Benedikt bókaútgáfa gefur út skáldsögur, smásögur og ljóð eftir innlenda og erlenda höfunda, þó mest áhersla sé á frumsamin íslensk skáldverk.
Friðgeir Einarsson er þekktur fyrir leiklistariðju sína, en hann hefur líka gefið út skáldverk. Skáldsagan Stórfiskur segir frá því er íslenskur hönnuður, sem búsettur er á meginlandi Evrópu ásamt konu og dóttur, fær það verkefni að hanna merki fyrir þekkt fyrirtæki hérlendis. Hann heldur í Íslandsferð til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins og leita sér um leið lækninga við torkennilegu meini sem lagst hefur á hendur hans.
Hægt og hljótt – til helvítis er önnur skáldsaga Magnúsar Guðmundssonar, sem hefur starfað sem menningarblaðamaður og ritað ævisögu. Bókin er glæpareyfari með rannsóknarlögregluþjónana Aron Frey Einarsson og Jóhönnu Gunnarsdóttur í aðalhlutverki. Þau eru sett á vettvang morðs við Bergstaðastrætið og verður fljótlega ljóst að hér er enginn venjulegur glæpur á ferðinni. Eitthvað djúpstætt og fádæma illviljað virðist liggja að baki verknaðinum hjá morðingja sem gæti mögulega haldið ótrauður áfram á sömu braut.
Valgerður Ólafsdóttir er sálfræðingur og kennari að mennt. Konan hans Sverris er fyrsta skáldsaga hennar. Í bókinni segir frá Hildi sem skilin er við Sverri og er að reyna að finna sjálfa sig og öðlast fyrri styrk. Hún lítur til baka og hugsar um mynstrin sem við lærum svo rækilega að á endanum vefjast þau um háls okkar eins og níðþungir hlekkir: Af hverju leyfði hún eiginmanninum, sem í byrjun minnti hana á grískt goð, að: hunsa hana í viku af því hún var glöð í partíi þegar honum fannst ekki gaman, segja henni að enginn annar myndi vilja hana og segja henni að hún væri geðveik? Af hverju beið hún svona lengi með að losa sig?
Borg bróður míns heitir smásagnasafn Kristínar Ómarsdóttur. Kristín hefur fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, skáldsögur, ljóð og leikverk. Útgefandi lýsir bókinni sem safni sagna, skyndimynda, skjáskota og brota sem Kristín skrifaði og safnaði saman.
Annað smásagnasafn sem Benedikt gefur út í ár er Óskilamunir eftir Evu Rún Snorradóttur. Í bókinni eru sögur um ástir sem finnast og tapast, hvernig sársauki mótar okkur, um allt það sem brotnar en ekki síst brotin sem enginn vitjar. Hvernig við leitum með veiku ljósi að leið í gegnum þetta ævarandi grímuball sem lífið er.
Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir heitir ný ljóðabók Jóns Kalmans Stefánssonar. Á síðasta ári voru þrjár fyrstu ljóðabækur Jóns gefnar út á einni bók, en í Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir eru ný ljóð.
Brynjar Jóhannesson hefur gefið út nokkurn fjölda ljóðabóka, gaf út tólf bækur árið 2017, en þar áður gaf hann út þrjár bækur með Drífu Líftóru Thoroddsen. Benedikt gefur nú út nýja ljóðabók Brynjars sem ber heitið Álfheimar og í henni lýsir Brynjar heiminum í einföldum setningum, án kaldhæðni eða stæla.
Lofttæmi heitir fyrsta ljóðabók Nínu Þorkelsdóttur. Nína er menntuð í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, mannfræði, lögfræði og hljóðfæraleik. Hún hefur unnið við ýmis ritstörf og blaðamennsku. Hún hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir Lofttæmi í vor og í umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið segir að hún geymi athuganir á andardrætti, lífmagni og tónlistinni í tilverunni.