[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Aldís Kara Bergsdóttir tryggði sér um helgina sæti á Evrópumeistaramótinu á listskautum, fyrst íslenskra skautara. Aldís tryggði sér keppnisétt á mótinu með góðum árangri á Finlandia Trophy.
* Aldís Kara Bergsdóttir tryggði sér um helgina sæti á Evrópumeistaramótinu á listskautum, fyrst íslenskra skautara. Aldís tryggði sér keppnisétt á mótinu með góðum árangri á Finlandia Trophy. Hún bætti eigið Íslandsmet í stuttu prógrammi er hún fékk 25,15 tæknistig og 45,45 stig í heildina. Með tæknistigunum var sæti á EM í höfn. Aldís náði lágmarkstæknistigum fyrir Evrópumótið í frjálsu prógrammi í Þýskalandi fyrir tveimur vikum, en til að fá þátttökurétt á EM þarf að ná lágmarkinu í bæði stuttu og frjálsu prógrammi. EM fer fram í Tallinn í Eistlandi frá 10. til 16. janúar á næsta ári.

* Martin Hermannsson bar af þegar lið hans Valencia tapaði 79:93 gegn stórveldinu Real Madríd í spænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Martin var stigahæstur allra í leiknum með 20 stig, og gaf sex stoðsendingar á liðsfélagana.

*Annað Padel-mót Hafna- og mjúkboltafélags Reykjavíkur fór fram um helgina í Tennishöllinni í Kópavogi.

Jonathan Wilkins sigraði með 71% sigurhlutfall. 12. nóvember fer fram fyrsta padel-mót kvenna á Íslandi.

*Tilkynnt var í gær að Guðlaugur Victor Pálsson hefði dregið sig út úr landsliðshópi karla í knattspyrnu sem mætir Liechtenstein í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld. Guðlaugur Victor var í byrjunarliðinu þegar liðið gerði jafntefli gegn Armeníu en hélt um helgina til Þýskalands þar sem hann leikur með Schalke. „Gulli dró sig út úr hópnum til að fara til síns félags. Þá er hann ekki hér. Hann taldi mikilvægara að vera þar en hér. Við vildum halda Gulla hjá okkur,“ sagði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi.

*Kvennalandsliðið í íshokkí tapaði í gær fyrir Slóveníu 6:2 í F-riðli forkeppni Vetrarólympíuleikanna í Nottingham á Englandi. Kolbrún Garðarsdóttir skoraði bæði mörk Íslands og kom Íslandi 2:1 yfir. Slóvenía seig fram úr í síðasta leikhlutanum og tapaði Ísland öllum þremur leikjunum. S-Kórea vann riðilinn og komst áfram í undankeppnina.

*Berglind Björg Þorvaldsdóttir , landsliðskona í knattspyrnu, skoraði eitt mark og lagði upp annað þegar lið hennar Hammarby vann 4:1-sigur gegn nágrönnum sínum í AIK í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Markið var hennar fyrsta fyrir Hammarby og skoraði hún það fyrir framan alls 18.537 áhorfendur sem lögðu leið sína á Tele2 Arena í Stokkhólmi, heimavöll liðsins.

Aðsóknarmet sænsku úrvalsdeildarinnar hjá konunum var þar með slegið svo um munar, en fyrra met frá árinu 2008 var 9.413 manns á leik Linköping og Umeå. Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn í vörn AIK.

*Ægir Þór Steinarsson lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Gipuzkoa í 1. umferð spænsku b-deildarinnar í körfuknattleik. Óhætt er að segja að íslenski landsliðsmaðurinn hafi slegið í gegn í frumrauninni því hann skoraði 27 stig og gaf fjórar stoðsendingar í 105:76-sigri.

*Perry McLachlan og Jón Stefán Jónsson eru teknir við kvennaliði Þórs/KA í knattspyrnu og skrifuðu báðir undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild félagsins. Andri Hjörvar Albertsson var leystur frá störfum undir lok síðasta mánaðar og munu McLachlan og Jón Stefán nú stýra liðinu í sameiningu. Þór/KA hafnaði í 6. sæti úrvalsdeildar kvenna, Pepsi Max-deildarinnar, í sumar.

* Andrea Kolbeinsdóttir úr ÍR og Arnar Pétursson úr Breiðabliki sigruðu á Meistaramóti Íslands í víðavangshlaupi í Laugardalnum um helgina. Keppt var í hæðóttri braut bæði á möl og grasi og var vegalengdin átta kílómetrar. Andrea hljóp á 32,15 mínútum en Arnar á 29,55 mínútum.

* Frakkland sigraði í Þjóðadeild karla í knattspyrnu en í gærkvöldi lögðu Frakkar Spánverja 2:1 í úrslitaleiknum. Mikel Oyarzabal kom Spáni yfir en Karim Benzema og Kylian Mbappé svöruðu fyrir Frakkland sem einnig er heimsmeistari. Evrópumeistararnir frá Ítalíu náðu þriðja sæti með 2:1-sigri gegn Belgíu í leiknum um bronsið.

* Úlfhildur Arna Unnarsdóttir stóð sig afar vel á heimsmeistaramóti ungmenna 17 ára og yngri í ólympískum lyftingum í Jeddah í Sádi-Arabíu þar sem hún setti meðal annars Íslandsmet í snörun í sínum þyngdarflokki. Úlfhildur Arna, sem er 16 ára gömul, keppti í 71 kílógramms flokki meyja og snaraði 81 kílói. Í jafnhendingu náði hún 96 kg. Með þessu jafnaði hún Íslandsmetið í samanlögðu með 177 kg og hafnaði í 9. sæti á mótinu.