Hannes Þórður Þorvaldsson
Hannes Þórður Þorvaldsson
Eftir Hannes Þórð Þorvaldsson: "Viljum við að héðan af verði nóg að rjúfa innsigli, stela eða eyða kjörgögnunum eftir talningu þóknist mönnum ekki niðurstaða kosninga?"

Komið hefur í ljós, samkvæmt orðum formanns yfirkjörstjórnar í NV-kjördæmi, að hann braut lög í kjölfar talningar atkvæða á kosninganótt og tilkynningar niðurstöðu í lok kosningavöku – og spillti þar með kjörgögnunum. Ekki var gengið frá kjörseðlum á tryggan hátt; þeir ekki innsiglaðir og það sem meira er ógildum seðlum ekki haldið sér – né heldur skýrslur, aðrar gerðir eða kjörskrár sem senda á frá sér tafarlaust rétt meðhöndlaðar.

Samkvæmt hans orðum í viðtölum og fundargerðum er líka víst að í það minnsta einn einstaklingur dvaldi drjúgan tíma eftirlitslaus með óvörðum kjörgögnum. Með réttu verklagi hefði sá möguleiki ekki verið fyrir hendi. Varla þarf að taka fram að enginn er svo heilagur að mega sitja einn að kjörgögnum, hvað þá eftir að hafa fengið nákvæmar upplýsingar um niðurstöður kosninga um allt land og þar með hafa öll tæki og hvata til ásetningsbrots.

Engan skyldi því undra að komið hafa fram kærur á þessa atburðarás alla eftir að lokatölur voru kynntar opinberlega og kjörstjórn send heim. Ekki síst þegar formaður yfirkjörstjórnarinnar hefur skilað skýrslum til Landskjörstjórnar þar sem fram koma aðrar tölur en tilkynntar voru við lok kosningavöku, en í þeirra stað skráðar vafasamar breytingar gerðar eftir á og þá eftir að gögnunum var á svo margvíslegan hátt spillt og þau gerð ómarktæk.

Augljóst er orðið að ekki var um áframhaldandi talningu að ræða, þar sem innsiglun og frágangi átti með réttu að vera lokið – enda jafnan notað orðalagið að „telja aftur“ eða endurtalning um þennan gjörning í umræðunni. En þó má ráða af kosningalögum að ekki var þetta heldur endurtalning, því eftir að kjörgögn eru innsigluð skulu þau „geymd þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra.“ (2.mgr. 104.gr.) og engin kæra af nokkru tagi hafði borist hvorugri stofnuninni þegar aftur var átt við atkvæðin og komist að nýrri niðurstöðu.

Landskjörstjórn ber kannski að byggja á þeim skýrslum sem henni berast (meðan ekki liggja fyrir frekari upplýsingar frá lögreglustjóra) og boða til þings út frá þeim fyrirliggjandi gögnum – en hvernig mun Alþingi bregðast við?

Kærurnar miða allar að því sem gerðist eftir að talningu lauk og áhrifum breytinganna sem formaðurinn gerði eftir á, en ekki hefur enn komið fram í fréttum að nokkur kæra miði að framkvæmd kosninganna og talningar fram að því. Kærurnar sem lýst hefur verið krefjast þess samt að Alþingi úrskurði kosningu allra framboðslista stjórnmálasamtaka í NV-kjördæmi ógilda og að kosið verði að nýju í kjördæminu við fyrsta tækifæri.

Eru það réttmætar kröfur? Nær væri að krefjast þess að boðað væri til þings samkvæmt réttum óspilltum tölum. Eða viljum við gera hverjum þeim sem mislíkar niðurstaða kosningar kleift að ógilda kosninguna og fá hana endurtekna með því einu að spilla eða skemma kjörgögnin eftir á?

Tökum við ekki meira mark á kerfinu en svo, með öllum sínum varnöglum; starfsfólki, talningarfólki, eftirlits- og umboðsmönnum, margfaldri yfirferðinni hvort heldur sem er í flokkun eða talningu og kjörstjórnum almennt? Meðan allar varúðarráðstafanir og gæðaferli eru virk getur einn gallaður einstaklingur ekki gert nein afglöp því sá næsti grípur þau og lagar eða kemur upp um vítaverða hegðun. Kosningalögin gera alla vega ekki ráð fyrir neinum vafa um niðurstöður nema að framkominni kæru sem þá væntanlega ber að byggja á rökstuddum grun. Lítill munur er bara það, lítill munur! Og hversu svekktari sem menn eru að tapa með litlum mun fremur en meiri breytir ekki frekar tapinu. Í tilfelli spillingar kjörgagna NV-kjördæmis og tilraunar til að breyta lokaniðurstöðu kosninga í kjölfarið er rétt að hafna öllum eftirábreytingum og standa með réttum tölum sem lýðræðislegt ferli leiddi fram og engin marktæk gögn mæla gegn né komið hafa fram kærur á. Það er nefnilega líka eftirábreyting að gengisfella kosninguna alla fyrir það eitt að búið sé að spilla kjörgögnunum eftir rétta talningu, þótt vissulega sé ekki hægt að staðfesta hana með enn frekari talningu – uppkosning þjónar líka ásetningi þess sem ekki sættir sig við hina réttu niðurstöðu!

Bjóðum ekki upp á neinar breytingar eftir á. Höfnum öllum möguleikum á svindli og látum ekki hafa af okkur réttar niðurstöður úr lýðræðislegum kosningum. Setjum skýrar línur um að lögum þurfi að fylgja með kærum fyrir hvers lags vítaverða vanrækslu eða vísvitandi lögbrot og heimtingu á refsingu fyrir; hvort sem er fyrir vöntun á frágangi gagna, fikt við atkvæðaseðla eða rangfærslu og rugl varðandi úrslit talningar.

Séu niðurstöður í skýrslu formanns yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis samþykktar er boðið upp á annað eins átölulaust til frambúðar. En sé öll kosningin dæmd ógild fyrir að kjörgögn spilltust eftir talningu er líka gefið hættulegt fordæmi! Viljum við að héðan af verði nóg að rjúfa innsigli, stela eða eyða kjörgögnunum eftir talningu þóknist mönnum ekki niðurstaða kosninga? Er þá hætt við að bitrir gerist brennuvargar, ef alltaf er hægt að fella kosningar eftir á.

Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.

Höf.: Hannes Þórð Þorvaldsson