Heimurinn glímir við orkuvanda en Íslendingar eiga nóg – þeir þurfa bara vilja til að nýta orkuna

Ekki þarf að fylgjast mjög með erlendum fréttum til að átta sig á að orkumál verða vaxandi viðfangsefni á komandi misserum og árum. Jafnvel lengur, þó að viðurkenna verði að spádómar verða þeim mun vafasamari sem rýnt er dýpra inn í þoku framtíðarinnar. Sumum þykir nóg um að þurfa að spá um fortíðina, eins og þekkt er.

En vart hefur farið fram hjá neinum að orkumarkaðir hafa verið í uppnámi að undanförnu, sveiflurnar gríðarlegar en í meginatriðum þó til hækkunar, sem endurspeglar undirliggjandi ójafnvægi framboðs og eftirspurnar. Verð á gasi í Evrópu, þar með talið í Bretlandi, hefur margfaldast á árinu. Fjöldi smásala á gasi í Bretlandi hefur orðið gjaldþrota að undanförnu vegna verðhækkana, enda geta þeir ekki hækkað verð til neytenda í samræmi við hraðar hækkanir á mörkuðum. Þeir sem höfðu ófullnægjandi varnir gegn verðhækkunum fóru á hausinn.

Með þaki á verðhækkanir er almenningi að hluta til hlíft við hækkandi verði á mörkuðum, þó að Bretar hafi fengið að kynnast hækkandi verði á bensíni og gríðarlegum skorti á þeirri nauðsynjavöru að undanförnu. En þak á verði til neytenda getur ekki haldið til lengdar því að það er á endanum engum öðrum til að dreifa að borga fyrir gasið. Og ef ekki tekst að hækka verðið til neytenda er ekkert fram undan nema skortur, og hættan á skorti er einmitt meginástæða þeirrar miklu verðhækkunar sem íbúar í Evrópu allri standa frammi fyrir.

Veturinn getur orðið afar erfiður mörgum í álfunni og hætt við að dauðsföll vegna kulda verði enn fleiri en almennt er. Þetta sýnir vel alvöru málsins og ætti að verða til þess að orkustefna Evrópu – og jafnvel heimsins alls – verði endurskoðuð.

Í Evrópu stendur vilji til þess að skipta sem hraðast úr jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa, þá sem taldir eru „grænir“, en ástandið nú bendir til þess að þar hafi verið gengið fram af kappi fremur en forsjá. Að auki hefur kjarnorkuverum verið lokað í Þýskalandi, jafnvel þó að þau hljóti að teljast græn á mælikvarða loftslagsmála, sem öllu virðist annars ráða nú um stundir. Þegar þetta fer saman, að loka kjarnorkuverum og skrúfa fyrir jarðefnaeldsneyti, er vitaskuld ekki von á góðu.

En það eru ekki aðeins Evrópulönd sem finna fyrir orkuskortinum, hans hefur til að mynda orðið mjög vart í Kína, sem hefur mátt þola raforkuleysi og styttri vinnuviku á köflum til að mæta skortinum. Það er nokkuð sem einnig gæti beðið Evrópu.

Hér á landi eru aðstæður aðrar, nánast einstakar. Ísland er ekki ofurselt evrópska orkumarkaðnum þó að stigið hafi verið óþarft skref í átt að honum með orkupakkanum alræmda. En Ísland er ekki með beina tengingu við evrópska markaðinn og lýtur því eigin lögmálum að verulegu leyti, sem er mjög til góðs.

Ísland er líka í þeirri stöðu að hér á landi er næg orka og það meira að segja sú orka sem eftirsóttust er nú um stundir, svokölluð græn orka. Hér er framleitt úr fallvatni og jarðvarma svo Ísland er einstakt á heimsvísu.

Íslendingar búa svo vel vegna hitaveitunnar sem hefur yljað þeim áratugum saman, að þeir eiga erfitt með að skilja ástandið í Evrópu og áhrif hækkandi verðs á orku á hitastig á heimilum. Hér er sama hversu napurt verður á vetrum, heimilin eru jafnan hlý og notaleg án þess að kostnaður verði óhóflegur. Þetta eru lífsgæði sem gjarnan gleymast.

En þetta eru líka lífsgæði sem þarf að verja og byggja upp áfram. Ísland á að halda áfram að vera til fyrirmyndar að þessu leyti og þess vegna verður að nýta þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða. Hér er töluverð raforkuframleiðsla á íbúa en hún gæti verið enn meiri, öllum til hagsbóta. Fjöldi virkjanakosta er enn ónýttur, jafnvel kosta sem taldir hafa verið í nýtingarflokki rammaáætlunar. Eins og fyrrverandi orkumálastjóri benti á hefur sú aðferð sem rammaáætlunin er ekki dugað eins og til stóð. Nýr orkumálastjóri er óljósari í tali um þetta efni þó að hún viðurkenni að hægt hafi gengið.

Óvíst er að tekist hefði að koma upp hitaveitu hér á landi eða hefja virkjun fallvatna í stórum stíl ef þau vinnubrögð sem tíðkast hafa á undanförnum árum hefðu tíðkast áður fyrr. Endalaus kæruferli hafa tekið við af framkvæmdagleði og með sama áframhaldi er hætt við að Ísland nái ekki að nýta með eðlilegum hætti alla þá hreinu og góðu orku sem landið hefur upp á að bjóða. Það þýðir ekki aðeins að landsmenn geta lent í ógöngum með fyrirhuguð orkuskipti, heldur líka að þeir geta lent verr í þeim verðhækkunum sem aðrar þjóðir standa frammi fyrir, enda kemur hækkandi olíuverð þeim mun verr við landsmenn sem minna er framleitt og nýtt af innlendri orku.