Í kjölfar kosninganna er enn og aftur tilefni til þess að ræða það að kjósa persónur í stað þess að kjósa flokka.

Í kjölfar kosninganna er enn og aftur tilefni til þess að ræða það að kjósa persónur í stað þess að kjósa flokka. Það myndi koma í veg fyrir þessa undarlegu hringekju jöfnunarþingmanna og hver og einn þingmaður hefði skýrt persónulegt umboð til þess að sinna þingstörfum, óháð því í hvaða þingflokki viðkomandi þingmaður velur að starfa í.

Áður en lengra er haldið verðum við samt að gera okkur grein fyrir því að við veljum persónur í núverandi kosningakerfi. Við gerum það bara á mjög klunnalegan hátt með því að velja framboðslista. Ef allir kjósendur myndu til dæmis snúa röð frambjóðenda á öllum framboðslistum við, með því að merkja 1, 2, 3 við nöfn frambjóðenda neðan frá og upp, þá yrði það niðurstaða kosninganna. Fólk í heiðurssætum framboðanna yrði þannig oddvitar og öfugt.

Vandinn er að með því að merkja bara x fyrir framan listabókstaf framboðsins þá er kjósandi að samþykkja gefna röð frambjóðenda. X við listann jafngildir því að merkja 1, 2, 3 við nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem þau eru á atkvæðaseðlinum. Þó að við hugsum sem svo að við séum að kjósa flokka, þá erum við í raun og veru að kjósa fólk.

Núverandi fyrirkomulag setur valdið um hvaða frambjóðendur eru líklegir til þess að vera þingmenn í hendur flokkanna, ekki kjósenda, til dæmis vegna þess að mjög margir flokkar stilla upp á lista en eru ekki með prófkjör. Ef fyrirkomulagið væri þannig að x við listabókstaf myndi þýða „ég samþykki hvaða röð frambjóðenda sem er“ í stað „ég samþykki gefna röð“ þá myndi vald flokkanna minnka gríðarlega mikið. Það myndi til dæmis þýða að ef einn kjósandi velur aðra röð frambjóðenda þá ræður sú endurröðun.

Núverandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir 63 þjóðkjörnum þingmönnum. Kosningalög leyfa kjósendum að endurraða og strika yfir frambjóðendur og hver og einn þingmaður fær sitt persónulega kjörbréf. Við erum með persónukjör á Íslandi en kosningakerfið sem við notum til þess að velja persónur er einstaklega klunnalegt tæki til þess. Almennur skilningur virðist einnig vera á því að það sé í raun og veru verið að velja flokka en ekki fólk, sem er mjög skiljanlegt.

Ég spurði hvort við þyrftum persónukjör. Svarið er hins vegar ekki bara já eða nei vegna þess að við erum þegar með persónukjör. Við þurfum bara að gera kosningakerfið sjálft betra til þess að val kjósenda á ákveðnum frambjóðanda skipti máli. Það þarf að jafna vægi atkvæða og taka völdin til uppröðunar frá flokkum og setja það í hendurnar á kjósendum. Það kemur hins vegar líklega aldrei til með að gerast á meðan núverandi kerfi er til staðar, vegna þess að það hentar þeim flokkum sem ráða. Á meðan kerfið er eins og það er enda völdin alltaf í höndum flokka, ekki þingmanna.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is

Höf.: Björn Leví Gunnarsson