Finnur Torfi Stefánsson
Finnur Torfi Stefánsson
Eftir Finn Torfa Stefánsson: "Tónlist er aðferð til þess að tjá mönnum hughrif, sem ekki er hægt að tjá með öðrum hætti af því að þau eru fullkomlega óhlutræn."

Mikilvægur fylgifiskur klassískrar tónlistar eru margvísleg fræðastörf sem skapað hafa auðugar bókmenntir sem fjalla um hvaðeina sem tónlist snertir. Stundum hefur það jafnvel virst svo sem hið skrifaða orð taki yfir og sumum finnist betra að lesa um tónlist en að hlusta á hana. Meðal viðfangsefna fræðimanna er spurningin hvað tónlist sé. Miðaldamenn sættu sig við þá skýringu að tónlistin væri gjöf, sem Guð almáttugur hefði gefið mönnunum af gæsku sinni. Nútíminn krefst nákvæmari svara. Sumir segja að tónlist sé hljóð og allt hljóð sé efniviður tónlistar. Maður sem flýgur einn í einshreyfils flugvél yfir Norður-Atlantshaf hlustar grannt eftir gangi hreyfilsins og gleðst mjög ef hann hljómar reglulega og eðlilega. Það mundi hins vegar ekki teljast tónlist í klassískum skilningi.

Tónlist er aðferð til þess að tjá mönnum hughrif, sem ekki er hægt að tjá með öðrum hætti af því að þau eru fullkomlega óhlutræn. Maðurinn hefur þann sérstaka eiginleika að skynja tiltekin hljóð, sem sett eru fram með ákveðnum hætti, á mjög næman og áhrifamikinn hátt. Mörgum finnst þessi áhrif dýpri og merkilegri en nokkuð annað í mannlegri tjáningu. Skyldleiki tónlistar og talaðs máls er augljós og endurspeglast í sögu tónlistarinnar. Lengi framan af var hin ritaða tónlist fyrst og fremst sungin tónlist með texta sem oft réð hljóðfallinu. Mannsröddin hefur líka lengi verið viðmiðun í smíði margra hljóðfæra. Engu að síður er hljóðfæri vél. Konsertflygill nútímans er mjög flókin vél. Þessar vélar eru þó í þjónustuhlutverki hjá tónlistinni. Þegar menn hlusta á upptöku, sem berst yfir netheima af japanskri hljómsveit spila sinfóníu eftir Beethoven, veldur hin flókna nútímatækni sem þar er milliliður engum vandamálum. Athyglin beinist að túlkuninni og tjáningunni og menn gleðjast yfir því hve mikla alúð og hve mikinn skilning fjarlæg þjóð leggur í verk manns sem uppi var hinum megin á hnettinum fyrir 200 árum. Mannkynið er eitt. Tónlist sem samin er af vél og flutt er af vél kann að vekja áhuga sumra og vera mönnum til skemmtunar og gagns. Það er jafnvel hugsanlegt að unnt verði í framtíðinni að þröngva mönnunum til þess að elska vélarnar meira en sjálfa sig. Sá tími er enn ekki kominn og meðan svo er gilda hinar mannlegu viðmiðanir.

Þrátt fyrir hið huglæga eðli tónlistarinnar sjálfrar er hún engu að síður oft sett fram sem liður í hlutrænni framsetningu t.d. við trúarathafnir, dans, leikhús, ljóð, hernað, kvikmyndir, auglýsingar og svo má lengi telja. Mörgum finnst tónlistin við þessar aðstæður dýpka og skýra skilning á því sem við er að fást og tengja tónlist oft við tilfinningalega reynslu. Lengi vel framan af öldum voru menn ekki vissir um að tónlistin hefði sjálfstæða tilveru en það breyttist er líða tók á miðaldir. Enn í dag eru uppi tvær skoðanir á þessu máli. Annars vegar er því haldið fram að hlutverk tónlistar sé að dýpka og styrkja skilning manna á boðskap, sem settur er fram með ýmsum hætti og oft í texta verks. Hin skoðunin byggist á hinu óhlutræna eðli tónlistarinnar. Þar er því haldið fram að tónlist túlki ekki neitt og flytji engan boðskap. Hún sé aðeins hún sjálf og lúti eigin lögmálum. Tónskáldin Johannes Brahms og Richard Wagner voru taldir fulltrúar þessara andstæðu skoðana á nítjándu öld. Sá síðarnefndi hélt fram svokölluðu „Gesamtkunstverk“, þar sem tónlistin skyldi sameinuð öðrum listgreinum, en Brahms var fulltrúi hinnar hreinu tónlistar. Á tuttugustu öld var þeim Arnold Schönberg og Igor Stravinsky stundum stillt upp sem fulltrúum sama skoðanaágreinings.

Hvað sem öðru líður hafa stuðningsmenn hreinnar tónlistar ekki látið þetta koma í veg fyrir að þeir semdu tónlist við texta eða undir einhverjum boðskap, né heldur leggja boðskaparsinnar minni vandvirkni í þátt hinnar hreinu tónlistar í verkum sínum. Mörgum finnst það besta í verkum Wagners einmitt vera hljómsveitarkaflar, forleikir og millispil, þar sem enginn texti er og hægt er að njóta hinnar hreinu tónlistar án þess að hafa hugmynd um boðskap verksins að öðru leyti. Meðal þeirra sem ritað hafa um þessi mál er Austurríkismaðurinn Eduard Hanslick einna kunnastur. Hann skrifaði um miðja nítjándu öld fræga ritgerð, þar sem málstað hinnar hreinu tónlistar er haldið fram. Samkvæmt honum er tónlistin skipulagður heimur tóna sem tengjast eftir lögmálum listarinnar sjálfrar og annað ekki. Þessar skoðanir hafa reynst mjög lífseigar þótt sumir síðari tíma menn kjósi að lýsa þeim öðruvísi en Hanslick gerir. Þær hafa einnig mikla þýðingu um þau álitaefni sem upp hafa risið síðar um nýja klassíska tónlist.

Ný klassísk tónlist hefur átt erfitt uppdráttar á okkar tímum og raunar allt frá því styrjaldir 20. aldar gengu yfir Evrópu og heiminn. Hugtakið ný klassísk tónlist kann að hljóma eins og rökræn lokleysa. Með því er átt við nýja eða nýlega tónlist sem samin er á sömu forsendum og gamla klassíska tónlistin, m.a. í því augnamiði að viðhalda tónlistarhefð, sem staðið hefur í 1000 ár.

Gamla klassíkin lifir enn góðu lífi og auðgar líf margra nútímamanna. Nýja tónlistin berst varnarbaráttu og sér ekki fyrir endann á.

Höfundur er tónskáld.

Höf.: Finn Torfa Stefánsson