Skafti Bjarnason
Skafti Bjarnason
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Mikil úrkoma og aukinn umferðarþungi hefur orðið til þess að malarvegir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru illa farnir og nánast ókeyrandi vegna holna sem í þeim eru.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Mikil úrkoma og aukinn umferðarþungi hefur orðið til þess að malarvegir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru illa farnir og nánast ókeyrandi vegna holna sem í þeim eru.

„Við viljum helst ekki sjá svona mikið af holum,“ segir Skafti Bjarnason, oddviti sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Þær fari illa með farartæki og gætu hreinlega verið hættulegar. Best væri að malbika veginn.

Gífurleg umferð alls staðar

„Það endist miklu betur,“ segir Skafti en tekur fram að slíkt krefjist tíma og peninga.

„Við vitum alveg að það tekur tíma og það er ekki hægt að gera þetta allt í einu lagi. Þetta er mismunandi, sumir vegir eru meira keyrðir. Þetta eru tengivegir sem þurfa meira viðhald en vegirnir heim að bæjunum en þetta er orðin svo gífurleg umferð í gangi alls staðar að það er nauðsynlegt að þessum vegum sé viðhaldið.“

Skafti segir að eins og staðan er núna sé malarvegurinn heflaður tvisvar á ári, einu sinni að vori og einu sinni að hausti. Það þyki honum of lítið, það þurfi að bæta við einni heflun í viðbót. „Síðan er oft langur tími sem líður þar sem veðrið er ekki eins og þeir vilja hafa það. Það þarf meira til.“

Skilja að verið sé að bíða

Í Morgunblaðinu á laugardag sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, að veðurskilyrði hefðu ekki enn boðið upp á heflun.

„Það er tilgangslaust að hefla blautan veg. Það þarf að láta vegina þorna áður en vit er í að hefla,“ sagði G. Pétur.

Skafti segir sveitarstjórnina sýna því skilning. „Þess vegna skiljum við að menn séu að bíða en ég held að menn þurfi stundum að taka smá sénsa. “