Abdul Qadeer Khan
Abdul Qadeer Khan — AFP
Abdul Qadeer Khan lést í gærmorgun, 85 ára að aldri, af völdum Covid-19. Hann er þekktur sem „faðir pakistönsku kjarnorkusprengjunnar“.

Abdul Qadeer Khan lést í gærmorgun, 85 ára að aldri, af völdum Covid-19. Hann er þekktur sem „faðir pakistönsku kjarnorkusprengjunnar“. Khan er einnig þekktur undir nafninu AQ Khan og hefur lengi verið sagður einn hættulegasti maður heims, samkvæmt umfjöllun BBC, vegna þátttöku sinnar í útbreiðslu kjarnorkuvopna.

AQ Khan var hylltur sem þjóðhetja í Pakistan en hann gerði ríkið að fyrsta íslamska ríkinu til þess að eignast kjarnorkuvopn.

Árið 2004 var AQ Khan fangelsaður þegar í ljós kom að hann hafði selt Norður-Kóreu, Íran og Líbíu kjarnorkutækni. Í sjónvarpsávarpi baðst AQ Khan afsökunar og harmaði svik sín. Pervez Musharraf náðaði AQ Khan en hann var í stofufangelsi til ársins 2009.

Leyniþjónustur vestrænna ríkja, svo sem CIA og MI6, hafa haft það sem forgangsverkefni síðustu ár að ná tökum á víðfeðmu samskiptaneti AQ Khans.

Síðustu ár sín bjó AQ Khan við mikla öryggisgæslu en hann lést á sjúkrahúsi í Islamabad eftir að hafa veikst af Covid-19.

Forsætisráðherra Pakistans, Imran Khan, minntist AQ Khan á Twitter og sagðist harma dauða hans.

AQ Khan er talinn hafa borið einna mesta ábyrgð á útbreiðslu kjarnorkuvopna en eins og hefur komið fram áður hjálpaði hann fjölmörgum löndum að öðlast færni til þess að hefja framleiðslu kjarnorkuvopna.

Í viðtali við AFP árið 2008 sagðist Khan hafa bjargað landinu tvisvar; í fyrra skiptið þegar hann gerði Pakistan að ríki sem byggi yfir kjarnorkuvopnum og í annað skipti þegar hann játaði að hafa lekið upplýsingum um byggingu kjarnorkuvopna til annarra landa og þar með tekið sökina á sig.

Khan hefur einnig sagt að Pakistan hafi aldrei viljað framleiða kjarnorkusprengjur heldur hafi landið verið neytt til þess að hefja framleiðslu vegna hættu sem steðjaði að frá öðrum ríkjum.