaði á risastóra hörpu. Það var meiriháttar mál að ferja hörpuna fram og til baka og sinnti Þór því af einstakri lagni. Enda voru skemmtilegar sögur af hörpuflutningum meðal bestu frásagna Þórs.

Góður vinur er fallinn frá. Ég sendi Yrju og Jan mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Jörundur Svavarsson.