Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga kom Vatnajökulsþjóðgarður oft við sögu í umræðum og skrifum um miðhálendisþjóðgarð og friðlýsingar. Þótt mikilvægt sé að svo stór mál fái góða umræðu og tekist sé á um stefnur og aðferðir er miður ef sá málflutningur byggist á vanþekkingu um starfsemi núverandi þjóðgarða.
Vatnajökulsþjóðgarður er þrettán ára gömul stofnun í stöðugri þróun. Þjóðgarðurinn nær til Vatnajökuls og stórra svæða í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðanna sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Sumarið 2019 var stigið mikilvægt skref í þróun þjóðgarðsins þegar hann var samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO sem staðfestir að hann er einstakur á heimsvísu.
Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfa 35 fastir starfsmenn með mikla þekkingu og reynslu og eru 30 þeirra á starfsstöðvum á landsbyggðinni. Mannauðurinn er lykill að góðum árangri og því er lögð áhersla á fræðslu, starfsánægju og nýsköpun í starfseminni. Á sumrin bætast við um 80 starfsmenn sem sinna landvörslu, þjónustu og fræðslu til gesta þjóðgarðsins og eru þau störf öll unnin á landsbyggðinni. Á árinu 2021 verða unnin um 55 ársverk hjá Vatnajökulsþjóðgarði og eru um 90% þeirra unnin á landsbyggðinni.
Í stjórn og fjórum svæðisráðum Vatnajökulsþjóðgarðs situr fólk fyrir hönd sveitarstjórna og hagsmunasamtaka á viðkomandi svæðum. Þetta fólk hefur mikla þekkingu á aðstæðum í heimabyggð sem er afar mikilvægt til að þróa starfsemi þjóðgarðsins og til að skapa samstöðu og sátt.
Gestir Vatnajökulsþjóðgarðs eru fjölbreyttur hópur sem vill upplifa og stunda útivist á margvíslegan hátt. Hlutverk þjóðgarðsins er að tryggja vernd náttúru og menningarminja, bjóða gesti velkomna og veita fræðslu auk þess að viðhalda gönguleiðum og reka gestastofur, skála, salerni og tjaldsvæði. Vatnajökulsþjóðgarður á einnig í mikilvægu samstarfi við fjölmarga sem stunda atvinnustarfsemi í eða við þjóðgarðinn enda er það eitt af markmiðum starfseminnar.
Innan Vatnajökulsþjóðgarðs eru ríflega 1.000 km af akstursleiðum, flestar á ábyrgð og undir veghaldi Vegagerðarinnar. Ágreiningur um hvort slóðar eigi að vera opnir eða ekki á aðeins við um 1-2% vega og slóða í þjóðgarðinum.
Vatnajökulsþjóðgarður var rekinn með rekstrarafgangi á árunum 2018, 2019 og 2020 og um síðustu áramót var stofnunin skuldlaus við ríkissjóð. Innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs á sér stað mikil uppbygging innviða og má áætla að ríflega einum milljarði verði varið í þetta mikilvæga verkefni á árunum 2020 og 2021. Dæmi um stór verkefni er bygging gestastofu á Kirkjubæjarklaustri og innrétting gestastofu á Skútustöðum við Mývatn.
Framtíðin er björt hjá Vatnajökulsþjóðgarði og það er mikilvægt að hann sé þjóðgarður okkar allra en ekki bitbein í pólitískri umræðu. Þeir sem vilja kynna sér starfið í Vatnajökulsþjóðgarði geta t.d. nálgast upplýsingar á heimasíðu þjóðgarðsins á eftirfarandi slóð:
www.vatnajokulsthjodgardur.is.
Höfundur er framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.