Svavar Guðmundsson fæddist á Barðsnesgerði í Norðfjarðarhreppi 15. júní árið 1934. Hann lést á Landspítalanum 12. september 2021.

Foreldrar hans voru Þórunn Guðbjörg Halldórsdóttir, húsfreyja og bóndi, fædd á Þuríðarstöðum á Völlum, S-Múlasýslu, 4. desember 1894, látin 12. september 1977, og Guðmundur Halldórsson bóndi, fæddur 26. desember 1891 á Barðsnesgerði í Norðfjarðarhreppi, látinn 29. apríl 1976. Þau bjuggu í Barðsnesgerði fram til ársins 1955 er þau fluttu að Lyngbergi í Garðabæ, nú Hafnarfirði. Þau voru síðustu ábúendur í Barðsnesgerði.

Svavar var yngstur 14 systkina. Systkini Svavars voru Ásgeir Halldór Guðmundsson, f. 26. júní 1916, d. 16. mars 1979, Emil Sigurdór Guðmundsson, f. 1. sept. 1917, d. 8. mars 2012, Helgi Sigfinnur Guðmundsson, f. 7. apríl 1919, d. 6. mars 1975, Guðrún Oddný Guðmundsdóttir, f. 20. mars 1921, d. 1. nóv. 1972, Drengur Guðmundsson, f. 7. júní 1922, d. 11. júlí 1922, Ingvar Sigurður Guðmundsson, f. 25. okt. 1923, d. 16. nóv. 1953, Ólína Guðmundsdóttir, f. 23. des. 1924, d. 28 nóvember 2020, Magnús Guðmundsson, f. 12. júní 1926, d. 10. feb. 1997, Hjalti Guðmundsson, f. 24. des. 1927, d. 7. febrúar 2021, Sigríður Sveinlaug Guðmundsdóttir, f. 27. feb. 1929, d. 24. sept. 2019, Karl Guðgeir Guðmundsson, f. 11. sept. 1930, d. 24. maí 2013, Ásdís Guðmundsdóttir Agee, f. 17. júní 1932, d. 25. júní 2012, Jósep Guðmundsson, f. 15. júní 1934, d. 16. nóv. 1953.

Svavar kvæntist 15. desember 1963 Lilju Vestmann Daníelsdóttur, f. 16. nóvember 1938, d. 9. nóvember 2019. Foreldrar hennar voru Daníel Fjeldsted Vestmann, f. 15. september 1913, d. 22. desember 1989, og Guðríður Oddgeirsdóttir Vestmann, f. 13. október 1911, d. 12. nóvember 1988. Lilja var hjúkrunarfræðingur og starfaði lengi á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði. Hún lést í nóvember 2019.

Börn Svavars og Lilju eru: Margrét Svavarsdóttir, f. 17. október 1963, maki hennar er Reynir Geirsson, f. 17. október 1965, Guðríður Svavarsdóttir, f. 8. desember 1964, maki hennar er Friðrik Gunnar Gíslason, f. 23. júlí 1963, Guðbjörn Svavarsson, f. 22. janúar 1966, Anna Maren Svavarsdóttir, f. 14. janúar 1974, og Daníel Svavarsson, f. 10. ágúst 1975, maki hans er Ruth Linda-Marie Blom, f. 20. apríl 1976.

Svavar og Lilja eiga níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Útför Svavars fór fram í kyrrþey þann 21. september.

Elsku pabbi.

Nú er komið að kveðjustund. Tíminn líður hratt og það eru innan við tvö ár síðan við kvöddum mömmu og þú kvaddir eiginkonu þína til 57 ára. Þú varst góður pabbi, afi og langafi og við stóðum öll í þeirri trú að þú ætti eftir að vera með okkur í nokkur góð ár til viðbótar þar sem heilsan var þokkaleg miðað aldur og fyrri störf.

Pabbi ólst upp í Barðsnesgerði við Norðfjörð við sveitastörf og sjómennsku. Fjölskyldan var stór en hann átti 13 systkin og tvær fóstursystur. Hann var yngstur systkinanna ásamt tvíburabróður sínum Jósep. Pabbi hélt alla tíð góðu sambandi við systkin sín en hratt kvarnaðist úr systkinahópnum síðustu ár og síðasti bróðir hans, Hjalti, féll frá fyrr á árinu í Bandaríkjunum. Þótt langt væri á milli bræðranna ræddust þeir oft saman í síma síðustu ár og barst talið þá oft að æskuslóðunum austur á fjörðum.

Pabbi fluttist til Hafnarfjarðar árið 1956. Foreldrar hans höfðu flutt í bæinn árið áður en pabbi var einn á bænum síðasta veturinn. Hann talaði stundum um að það hafi verið frekar einmanalegt að vera einn á bænum til að hugsa um skepnurnar með aðeins hund sér til félagsskapar og olíukamínu til að halda á sér hita. Pabbi var harðduglegur maður og stundaði ýmis störf í iðnaði, trésmíði og verslun, auk sveitastarfa og sjómennsku. Eftir að hann flutti suður fór hann fljótlega að vinna hjá Kaupfélagi Hafnfirðinga að keyra kjörbúðabíl sem fór í úthverfin þar sem ekki var verslun til staðar. Hann talaði oft af hlýju um tímann á kjörbúðabílnum en það starf passaði honum vel. Síðar starfaði hann m.a. um skeið hjá Álverinu í Straumsvík, Berki og trésmíðaverstæði Sigurðar Elíassonar en hann lauk starfsævinni hjá Byko í Kópavogi þar sem hann starfaði yfir 20 ár.

Pabbi var glæsilegur maður og fór ávallt í betri fötin á sunnudögum eftir langa vinnuviku sem oftar en ekki teygði sinn inn á laugardaga og vinnudagurinn ósjaldan frá 8 á morgnana til 10 á kvöldin þegar mikið var að gera. Pabbi var á sama tíma hagsýnn og örlátur maður og bar þess merki að vera alinn upp í stórri fjölskyldu við knöpp kjör. Hann lagði hart að sér, vann mikla yfirvinnu og aukavinnu þegar svo bar við. Helstu áhugamál pabba tengjast tónlist og dansi en mamma og pabbi fóru gjarnan á gömlu dansana með vinum sínum þegar kom að því að gera sér dagamun. Hann var mikill áhugamaður um harmónikutónlist og átti sér lengi þann draum að læra að spila á það hljóðfæri. Síðustu æviárin dundaði hann sér við að læra að spila á hljómborð og var orðinn nokkuð lunkinn við spilamennskuna undir lokin. Hann var mikill dýravinur og talaði oft um hundinn sem hann átti sem ungur maður í sveitinni. Honum var afar annt um barnabörnin og barnabarnabörnin og ljómaði allur upp þegar talið barst að þeim. Hann taldi aldrei eftir sér að passa barnabörnin eða sækja þau á leikskólann ef svo bar undir og þau voru alltaf velkomin til afa og ömmu. Við eigum eftir að sakna heimsóknanna til þín þar sem ætíð var boðið upp á bestu pönnukökur í heimi. Takk fyrir allar góðu minningarnar elsku pabbi.

Daníel Svavarsson.