Á hreyfingu Hryggurinn sunnan við skriðusárið hefur verið á örlítilli hreyfingu undanfarna viku, meðal annars vegna mikillar úrkomu.
Á hreyfingu Hryggurinn sunnan við skriðusárið hefur verið á örlítilli hreyfingu undanfarna viku, meðal annars vegna mikillar úrkomu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sonja Sif Þórólfsdóttir sonja@mbl.is Aðalheiður Borgþórsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri á Seyðisfirði og núverandi fulltrúi sveitarstjóra, þurfti að fara út af heimili sínu vegna rýmingarinnar sem nú er í gildi á Seyðisfirði.

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Aðalheiður Borgþórsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri á Seyðisfirði og núverandi fulltrúi sveitarstjóra, þurfti að fara út af heimili sínu vegna rýmingarinnar sem nú er í gildi á Seyðisfirði. Aðalheiður segist ekki vera hrædd við að snúa aftur heim og treystir sérfræðingum til að taka réttar ákvarðanir.

Níu hús voru rýmd á Seyðisfirði á mánudag í síðustu viku vegna mikillar úrkomu. Þá er hryggur sunnan við skriðusárið, sem myndaðist eftir að skriður féllu í desember á síðasta ári, á hreyfingu og ekki ljóst hvort leiðigarðar og safnþrær munu taka við öllu því efni sem er óstöðugt í hlíðinni.

Aðalheiður þurfti einnig að yfirgefa heimili sitt í desember á síðasta ári þegar skriðurnar féllu. Þá sá hún hús sitt hverfa í rykinu sem þyrlaðist upp þegar skriðan féll, en húsið slapp þó við skriðuna, sem beygði af leið. Hún segist ánægð með hvernig staðið hafi verið að málum við að búa til leiðigarða og safnþrær. „Ég treysti því að þetta verði allt skoðað ofan í kjölinn. Það er ekki búandi við það að flekinn sé þarna á hreyfingu, þó að það sé bara í stuttan tíma eða annað slagið,“ segir Aðalheiður.

Kom smá á óvart

Hryggurinn hefur verið á hreyfingu frá því í byrjun mánaðar og um helgina unnu sérfræðingar að því að reikna út hvort leiðigarðar og safnþrær muni halda öllu því efni sem er í hryggnum, sama hvort hann kemur í heilu lagi eða smærri hlutum.

Aðalheiður segir að það hafi komið sér örlítið á óvart að nú sé verið að reikna út hvort varnirnar dugi til. Áður hafi verið talað um að varnirnar myndu duga en hún vonar að það skýrist betur á fundum í dag.

Magni Hreinn Jónsson, ofanflóðasérfræðingur á Veðurstofu Íslands, gerir ráð fyrir því að niðurstöður útreikninganna verði kynntar í dag.

Hann segir að engar breytingar hafi orðið á hryggnum um helgina og hann hafi fært sig á svipuðum hraða og í síðustu viku. Frá laugardegi til miðvikudags í síðustu viku hreyfði hann sig um 3,5 sentímetra samkvæmt mælingum.

Ekki verið að taka neina sénsa

„Mér líður bara ágætlega. Ég var alveg róleg, en þetta kom mér á óvart. Ég er búin að búa þarna mjög lengi og að vita að það er ekki verið að taka neina sénsa róar mig,“ segir Aðalheiður aðspurð hvernig henni líði með að snúa aftur heim til sín bráðlega. „Það er greinilega vakað yfir okkur. Ég fer ekki heim fyrr en þau treysta okkur til að vera heima.“