Guðbjörg Sigríður Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 3. júní 1980. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu, Tröllakór 7, 25. september 2021.

Foreldrar hennar eru Alda Breiðfjörð Indriðadóttir, f. 22. mars 1946, og Einar Bjarnason, f. 13. mars 1952.

Systkini Guðbjargar eru: 1) Bjarni Georg Einarsson, f. 28.1. 1973, eiginkona hans Bryndís Guðmundsdóttir, f. 13.4. 1978, og eiga þau fimm börn. 2) Guðrún Ólöf Einarsdóttir, f. 7.4. 1974, og á hún þrjá syni. 3) Jóhanna Ásgerður Einarsdóttir, f. 22.12.,1981.

Guðbjörg lætur eftir sig dóttur, Ivy Öldu Guðbjargardóttir, f. 23.12. 2002.

Guðbjörg lauk grunnskólaprófi frá Snælandsskóla í Kópavogi og gekk í fjölbrautarskólann í Ármúla þar sem hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut árið 2001. Eftir stúdent vann hún sem móttökuritari í menntamálaráðuneytinu þar til hún eignaðist dóttur sína í desember 2002. Hún lauk diplómu í fjármálum og reikningshaldi frá HÍ. Árið 2006 stundaði Guðbjörg nám í lögreglufræðum sem hún lauk sama ár. Hún starfaði sem lögregluþjónn í tíu ár. Eftir að hún lauk störfum sem lögregluþjónn vann hún ýmis störf.

Útförin mun fara fram frá Lindakirkju í dag, 11. október 2021, klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á:

http://lindakirkja.is/utfarir

Virkan hlekk má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Ég trúi því ekki enn að ég sitji hér og skrifi minningarorð um þig elsku Gugga mín. Þetta líf er svo ósanngjarnt og sérstaklega á þessari stundu, aðeins 41 árs í blóma lífsins ertu tekin frá okkur. Við vorum með svo mörg plön saman, líta út eins og J'Lo um fimmtugt og fara saman til Havaí þegar við yrðum sextugar. Ósjaldan áttum við það til að senda skilaboð á sömu sekúndu með sömu hugmyndum eða þegar við spjölluðum að segja sama hlutinn. Við sögðum að þetta væri orðið „sick“ og spúkí eins og mamma myndi segja.

Ég sit hérna með tárin streymandi að minnast alls sem við gerðum saman og ætluðum að gera. Allar ferðirnar sem ég, þú og Ivy fórum saman í og sú síðasta til Kosta Ríka sem er mér svo dýrmæt. Við deildum svörtum kaldhæðnishúmor sem fáir aðrir skildu. Oft á dag kemur eitthvað upp í huga mér eða eitthvað gerist sem ég hefði verið vön að deila með þér en get það ekki.

Frá því ég fæddist passaðir þú upp á mig og stóðst þig svo vel í stórusysturhlutverkinu. Þegar ég lenti í einelti í grunnskóla þá tókst þú málin í þínar hendur, sama hversu stór og sterkur eineltisseggurinn var þá lét hann mig vera eftir að þú gekkst í málin. Ég leit alltaf svo upp til þín, var svo stolt að eiga stóra systur í sama grunnskóla en eðlilega þótti þér pirrandi að litla dýrið væri að reyna að troða sér með. Eftir menntaskóla breyttist það og urðum við óaðskiljanlegar og eyddi ég ófáum stundum með þér og Ivy sem er mér svo dýrmætt.

Þú hafðir svo gaman af því hvað ég var seinheppin og orðin þín „bara þú!“ hljóma í hausnum á mér þegar ég segi þér frá nýjustu hrakfallasögum mínum. Sjá svipinn á þér og hláturinn þinn þegar ég kom úr róandi göngutúr á ströndinni annan daginn okkar í Kosta Ríka og hafði flogið á hausinn í flæðarmálinu öll rennandi blaut og útötuð í sandi, því mun ég aldrei gleyma. Sundferðin okkar þegar við vorum krakkar. Við skelltum okkur í rennibrautina, þú fyrst og ég á eftir, nema ég kem niður með rifu á sundbolnum þvert yfir rassinn. Þú hlóst þig máttlausa á meðan ég „mjög reið“ sagði að þetta væri ekki fyndið. 50 m gangurinn að búningsklefanum og við ákváðum að labba það í stað þess að fara í laugina. Til að hafa þetta ekki áberandi gekkst þú alveg upp við mig og hélst saman sundbolnum. Það eru endalausar svona minningar sem við deilum, hlátur og grátur og allt þar á milli.

Mun sakna þess að spila við þig og mömmu sem við gerðum mikið af. Þú æstir þig alltaf mikið upp enda mjög tapsár og áttir það til að grýta í okkur spilunum. „Þetta er ekki eðlilegt,“ hljómaði í kjölfarið. Þú hafðir svo gott auga fyrir hönnun og öðru tengdu heimilinu. Þið Ivy tókuð ykkur oft til og skipulögðuð heima hjá mér og gerðuð allt svo fallegt.

Lífið var mjög ósanngjarnt við þig og ég reyndi eins og ég gat að taka á mig eins miklar byrðar og ég gat til að létta undir þér. Ég mun gera mitt besta til að hjálpa Ivy Öldu og ég veit að öll fjölskyldan mun hjálpa mér í því. Minning þín lifir í hjörtum okkar og í Ivy.

Hvíl í friði elsku systir og vinkona, ég mun sakna þín mikið.

Jóhanna.