HANDBOLTINN
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is ÍBV vann sinn þriðja sigur í röð í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, þegar liðið bar sigurorð af KA, 35:31, í fjörugum leik í Vestmannaeyjum í gær. Með sigrinum halda Eyjamenn toppsæti deildarinnar og eru sem fyrr með fullt hús stiga. KA-menn töpuðu um leið sínum fyrsta leik á tímabilinu.
„Gestirnir hófu leikinn betur og leiddu í upphafi en góður kafli Eyjamanna um miðbik fyrri hálfleiks gerði það að verkum að liðið náði forystu sem það lét ekki af hendi og staðan í hálfleik 18:13,“ skrifaði Guðmundur Tómas Sigfússon meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is í gær.
Rúnar Kárason var markahæstur Eyjamanna með sjö mörk en markahæstur í leiknum var Færeyingurinn Pætur Mikkjalsson í liði KA með níu mörk.
Markvarsla var ekki í aðalhlutverki í leiknum enda 66 mörk skoruð en Björn Viðar Björnsson hjá ÍBV varði þó 11 af þeim 35 skotum sem hann fékk á sig, þar af sjö í fyrri hálfleik, á meðan markverðir KA vörðu aðeins sjö skot samtals.
Sterkur sigur Aftureldingar
Afturelding gerði góða ferð austur fyrir fjall þegar liðið vann 26:24-sigur, sinn fyrsta á tímabilinu, gegn heimamönnum í Selfossi í gær.„Afturelding spilaði vel í seinni hálfleik, þeir náðu strax tveggja marka forskoti og Selfyssingar fundu aldrei leið til þess að minnka muninn. Þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn orðinn fjögur mörk en Afturelding spilaði hörkuvörn á þessum kafla og markvarslan fylgdi með,“ skrifaði Guðmundur Karl Sigurdórsson meðal annars í umfjöllun sinni um leikinn á mbl.is í gær.
Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur Mosfellinga með sjö mörk, þar af fjögur úr vítaköstum, og Ragnar Jóhannsson skoraði sex mörk fyrir Selfoss.
Maður leiksins var hins vegar Vilius Rasimas í marki Selfoss, sem varði 17 af 41 skoti sem hann fékk á sig og var þannig með 41,5 prósent markvörslu. Andri Sigmarsson Scheving í marki Aftureldingar varði 11 af þeim 34 skotum sem hann fékk á sig.
Auðvelt hjá meisturunum
Íslandsmeistarar Vals áttu ekki í vandræðum með nýliða Víkings úr Reykjavík þegar liðin mættust í Víkinni á laugardag. Valur vann að lokum 11 marka sigur, 30:19, þar sem markmenn beggja liða áttu stórleik.Björgvin Páll Gústavsson varði 17 af þeim 25 skotum sem hann fékk á sig, sem gerir ótrúlega 68 prósent markvörslu. Jovan Kukobat í marki Víkings varði þá 18 af 47 skotum sem hann fékk á sig og var þannig með rúmlega 38 prósent vörslu.
Tumi Steinn Rúnarsson fór fyrir Valsmönnum í markaskorun er hann skoraði 10 mörk, þar af fimm úr vítaköstum. Jóhannes Berg Andrason skoraði þá sex mörk fyrir Víking.