[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Teitsson fæddist 11. október 1941 á Brún í Reykdælahreppi, S-Þingeyjarsýslu. Hann ólst upp á Brún og líka í Saltvík við Skjálfandaflóa en þar bjó fjölskyldan 1943-51.

Björn Teitsson fæddist 11. október 1941 á Brún í Reykdælahreppi, S-Þingeyjarsýslu. Hann ólst upp á Brún og líka í Saltvík við Skjálfandaflóa en þar bjó fjölskyldan 1943-51.

„Ég er Þingeyingur að uppruna, og man fyrst eftir mér á bænum Saltvík, sem er 5 km frá Húsavík. Ég varð snemma læs og sem heila bók las ég einna fyrst Grettis sögu. Á Húsavík bjuggu margir sjómenn sem áttu nokkrar kindur hver og á Saltvíkurárunum tók faðir minn að sér að halda talsverðu af þessum kindum til beitar yfir veturinn við sjóinn ásamt eigin fé. Sjómennirnir borguðu fyrir sig í sjávarafurðum, peningar voru ekki notaðir. Maður vandist þá t.d. signum fiski og ýmsum flatfiski og þykir síðan fiskur góður. Einn sjómaðurinn, Þórður að nafni, tók eftir lestrarhneigð minni og færði mér nokkrar bækur sem mér þótti afar vænt um. Bækurnar á ég enn.

Þegar aftur kom í Reykjadalinn gekk ég í farskóla í sveitinni í um fjórar vikur alls, það var öll hin formlega barnaskólaganga.“ Björn varð síðan stúdent frá MA 1962. „Á skólaárunum vann ég í síldarverksmiðjunni á Raufarhöfn í fjögur sumur. Það var ævintýraleg reynsla.“ Hann lauk síðan meistaraprófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1970 og hafði áður tekið tvö stig í bókasafnsfræði frá HÍ 1963-64. „Ég var svolítið í pólitíkinni á þessum árum og var því lengur í háskólanum en ég ætlaði upphaflega. Ég ákvað síðan að háskólinn skyldi ganga fyrir og pólitíkin yrði að sitja í 2. sæti eða því 3.“ Árið 1971 var Björn í náms- og starfsdvöl í Björgvin og Osló í Noregi, hann lauk prófi í uppeldis- og kennslufræði frá HÍ 1981 og prófi í frönsku fyrir erlenda stúdenta frá Sorbonne, París, 1991.

Starfsferill

Björn var stundakennari við MR 1965 og 1967, styrkþegi Handritastofnunar Íslands 1965 og 1970, settur lektor í sagnfræði við HÍ 1972 og 1974-76 og stundakennari við HÍ 1972-74 og 1976-79. Hann hafði einnig umsjón með sjónvarpsþáttum frá Alþingi 1973-76. Hann var skólameistari við Menntaskólann á Ísafirði 1979-2001. „Það var stundum frekar erfitt starf, af því það var svo erfitt að útvega kennara, maður gat verið allt sumarið að reyna að finna kennara. Kennaralaunin fóru líka lækkandi hlutfallslega á þessum árum. En ég kynntist mörgu góðu fólki fyrir vestan.“ Björn var síðan kennari við Menntaskólann á Akureyri 2001-06 og við Verkmenntaskólann á Akureyri 2006-07. „Á Akureyri er gott að vera og hér vil ég vera.“ Björn starfaði að ritun sögu Menntaskólans á Ísafirði 2007-10 og vann að gerð samvinnusýningar í Safnahúsinu á Húsavík 2009-12.

Björn var formaður Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum, 1963-64, formaður Stúdentaráðs HÍ 1965-66, ritari SUF 1966-70 og varaþingmaður fyrir Framsóknarflokk í Norðurlandskjördæmi eystra 1967-71. Hann var formaður Sagnfræðingafélags Íslands 1972-74, Félags íslenskra fræða 1976-78 og sat í stjórn Launasjóðs rithöfunda 1979-82. Hann var formaður menningarráðs Ísafjarðar 1986-90 og 1994-96, formaður sóknarnefndar Ísafjarðar 1989-2001 og sat í stjórn Þjóðhátíðarsjóðs 1989-2013.

Ritstörf Björns eru Eignarhald og ábúð á jörðum í Suður-Þingeyjarsýslu (1973); Íslandssögukaflar 1551-1630 (1976); Desertion and Land Colonization in the Nordic Countries (meðhöf., 1981); Ágrip af sögu Tónlistarskóla Ísafjarðar, í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 1998, bls. 7-124; Saga Menntaskólans á Ísafirði (2010). Greinar og ritgerðir í blöðum og ýmsum ritum. Hann ritstýrði Sögu (tímariti Sögufélags) 1972-80 (ásamt öðrum), Ísfirðingi 1983-88 og Súlum, norðlensku tímariti, 2013-21. „Ég mun hætta að vera ritstjóri Súlna núna, fyrst ég er orðinn svona gamall. Þetta hefur verið talsverð vinna en ég hef haft gaman af henni. Ég er samt alltaf að grúska öðru hvoru en hvort það birtist eitthvað veit enginn.

Eftir að við Anna konan mín tókum saman árið 1993 fórum við mikið í ferðalög, bæði innanlands og til útlanda og við komumst alla leið til Japans og Ástralíu en það var mest farið um Evrópulönd. Ein skemmtilegasta ferðin var þegar við fórum til Færeyja og lentum óvart í miðju grindhvaladrápi. Við vorum eitthvað með myndavél uppi og þá spurðu önugir verðir hvaðan við værum. Ég svaraði strax að við værum frá Ísafirði. Þá sögðu þeir: „Það er allt í lagi með ykkur. Það eru engir Greenpeace-menn frá Ísafirði,“ en við tókum eftir því að velflestir Færeyingar höfðu komið til Íslands og þekktu vel til hér.“

Fjölskylda

Eiginkona Björns (gift 26.12. 1995) er Anna G. Thorarensen sérkennari, f. á Akureyri 30.7. 1942. Þau hafa búið á Akureyri frá 2001. Foreldrar Önnu voru hjónin Gunnar Thorarensen, f. 1904, d. 1983, og Hólmfríður Hannesdóttir Thorarensen, f. 1918, d. 1994. Anna var áður gift Bjarna Sigbjörnssyni, f. 1938, d. 1981, þeirra sonur er Gunnar Björn, f. 1974, flugmaður, sem á tvö börn.

Systkini Björns eru Ari, f. 13.3. 1943, búnaðarráðunautur og um skeið formaður Bændasamtaka Íslands, býr á Hrísum í Reykjadal; Sigríður, f. 6.2. 1946, kennari, býr nú í Garðabæ; Erlingur, f. 6.2. 1946 (þau tvíburar), bóndi á Brún; Helga, f. 8.8. 1947, kennari á Högnastöðum í Hrunamannahreppi; og Ingvar, f. 2.2. 1951, læknir á Akureyri.

Foreldrar Björns voru hjónin Elín Aradóttir, f. 3.11. 1918 á Grýtubakka, d. 25.10. 2000, húsfreyja á Brún, og Teitur Björnsson, f. 14.10. 1915 á Hallbjarnarstöðum, d. 26.10. 1998, bóndi á Brún.