Finni stendur í dyragættinni á veiðiherberginu sínu, en þar inni má sjá ýmsa muni tengda hans helsta áhugamáli, skotveiði. Hann er líklega mesta rjúpnaskytta landsins en Finni gekk til rjúpna í 75 ár í 1.330 ferðum. Það jafngildir tæpum fjórum heilum árum sem Finni hefur eytt á fjöllum með byssu í hendi.
Finni stendur í dyragættinni á veiðiherberginu sínu, en þar inni má sjá ýmsa muni tengda hans helsta áhugamáli, skotveiði. Hann er líklega mesta rjúpnaskytta landsins en Finni gekk til rjúpna í 75 ár í 1.330 ferðum. Það jafngildir tæpum fjórum heilum árum sem Finni hefur eytt á fjöllum með byssu í hendi. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurfinnur Jónsson, fyrrverandi línumaður og rjúpnaskytta, hefur komist í hann krappan oftar en einu sinni. Hann lenti í skelfilegu slysi þegar hann var um fertugt þegar hann fékk í sig háspennustraum og missti við það handlegg og skaddaðist á fæti.

Sigurfinnur Jónsson, fyrrverandi línumaður og rjúpnaskytta, hefur komist í hann krappan oftar en einu sinni. Hann lenti í skelfilegu slysi þegar hann var um fertugt þegar hann fékk í sig háspennustraum og missti við það handlegg og skaddaðist á fæti. Hann lét það ekki stöðva sig en Finni hefur veitt rjúpur í 75 ár og segir hann rjúpuna vera sinn bjargvætt. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Á Sauðárkróki býr Sigurfinnur Jónsson, kominn á tíræðisaldur en vel ern. Finni, eins og hann er ávallt kallaður, hefur marga fjöruna sopið á langri ævi og margsinnis sloppið með skrekkinn. Reyndar segist Finni aldrei finna til hræðslu, en við komum að því síðar. Hann býður mér til sætis í uppáhaldsherbergi sínu sem hann kallar veiðiherbergið. Þar inni má finna ótal gripi, tæki og tól tengd veiðimennsku. Bækurnar í hillunum eru margar um rjúpur eða ævintýramennsku og háskafarir. Í horninu er rammlæstur byssuskápur, á vegg hangir læstur skápur fullur af skotum og tveir hausar af villisvínum hanga brosandi yfir blaðamanni þar sem hann sýpur á kaffi úr postulínsbolla.

Finni sest í sófann á móti mér og setur sig í sögumannsstellingar. Hann strýkur á sér gervihandlegginn og byrjar á að tala um helsta áhugamálið, rjúpnaveiðar. Það verður blaðamanni fljótt ljóst að hér fer líklega einn mesti skotveiðimaður Íslands, en Finni hefur gengið á rjúpu í 75 ár.

„Ég á kannski heimsmetið, en ég byrjaði um þrettán ára gamall,“ segir Finni sem er í dag 91 árs.

Við ræðum fleira en ástríðu hans fyrir skotveiði, því Finni hefur lent í lífsháska oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Svo oft hefur hann komist í hann krappan að skrifuð var um hann bók árið 1999, rituð af sveitunga hans, Árna Gunnarssyni. Bókin nefnist Háspenna-lífshætta.

Hugsaði bara um að lifa af

Finni er ættaður af Reykjaströndinni en hefur lengst af búið á Sauðárkróki. Hann stundaði sveitastörf sem barn og unglingur og fór svo á sjó sautján ára gamall. Eftir áralanga sjómennsku réð hann sig til Rarik og vann þar sem línumaður, við vélgæslu og á skrifstofu í rúma hálfa öld. Eitt starfa hans var að leggja háspennulínur víða um land.

Hinn 30. maí árið 1973 þegar Finni var 43 ára lenti hann í hræðilegu slysi við vinnu sína.

„Ég meiddi mig þar ansi illa. Ég lenti í háspennustraumi og það brann af mér höndin og fóturinn fór líka illa. Ég var að laga línuna þarna á einum stað og fékk ekki að taka strauminn af, sem var tómt rugl. Ég var í belti en datt úr staurnum og hékk þar, snerist og missti annan skóinn og greip þá með vinstri hendinni í vírinn.“

Ellefu þúsund volta háspennustraumur fór í gegnum líkama hans og er kraftaverk að Finni lifði það af.

Það hlýtur að hafa verið ansi vont!

„Já, ég held að þetta sé versti bruni sem hægt er að lenda í, hann fer alveg í gegnum mann. Ég brann líka á hælunum.“

Hvað hugsaðir þú þegar þetta gerðist?

„Ég hugsaði bara um að lifa af. Fingurnir voru eins og klær, það var allt hold farið af þeim. Fótleggurinn brann inn í bein; það skein bara inn í beinið og ég missti fjórtán sentimetra bút af lærinu. Ég komst svo niður með hjálp Sigurðar A. Ólasonar, vinnufélaga míns,“ segir Finni og segist hafa verið fluttur á spítalann á Sauðárkróki.

Ekki meiri kvalir í helvíti

„Svo var ég látinn bíða þar eftir áætlunarvél í fimm tíma.“

Varstu ekki að drepast úr verkjum?

„Ég drapst ekki. En fólk hefur kannski haldið að ég myndi drepast, því ekki var boðið upp á sjúkravél suður sem er mjög sérstakt. Ég var óhemjukvalinn. Það eru ekki meiri kvalir í helvíti, það getur ekki verið. Ég hafði fengið smá morfín á Sauðárkróki en þegar ég kom á Landspítalann sagði læknirinn Árni Björnsson að ég mætti ekki fá morfín. Hann sagði að það myndi drepa mig og sagði að ég hefði ekki mátt fá neitt morfín áður en ég fór í flugið. Svo gat hann ekki tekið handlegginn fyrr en viku seinna því hann treysti mér ekki í aðgerð. Handleggurinn var svo tekinn af og húð grædd á lærið á mér,“ segir Finni og segir áfallið hafa að vonum verið mikið.

„Ég held að það sé ekki hægt að fá meira áfall. Ég efast um það, nema að missa barnið sitt, segir Finni,“ en dóttir hans Elsa lést fyrir tæpu ári, langt fyrir aldur fram.

„En miðað við líkamstjón er ekki hægt að fá meira áfall,“ segir Finni og segist sjá eftir hring sem var á fingri handarinnar sem brann.

„Ég hefði viljað fá að eiga hringinn sem var fastur í beininu á fingrinum, en þessu var öllu hent í ruslið.“

Óhemjugaman á rjúpu

Finni lá á spítalanum í sex vikur og átti svo að fara á Reykjalund í endurhæfingu. Læknirinn sagði við hann að ef hann gæti gengið upp tröppur mætti hann fara heim, annars ekki. Finni gekk upp tröppurnar og fékk því að fara heim.

„Ég var aðeins orðinn brattur, en hafði upplifað óhemjukvalir, löngu eftir að það var búið að taka af mér höndina. Ég sagðist bara vilja fara heim að skjóta rjúpur. Hann hló nú bara að mér, en það endaði með því að ég fór aldrei á Reykjalund. Ég skaut 182 rjúpur þetta haust, og er þetta erfiðasta haust sem ég hef lifað. Ég datt alltaf því löppin á mér var ómöguleg,“ segir Finni og segist hafa lært upp á nýtt að nota haglabyssu, orðinn einhentur, en hann leggur alltaf byssuna ofan á gervihandlegginn.

„Ég var þá kominn með gervihöndina. Ég veit ekki hvort ég var jafngóð skytta og áður, en það segja þeir sem hafa veitt með mér,“ segir Finni og segir rjúpnaveiðar það skemmtilegasta sem hann veit.

„Það er ekki til erfiðara áhugamál en ég gekk alltaf á fjöll frá veginum þar sem ég lagði bílnum. Ég gekk oft í sjö, átta tíma stanslaust. Ég hafði óhemjugaman af þessu.“

Hvað er svona skemmtilegt við að skjóta rjúpur?

„Maðurinn lifði lengi vel af veiðum og sá sem ekki gat veitt datt út. Hann var ekki maður. Allt líf á jörðinni byggist á drápi.“

Í byrjun desember sama ár, sex mánuðum eftir slysið, var Finni kominn til vinnu á ný hjá Rarik.

„Ég hafði ekkert val, ég þurfti bara að halda áfram að vinna. Það kom ekkert annað til greina. Ég ætlaði í málaferli við fyrirtækið því auðvitað var þetta ólöglegt að hafa ekki tekið strauminn af, en þeir sömdu við mig. Ég fékk að vinna áfram og fékk upphæð sem samsvarar varla einum bíl. Þremur árum síðar keypti ég hús og þá kom peningurinn sér vel. Þetta var helvíti hart en lífið er bara helvíti hart. Ég þurfti bara að ganga að þessu, enda með konu og tvö börn. Ég gat ekki annað,“ segir Finni og segist hafa búið í húsinu allar götur síðan.

Villisvín eru harðar skepnur

Finni hóf að skjóta rjúpur þrettán ára gamall.

„Ég tíndi fyrir bróður minn Pál og fékk í staðinn að skjóta einu skoti á dag. Það var kaupið,“ segir hann og útskýrir fyrir blaðamanni að hann hafi tínt upp rjúpurnar sem bróðir hans skaut.

„Hann notaði mig fyrir veiðihund.“

Er erfitt að skjóta rjúpur?

„Það er nú misjafnt. Ef hún er í háfjöllum er ekki hægt að stunda erfiðari veiðar en þetta. Það er ekkert gaman að skjóta rjúpur ef þær eru komnar niður; það er engin íþrótt. Ég skýt að minnsta kosti þriðju hverju rjúpu á flugi,“ segir hann og segist hafa veitt í öllum veðrum, enda vildi hann oft sjá hvort hann gæti veitt við erfiðar aðstæður.

„Ég er viss um að rjúpan bjargaði mér. Ég hefði aldrei lagt þetta á mig að þjálfa mig svona upp ef ég hefði ekki svona gaman af rjúpnaveiði. Það leið tvisvar yfir mig af kvölum. Ég gekk svo bara áfram þegar ég rankaði við mér. Ég hefði ekki fengið betri endurhæfingu á Reykjalundi. Það er ótrúlegt hvað maður getur gert ef maður leggur allt í það. Það er með ólíkindum.“

Finni fór á eftirlaun sjötugur og er nýhættur að skjóta rjúpur. Nú notar hann tímann til að lesa og segir hann ævintýra- og lífsháskabækur í uppáhaldi, en Finni hefur ávallt verið mikill lestrarhestur.

„Ég skaut rjúpur í 75 ár, í 1.330 ferðum. Ég hef alltaf haldið dagbók og veit að ég hef skotið yfir 18.000 rjúpur,“ segir Finni og segist eiga nákvæmar veiðidagbækur um allar ferðir sínar.

Finni býður blaðamanni til stofu og sýnir honum stóran glerskáp með uppstoppuðum dýrum, þar á meðal rjúpu.

„Þetta er síðasta rjúpan sem ég skaut, árið 2019. Konan mín lét stoppa hana upp.“

Ertu ekki besta rjúpnaskytta landsins?

„Ég get ekki svarað því en ég held að enginn eigi fleiri daga á fjöllum en ég, ég held ekki.“

Hvað er skrítnasta dýr sem þú hefur veitt?

„Villisvín, það eru hörðustu skepnur sem til eru sem hægt er að skjóta, harðari en ég. Ég skaut þau í Póllandi. Þau koma á móti manni á fullri ferð og geta drepið mann. Sem er auðvitað bara sanngjarnt.“

Prjónabrókin reddaði mér

Mér skilst að þú hafir oft komist í hann krappan, líka fyrir slysið?

„Já. En þó held ég að ég hafi verið í mestri hættu inni á spítala. Eitt sinn fékk ég bráðaofnæmi og þyngdist um fjórtán kíló á tveimur sólarhringum; ég blés allur upp. Það vissi enginn hvað væri að mér og þeir dældu bara blóði í mig endalaust. Það átti að fara að skera mig upp og taka miltað þegar Jón Hjaltalín læknir kom loks og sá strax hvað væri að mér. Að ég væri með bráðaofnæmi. Þetta er svo vitlaust að það nær engri átt. Tvisvar hef ég verið nærri drepinn á Landspítalanum. Ég er búinn að lenda oft í lífsháska en þetta er minnisstæðast,“ segir Finni.

Áður en Finni missti höndina lenti hann eitt sinn í bráðum háska, en hann féll niður um vök um hávetur.

„Ég var á rjúpnaskytteríi og áin var ísilögð, enda sextán stiga frost hér á Króknum. Það var hópur af rjúpum sem flaug yfir ána og ég stoppaði til að skoða þetta. Mér sýndist áin vera frosin og ég labba út á og kem að frosnu krapi. Þá dett ég í gegn og enginn botn. Ég gat gripið í brúnina en þá brotnaði skörin. Ég kastaði byssunni upp á ísinn, en þetta var ný byssa. Það endaði með að ég lagðist flatur við skörina og gat þannig híft mig upp.“

Hélstu að þetta væri þitt síðasta?

„Nei, nei, ég hélt það ekki neitt. En þarna sá ég hvað gallabuxur voru lélegar; ég hef ekki farið í þær síðan. Saumarnir rifnuðu allir í frostinu. Ég þurfti að labba um fimm hundruð metra frá vökinni að bílnum og þær hrundu bara af. Ég var í prjónabrók og það reddaði mér. Ég hitti þarna karl sem stóð við afleggjara að næsta bæ og hann var að húkka far á Krókinn. Hann sagði mér að ég skyldi passa mig að fá ekki lungnabólgu. Ég sagði honum að ég færi í bað og skipti um föt og svo þyrfti ég að athuga með þessar rjúpur. Hann hélt ég væri vitlaus! En ég fór í bað og önnur föt og fór hinum megin við ána og náði þessum rjúpum rétt fyrir myrkur.“

Hræðsla gagnast ekki

Það mætti halda að Finni ætti sér níu líf eins og kötturinn því hann hefur lent í fleiri lífshættulegum atvikum.

„Ég var líka sigmaður í Drangey og fékk einu sinni stein í hausinn. Ég var með hjálm sem bjargaði mér. Þetta var svaka högg og það kom dæld í hjálminn en ég slapp. Ég kleif líka einu sinni eyjuna þar sem enginn hefur klifið hana. Þegar það voru fimmtán, tuttugu metrar eftir upp, taldi ég þetta ófært. En það var ekkert hægt að snúa til baka þannig að eina leiðin var upp. Þetta var auðvitað tóm vitleysa.“

Varstu hræddur?

„Nei, ef maður verður hræddur, þá er þetta búið. Það fyrsta sem maður þarf að gera er að útiloka hræðsluna ef maður lendir í lífsháska.“

En þegar þú lentir í háspennulínunni, varstu ekkert hræddur þá?

„Nei, ég útilokaði hræðsluna. Það er ekkert gagn að því að vera hræddur. Það deyja allir en það er kannski óþarfi að deyja fyrir sinn tíma.“

Hægt að venjast öllu

Nú hefur þú lifað meira en hálfa ævina með gervihönd. Hvernig var að venjast því?

„Ég átti ekki annarra kosta völ, það er bara einfalt mál. Maður venst öllum andskotanum þegar maður hefur ekki möguleika á öðru,“ segir Finni og segist alltaf hafa verið staðráðinn í því að komast aftur á rjúpu.

„Ef ég gæti ekki gengið til rjúpna, þá væri lífið búið, það er ekkert annað. Rjúpan bjargaði mér.“

Saknarðu þess að komast ekki lengur á rjúpu?

„Nei, ég er alveg sáttur við það. Ég er ánægður með það sem ég er búinn að skila. Ég er sáttur.“