Jón Dalmann Þorsteinsson fæddist 26. desember 1933. Hann andaðist 30. september 2021.

Útförin fór fram 8. október 2021.

Við Jón vorum meðal þeirra tæplega 50 ungmenna sem hófu nám í nýjum héraðsskóla á Skógum undir Eyjafjöllum haustið 1949. Í ljós kom að við áttum ýmis sameiginleg áhugamál, og urðum því fljótt miklir mátar. Eitt áhugamálið var einfaldlega námið. Ungir og óþreyttir kennarar smituðu okkur af eldmóði sínum. Sjóndeildarhringurinn víkkaði stórum, til dæmis við það að geta tjáð sig á erlendu máli. Það kom fyrir oftar en einu sinni að við Jón sátum úti á gangi við gaflgluggann fram eftir nóttu og ræddum saman á dönsku.

Annað áhugamál voru stelpurnar. Við kunnum hvorugur að dansa. Þær yrðu vafalaust tregar til að þiggja dans við okkur nema kannski einu sinni, klaufar sem við vorum úti á gólfi. En Jón bjó svo vel að eiga útvarpstæki einn nemenda. Og við tókum okkur til og dönsuðum hvor við annan þegar enginn sá til, við danslög í útvarpinu. Mikill léttir var það seinni part vetrar þegar við heyrðum haft eftir einhverri stelpnanna að það væri nú alveg hægt að dansa við okkur.

Við stefndum á frekara nám og bjuggum okkur því undir landspróf, sem þá var skilyrði fyrir inntöku í menntaskóla. Ná þurfti 6 í meðaleinkunn, og við fórum báðir vel þar yfir vorið 1951. Minnisstætt er að kennarar okkar, sem ekki höfðu áður búið nemendur undir þetta próf, voru öllu verr haldnir af prófskrekk en við nemendur.

Þetta vor barst okkur landsprófsnemendum bréf frá Bjarna Bjarnasyni skólastjóra á Laugarvatni, þar sem hann bauð okkur setu í framhaldsdeild sem hann hafði stofnað við skólann, og átti að kenna til stúdentsprófs. Fimm úr hópnum þáðu boðið, þar á meðal við tveir. Menntaskólinn að Laugarvatni var síðan stofnaður á grunni þessarar framhaldsdeildar vorið 1953. Á Laugarvatni urðum við Jón herbergisfélagar. Við áttum saman bókina Brunninbelgju, skrifbók sem var bjargað sótugri úr kaupfélagsbruna á Hellu 1953. Margir þóttust vera skáld á þessum tíma, og við söfnuðum í hana ýmsu sem ekki verður annars staðar birt. Bókin var læst með hespu og hengilás. Lykillinn er týndur.

Skörð hafa smátt og smátt verið höggvin í systkinahópinn úr þessum tveimur heimavistarskólum, enda er sá gangur lífsins. Í hvert skipti spyr maður hver næst? Í mínu hjarta er skarðið eftir hann Jón Dalmann óvenju stórt. Enda þótt samskipti okkar hafi á síðari árum ekki verið meiri en gengur og gerist finn ég það núna að ég hef fáa vini átt sem skiptu mig meira máli en hann. Megi hann í friði fara.

Þessum orðum fylgir hinsta kveðja frá bekkjarfélögum og samstúdentum Jóns frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1955. Dóru konu hans og afkomendum eru fluttar hjartkærar samúðarkveðjur.

Jóhann Gunnarsson.

Mín fyrstu kynni af Jóni Dalmann Þorsteinssyni voru í árdaga Sjónvarpsins fyrir rúmlega hálfri öld.

Þá hafði Jón tekið að sér að sjá um tæknilegu hliðina á ákvörðun stjónvalda að setja á stofn íslenskt sjónvarp.

Ég hef ætíð hugsað um Jón Dalmann sem arkitekt að þessari tæknilegu framkvæmd sem lukkaðist allvel.

Jón hafði hæfileika til að fá starfsmenn til samvinnu og þetta tæknilega verkefni hæfði honum vel.

Ég man vel að þegar Bandaríkjamenn höfðu af að senda mannað geimfar til tunglsins var engin útsending hjá sjónvarpinu í júlí og allir tæknimenn í sumarleyfi.

Þá kom kallið og við Jón Dalmann græjuðum útsendinguna að mestu hnökralaust.

Við nafni höfum haft lauslegt samband í áranna rás, fórum til stangveiða nokkrum sinnum en Jón hafði mikla ánægju af veiðiskap. Í minningunni á seinni árum eru ógleymanlegar skötuveislurnar í Fossvoginum.

Jóns verður saknað sem vinar og vil ég með þessum fátæklegu línum votta Dóru og börnum og barnabörnum mína dýpstu samúð við fráfall nafna míns.

Jón Hermannsson.