Elsku Ljónið mitt, lífið hefur verið svolítið margslungið hjá þér. Alveg eins og þú sért að horfa á kvikmynd sem er sýnd hægt og þú skilur ekki alveg. Eða að myndin er sýnd of hratt og þú nærð ekki öllu sem er að gerast.

Elsku Ljónið mitt, lífið hefur verið svolítið margslungið hjá þér. Alveg eins og þú sért að horfa á kvikmynd sem er sýnd hægt og þú skilur ekki alveg. Eða að myndin er sýnd of hratt og þú nærð ekki öllu sem er að gerast. En núna ertu komin/n á þann tíma að þú getur stillt þetta saman og notið lífsins í því jafnvægi sem þú vilt vera í. Og fólk sem þér fannst svo ofur merkilegt getur líka skitið upp á bak, það er bara mannlegt. Þú þarft líka að sjá betur aðra sem eru í námunda við þig sem eru með hlutina miklu meira á hreinu en þér datt í hug.

Gerðu það að takmarki þínu að læra að setja þig í spor annarra og hugsa út frá þeirri persónu sem þú ert að skoða. Þú ert að efla það í þér að vera öðruvísi en flestir aðrir og að geta fengið þá eftirtekt sem þú kærir þig um, en láttu þá jákvæðu hliðina á þér vera ráðandi. Og alls ekki í eina mínútu skaltu velta þér upp úr eða að tala um annarra manna drama, því þá gæti það orðið þitt eigið.

Það er svo ótalmargt búið að gerast í sumar og þú situr uppi með heilan helling af þroska. Þú ferð þar af leiðandi tvíefld/ur inn í þennan yndislega vetur sem er að mæta þér. Og það væri gott fyrir þig að skrifa dagbók. Í stuttu máli skrifa niður hvað hefur gerst síðustu þrjá mánuði og halda þessa dagbók allavega fram að áramótum. Því það er ekki einu sinni í huga þínum sú hugmynd hvernig lífið brosir við þér á ótrúlegustu stöðum þegar líða tekur á þennan skemmtilega vetur.

Ég dreg fyrir þig tvö spil og fyrra spilið táknar erfiðar hugsanir og talan tveir er á því sem merkir tilfinningar. Þessar hugsanir eru blekking, svo lærðu að stjórna huganum betur. Spil númer tvö er talan sjö sem sýnir mynd af þér að koma í mark með rauðan fána og táknar sigur.