Guðný Egilsdóttir fæddist 5. apríl 1945. Hún lést 18. ágúst 2021.

Útför hennar fór fram í kyrrþey.

Guðný Egilsdóttir fyrrverandi mágkona mín, eða Gullý eins og hún var kölluð, er nú gengin á vit feðra sinna. Mér finnst við hæfi að minnast hennar enda margar góðar samverustundir tengdar henni. Það var árið 1961 sem ég sá Gullý fyrst, en það var á gömludansadansæfingu í Alþýðuhúskjallaranum. Gullý var þar ásamt Aggýju systur sinni og Erlu vinkonu þeirra. Ég var satt að segja feiminn við þessar fallegu stúlkur í fyrstu, enda ekki nema 15 ára þá. Feimnin rann þó af mér enda hófst með okkur ágætur kunningsskapur á dansnámskeiðinu. Þessi kunningsskapur leiddi til kynna Lárusar bróður og Gullýjar. Þau urðu par og hófu fljótlega sambúð í lítilli íbúð á Njálsgötunni í Reykjavík. Þau giftust eftir tveggja ára sambúð og fluttu í nýja íbúð, sem þau keyptu sér á Kleppsveginum. Árið 1965 eignuðust þau soninn Ólaf, sem var sannkallaður sólargeisli innan fjölskyldu okkar, og hann var fyrsta barnabarn foreldra minna. Gullý og Lárus skildu eftir 10 ára hjónaband og kom það mörgum á óvart. Eftir skilnað þeirra var Gullý í góðu sambandi við foreldra mína og okkur hjónin. Við hittumst stundum heima hjá foreldrum mínum og vorum í reglulegu símasambandi til hinsta dags.

Gullý var vel af guði gerð. Hún var glaðvær, átti auðvelt með nám, tók gagnfræðapróf og fékk vinnu á skrifstofu Ölgerðarinnar í Reykjavík. Seinna bætti hún við kunnáttu sína í matargerð og vann víða sem matráðskona er á ævina leið. Gullý fékkst einning mikið við hannnyrðir, og varð snillingur í að prjóna lopapeysur, sem eftir hana liggja í tugatali. Gullý stóð vaktina með prýði þar til yfir lauk. Hún tókst á við erfið veikindi síðustu mánuðina og þrátt fyrir lyfjagjöf og læknishjálp fékk hún ekki bót meina sinna, sem að lokum urðu henni að aldurtila. Ég ræddi við Gullý í síma um viku fyrir andlátið, og var hún þá málhress og bjartsýn á að ná heilsu á ný, þrátt fyrir að hafa verið flutt á sjúkrahús þá um morguninn. Gullý heitin var trúuð og hjálpaði það henni við að takast á við lífið og tilveruna. Við hjónin kveðjum Gullý með söknuði en yljum okkur við góðar minningar um hana. Sendum fjölskyldu og vinum Gullýjar samúðarkveðjur.

Ólafur Beinteinn Ólafsson og Dagný Elíasdóttir.