[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann sinn þýðingarmesta sigur í áraraðir er liðið vann sterkan 23:21-sigur á Serbíu í öðrum leik sínum í undankeppni EM í gær. Leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Á Ásvöllum

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann sinn þýðingarmesta sigur í áraraðir er liðið vann sterkan 23:21-sigur á Serbíu í öðrum leik sínum í undankeppni EM í gær. Leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði. Íslenska liðið var yfir nánast allan leikinn og verðskuldaði sannarlega sigurinn.

Serbneska liðið hefur leikið á öllum Evrópumótum frá árinu 2000 og öllum heimsmeistaramótum frá árinu 2013. Það varð því ljóst fyrir leik að verkefnið yrði verðugt, en íslenska liðið stóðst prófið með glæsibrag.

Sóknarleikurinn var skynsamlegur stærstan hluta leiks. Ragnheiður Júlíusdóttir var sterk með sjö mörk og þá átti hún nokkrar flottar línusendingar sömuleiðis. Hildigunnur Einarsdóttir var mjög öflug á línunni og Rut Jónsdóttir stýrði sókninni glæsilega. Þá nýtti Sandra Erlingsdóttir öll fjögur vítaköst sín, á meðan Serbía klikkaði á öllum sínum. Þessi atriði skipta miklu máli.

Í vörninni var Sunna Jónsdóttir mögnuð, Helena Rut Örvarsdóttir lítið síðri og áðurnefnd Ragnheiður hefur bætt sig mikið í varnarleiknum undanfarin ár.

Í markinu stóð Elín Jóna Þorsteinsdóttir og átti afbragðsleik. Markvörðurinn varði 14 skot og þar af tvö víti. Vörslurnar komu oftar en ekki á mjög mikilvægum augnablikum, þegar serbneska liðið gat komið sér betur inn í leikinn. Eins og upptalningin hér að ofan gefur til kynna var nánast hvergi veikan blett að finna á frammistöðu íslenska liðsins.

Sigurinn í gær gefur meira en tvö stig. Hann veitir liðinu meiri trú í þeirri vegferð sem það er á. Síðustu ár hafa verið erfið fyrir íslenska landsliðið, en það sýndi í gær að það getur staðið í bestu liðum Evrópu og rúmlega það á góðum degi.

Úrslitaleikur í Serbíu?

Ísland og Serbía eru nú bæði með tvö stig eftir tvo leiki, tveimur stigum á eftir Svíþjóð og tveimur á undan Tyrklandi. Flest bendir til þess að Ísland og Serbía berjist um annað sætið, sem gefur þátttökurétt á lokamóti EM. Næsta lota í undankeppninni er í mars á næsta ári er Ísland mætir Tyrklandi heima og heiman. Í apríl spilar Ísland heimaleik við Svíþjóð og loks útileik gegn Serbíu.

Sigurinn í gær galopnar möguleika Íslands á að fara á fyrsta stórmótið frá árinu 2012. Möguleikarnir væru litlir hefði liðið tapað. Fari úrslitin nokkurn veginn eftir bókinni mætast Ísland og Serbía í úrslitaleik ytra 23. apríl á næsta ári. Það á ýmislegt eftir að gerast þangað til, en staða Íslands er góð.

Ísland – Serbía 23:21

Ásvellir, Undankeppni EM kvenna, sunnudaginn 10. október 2021.

Gangur leiksins : 1:0, 4:3, 7:5, 7:6, 9:6, 10:8 , 13:9, 14:14, 16:15, 18:16, 20:18, 23:21 .

Mörk Ísland: Ragnheiður Júlíusdóttir 7, Hildigunnur Einarsdóttir 5, Sandra Erlingsdóttir 4/4, Rut Jónsdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.

Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 14/2.

Utan vallar : 4 mínútur

Mörk Serbía: Jovana Stoiljkovic 4, Kristina Liscevic 4, Zeljka Nikolic 3, Jovana Kovacevic 3, Tamara Radojevic 2, Dijana Radojevic 2, Marija Petrovic 2, Andjela Janjusevic 1.

Varin skot: Jovana Risovic 9, Kristina Graovac 2.

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Said Bounouara og Khalid Sami, Frakklandi.