Sigurlín Hermannsdóttir segir á Boðnarmiði að mild haustkvöld séu eitt af því betra. Og lætur þetta gullfallega ljóð, „Hausthúm“, fylgja:
Húm finnst mér hlýlegast orða,
handofin skikkja úr rökkri
fagurlögð bjartsýnisborða
brydduð með stjörnudýrð krökkri
fyllt er hún sumarsins forða
fóðruð með kælunni dökkri.
Á síðkvöldum skikkja mig hjúpar úr
húmi
að hausti ég gleymi oft tíma og rúmi.
Gunnar J. Straumland yrkir „hringhend og oddhend sléttubönd um veðurhorfur á afréttum“:
Bylur gólar, frerans fól
fimbul tólin hafa.
Dylur sólu skuggans skjól,
skaflar bólin grafa.
Lesin afturábak:
Grafa bólin skaflar, skjól
skuggans sólu dylur.
Hafa tólin fimbul fól,
frerans gólar bylur.
Magnús Halldórsson segist þennan morgun hafa lent í þrígang í kóngulóarvef eða vetrarkvíðaþráðum á leið til vinnu:
Hausinn prýðir hýjalín,
hér mun fjas ei tjóa.
Valda þessu verkin brýn,
vænstu köngulóa.
Anton Helgi Jónsson yrkir „Haustljóð í limruformi“:
Það komst eitt sinn kenning á sveim
um kyrran og laufgrænan heim.
Af rigningum barið
er reynitréð farið
að ryðga í fræðunum þeim.
Á fimmtudag orti Magnús Halldórsson og kallaði „Tímamót“:
Skrölti út og skyggndi' að vanda skýjaklasann.
Veðrabrigðin létt í las hann,
með löggildingu uppá vasann
Hér er limra eftir Jóhann S. Hannesson:
Á menningarheljarþröm hinstri
gegn hverskonar erlendu mynstri
við Lómagnúp stöndum
með ljóðstaf í höndum
og lemjum til hægri og vinstri.
Gömul vísa í lokin:
Þú ert að smíða, þundur skíða.
Þig mjög prýða verkin slyng,
en ég er að skríða vesæll víða
vafinn kvíða og mótlæting
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is