Fæðubótarefni Of mikið er um óleyfilegar fullyrðingar um meinta gagnsemi fæðubótarefna. Athugun leiddi í ljós að slíkar fullyrðingar voru helst í auglýsingabæklingum og kynningarefni, en miklu síður í merkingum varanna.
Fæðubótarefni Of mikið er um óleyfilegar fullyrðingar um meinta gagnsemi fæðubótarefna. Athugun leiddi í ljós að slíkar fullyrðingar voru helst í auglýsingabæklingum og kynningarefni, en miklu síður í merkingum varanna. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Mikið er um óleyfilegar fullyrðingar í markaðssetningu matvæla, sérstaklega fæðubótarefna.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Mikið er um óleyfilegar fullyrðingar í markaðssetningu matvæla, sérstaklega fæðubótarefna. Þetta kom í ljós þegar Matvælastofnun (MAST) og heilbrigðiseftirlit nokkurra sveitarfélaga skoðuðu ýmsar fullyrðingar um næringar- og heilsubótarefni. MAST gaf út skýrslu um verkefnið, Notkun á heilsufullyrðingum við markaðssetningu fæðubótarefna, sem kom út í september sl.

Reynt var að skoða sérstaklega vörur sem fullyrt var að styrktu ónæmiskerfið. Einnig fullyrðingar um efni sem áttu að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á sjúkdómum.

„Yfirleitt er hér um að ræða fæðubótarefni sem geta innihaldið margs konar virk efni. Þau algengustu eru A-, C-, D-, E-, B6- og B12-vítamín og steinefni s.s. járn, kopar og selen og einnig astaxantín, ýmsar fitusýrur og meltingarörverur (probiotics) auk ýmissa annarra efna sem ekki falla í þessa flokka,“ segir í skýrslunni.

Alls voru skoðaðar 73 vörur og/eða auglýsingar með tilliti til heilsufullyrðinga. Skoðaðar voru heilsufullyrðingar á fæðubótarefnunum. Þá voru skráðar 11 vörur sem ekki teljast vera fæðubótarefni en samt markaðssettar með óleyfilegum heilsufullyrðingum. Flestar óleyfilegar fullyrðingar tengdust markaðssetningu á jurtum. Mjög algengt er að tileinka jurtum heilufarslega virkni.

Algengast var að óleyfilegar fullyrðingar fylgdu vörum frá Bandaríkjunum, en þar gildir önnur löggjöf um fullyrðingar við markaðssetningu matvæla en í Evrópu. MAST segir að fullyrðingar sem fylgdu vörum sem skoðaðar voru hafi að miklu leyti verið í íslensku markaðsefni, t.d. auglýsingabæklingum, en ekki á merkingum varanna. Flestar óleyfilegar fullyrðingar voru einnig í auglýsingabæklingunum. Þær voru líka áberandi í reynslusögum við markaðssetningu í dagblöðum og auglýsingabæklingum.

Heilbrigðiseftirlit fylgist með

En hvað hyggst MAST gera til að koma í veg fyrir óleyfilegar fullyrðingar í slíkri markaðssetningu?

Grímur Ólafsson, fagsviðsstjóri neytendaverndar hjá MAST, segir að eftirlit með matvælum á markaði, þ.m.t. fæðubótarefnum, sé í höndum heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga. Heilbrigðiseftirlit þar sem framleiðandi og/eða dreifingaraðli vöru er staðsettur fer með eftirlitið.

„Flest fæðubótarefnanna eru flutt inn af fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og það eru því Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis sem fara með eftirlitið og samskipti við viðkomandi fyrirtæki. Í þeim tilvikum þar sem um innlend fæðubótarefni er að ræða er það ýmist heilbrigðiseftirlit eða Matvælastofnun sem fer með eftirlitið.“ Hlutverk MAST er einnig að vera heilbrigðiseftirliti til aðstoðar varðandi reglugerð um næringar- og heilsufullyrðingar og að sjá til þess að eftirlit sé samræmt á milli eftirlitssvæða.

„Matvælastofnun hefur reynt eftir fremsta megni að aðstoða heilbrigðiseftirlitið við þessa vinnu og einnig upplýst fyrirtæki um gildandi reglur. Hluti af því eru eftirlitsverkefni eins og það sem hér er um að ræða. Matvælastofnun hefur einnig haldið námskeið fyrir eftirlitsfólk, bæði heilbrigðisfulltrúa og okkar eigin eftirlitsfólk til að auka þekkingu og samræma eftirlit.“

Brot geta varðað refsingum

Reglugerð um næringar- og heilsufullyrðingar er sett með stoð í lögum um matvæli (93/1995). Samkvæmt þeim geta mjög alvarleg brot varðað refsingum, sektum eða jafnvel fangelsi. Í slíkum tilvikum þyrfti MAST að kæra til lögreglu.

MAST getur sjálf ekki beitt refsiviðurlögum samkvæmt lögunum en getur hins vegar krafist úrbóta og beitt þvingunaraðgerðum ef með þarf til að knýja á um úrbætur. Þvingunaraðgerðir eru t.d. áminning, álagning dagsekta eða stöðvun fyrirtækis tímabundið. Þvingunaraðgerðir teljast ekki vera refsing eða viðurlög heldur notaðar til að ná fram úrbótum ef nauðsynlegt reynist, að sögn Gríms. „Gangurinn er þá þessi: Þegar matvælafyrirtæki brjóta gegn ákvæðum reglugerðar nr. 1924/2006 um næringar- og heilsufullyrðingar að mati eftirlitsaðila eru þau upplýst um brotið og þeim veittur tilhlýðilegur frestur til úrbóta. Ef matvælafyrirtæki sinna ekki úrbótum getur eftirlitsaðili gripið til þvingunarúrræða, sbr. lagaákvæði hér að ofan. Í allra alvarlegustu málunum er að auki hægt að kæra brotið til lögreglu.“

Óleyfilegar heilsufullyrðingar

Í skýrslu MAST eru gefin nokkur tilbúin dæmi um óleyfilegar heilsufullyrðingar samkvæmt reglugerð ESB (1924/2006). Þau gefa hugmynd um um hvað málið snýst.

Fullyrðing eins og „D-vítamín er hollt og gott fyrir líkamann“ telst vera ósértæk heilsufullyrðing. Fullyrðingin „þeir sem borða ekki þetta fæðubótarefni mega búast við lakari líkamlegri heilsu“ . Hún þykir gefa til kynna að það geti haft áhrif á heilbrigði ef matvælanna er ekki neytt. Fullyrðingin „mjólkurvörur bæta tannheilsu barna“ þykir vísa til þroska og heilbrigðis barna. Heilsufullyrðingin „hjálpar til við að draga úr sykurfíkn“ vísar í megrun, þyngdarstjórnun eða minni svengdartilfinningu eða aukna tilfinningu fyrir saðningu eða skert orkuinnihald fæðunnar.