Formenn norrænu félaganna á Norðurlöndunum hafa samþykkt ályktun þar sem niðurskurði til norrænna menningarmála er mótmælt og jafnframt skorað á ríkisstjórnir Norðurlandanna að setja aukið fé til norrænna málefna.

Formenn norrænu félaganna á Norðurlöndunum hafa samþykkt ályktun þar sem niðurskurði til norrænna menningarmála er mótmælt og jafnframt skorað á ríkisstjórnir Norðurlandanna að setja aukið fé til norrænna málefna.

Hrannar Björn Arnarsson, formaður Norræna félagsins á Íslandi, segir norrænt samstarf hafa verið lykilinn að velgengni landanna síðustu áratugi.

„Niðurskurðurinn núna er ekki að skella á einn, tveir og þrír. Þetta hefur verið hægfara þróun síðustu 30 ár þar sem framlögin hafa staðið í stað en á sama tíma hafa þessi samfélög vaxið og dafnað, meðal annars vegna norræns samstarfs,“ segir Hrannar.

Hann segir að sársaukinn af niðurskurðinum hafi ekki fundist fyrr en norræna ráðherranefndin setti fram nýja stefnu um sjálfbærni ríkjanna og þá hafi þurft að finna peninga til þess að fjármagna þessa nýju stefnu, sem hafi bitnað á framlögum til norræns samstarfs. Framlög til menningar, lista, menntamála og rannsókna, sem hafa verið hryggjarstykkið í norrænu samstarfi, hafi þurft að líða fyrir þennan niðurskurð.

„Á undanförnum árum hafa komið upp mál sem sýna bresti samstarfsins; annars vegar flóttamannavandinn þar sem löndin fóru hvert í sína áttina án þess að ræða saman, lokuðu landamærum og voru ekki samstiga eins og menn vilja sjá þau. Svo kemur faraldurinn þar sem gerist það sama; í staðinn fyrir að leita til vina og félaga á Norðurlöndunum fóru sum lönd til ESB og önnur skelltu í lás. Þá kom líka í ljós að norrænt samstarf var ekki fyrsti kostur hjá þessum löndum.“

Hrannar telur þessa bresti beina afleiðingu af undirfjármögnun norræns samstarfs og norrænna verkefna. „Ég veit að íslenskir stjórnmálamenn eru að hlusta og ég veit að þeir hafa verið að berjast fyrir auknum fjármunum í norrænt samstarf enda eru það beinir hagsmunir Íslendinga að fjármunirnir vaxi. Mikið af þessu kemur hingað inn, og ef það yrði farið að okkar tillögum myndu meiri fjármunir koma til Íslands en Ísland færi að leggja til.“ logis@mbl.is