Heiðbjört Erla Ánadóttir frá Hofi við Varmahlíð fæddist 5. desember 1954. Hún lést í Reykjavík 29. september 2021. Heiðbjört Erla var dóttir hjónanna Jórunnar Birnu Sigurbjörnsdóttur, f. 3. júlí 1925 á Bakka í Viðvíkursveit, d. 30. maí 1979, og Árna Kristjánssonar, f. 5. ágúst 1924 á Stapa í Lýtingsstaðahreppi, d. 10. janúar 1995. Heiðbjört Erla eignaðist þrjú börn. Elstur er Magnús Magnússon, f. 14. október 1974, búsettur í Danmörku, maki Tina Hauge, f. 12. maí 1981 og eiga þau tvö börn; Freyju Hauge, f. 2007, og Daniel Hauge, f. 2008. Þá átti Heiðbjört Erla tvö börn með Gísla Boga Jóhannessyni, f. 3. desember 1955; Sigrúnu, f. 12.desember 1977, og Jóhannes Helga, f. 2. febrúar 1981. Maki Sigrúnar er Flosi Jónsson, f. 28. september 1954. Sigrún og fyrri maki, Aðalsteinn Jónsson, f. 3. janúar 1961, eignuðust þrjú börn; Ásgerði Lilju, f. 1994, Jón Valgeir, f. 1994, og Ágústu Erlu, f. 2008. Jóhannes Helgi er ógiftur og barnlaus.

Systkini Heiðbjartar Erlu eru: Björk, f. 1945, gift Sigurði Vatnsdal, þau eiga tvö börn; Ingibjörg, f. 1946, gift Freysteini Bjarnasyni, þau eiga fjóra syni; Jóna Svanhildur, f. 1948, gift Kristjáni Gunnarssyni, þau eiga tvö börn; Kristján, f. 1950, kvæntur Önnu Jónasdóttur, þau eiga tvo syni; Þuríður Fanney, f. 1952, d. 2014, á hún einn son frá fyrra hjónabandi; Sigurbjörn, f. 1957, kvæntur Guðrúnu Ottósdóttur, þau eiga tvo syni, þá á Sigurbjörn tvo syni frá fyrra hjónabandi; Álfheiður Halla, f. 1959, var gift Ásgeiri Sigurði Jónassyni, d. 8. mars 1992, þau eiga tvö börn; Svala Dröfn, f. 1967, gifta Trausta Þór Sigurðssyni, þau eiga þrjú börn.

Heiðbjört Erla ólst upp á Akureyri en þangað fluttu foreldrar hennar vestan úr Skagafirði þegar hún var á barnsaldri. Starfaði hún við fiskvinnslu á Akureyri. Flutti síðar til Reykjavíkur og starfaði við umönnunarstörf, hótelstörf og þrif meðan heilsan leyfði.

Útför Heiðbjartar Erlu Árnadóttur fer fram frá Hjallakirkju í dag, 11. október 2021, og hefst klukkan 13.

Elsku mamma, við getum ekki lýst því hversu sárt er að þú sért farin. Síðustu dagar hafa verið okkur systkinunum óraunverulegir. Við heyrðumst ekki alls fyrir löngu, þá var gott í þér hljóðið. Það er svo erfitt að vita til þess að heyra ekki röddina þína og fá faðmlag aftur. Söknuðurinn er ólýsanlegur.

Þegar þetta er skrifað og við hugsum til baka þá streyma minningarnar fram, til dæmis af einni af mörgum norðurferðum sem við fórum saman á æskuslóðir þínar í Skagafirði. Þú sýndir okkur hvar þú bjóst með foreldrum þínum og mörgum systkinum við þröngan húsakost og sagðir okkur frá þegar þið fóruð í sundlaugina í Varmahlíð. Þú varst mjög stoltur Skagfirðingur og af öllu sem þaðan kom, ekki má nú gleyma sérstöku skagfirsku orðabókinni þinni.

Þú varst ávallt stolt af barnabörnunum þínum og skemmtir þér konunglega á danskri grund í fermingunni hennar Freyju á þessu ári. Þú hlakkaðir líka til fermingar Ágústu Erlu á næsta ári og varst búin að tryggja veislusal í blokkinni sem þú bjóst í, á Þórðarsveigi 5, fyrir veisluna. Einnig hafðir þú skipulagt að fara í ferminguna hans Daníels í Danmörku sama ár.

Þú varst alltaf boðin og búin að hjálpa með næstum hvað sem var, hvort sem var um að ræða fyrir okkur í fjölskyldunni eða vinafólk. Oft á tíðum gekkstu nærri þér í góðmennsku þinni. Þú máttir ekkert aumt sjá, þá varst þú komin til aðstoðar og gleymdir stundum sjálfri þér. En seiglan í þér var ótrúleg og húmorinn aldrei langt undan.

Elskuleg móðir okkar, nú er komið að kveðjustund að sinni. Við þökkum þér innilega fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Okkar lokakveðja til þín er þetta fallega og lýsandi ljóð, megir þú hvíla í friði.

Mikil sorg í hjarta mínu nú býr

en á morgun kemur þó dagur nýr.

Það er sá harmur sem ég ber inni í mér

að finna það á morgun að þú ert ei

hér.

Aldrei get ég skilið hví hann tók þig

svo fljótt,

hvernig get ég hér eftir verið rótt

í þeirri götu sem ég þig fyrst sá?

Mikinn söknuð og harm ég finn fyrir þá.

Því komið er stórt gat í mínu hjarta,

ég sé bara fyrir mér framtíð svarta.

Hvernig á ég að geta fyllt upp í það?

Enginn mun geta komið í þinn stað.

Komdu aftur, komdu til mín,

ég ætíð vildi vera þín.

Um aldur og alla ævi mína,

við áttum að fá lengri tíma.

Hví þurfti þetta að gerast?

Af hverju nú?

Hví ekki þegar við yrðum gömul?

Af hverju þú?

(Katrín Ruth, 1979)

Þín börn,

Sigrún og Jóhannes.

Systir okkar, Heiðbjört Erla, er fallin frá á sextugasta og sjöunda aldursári og fylgir þar Þuríði systur sinni sem lést árið 2014. Hún var sjötta í röð níu barna foreldra okkar, heiðurshjónanna Jórunnar Sigurbjörnsdóttur og Árna Kristjánssonar, sem bæði eru látin. Þau bjuggu í Skagafirði fram til 1960, og eru flest barnanna fædd þar, en fluttu þá til Akureyrar.

Heiðbjört gekk í Oddeyrarskóla og lauk þar burtfararprófi. Hún fór snemma út á vinnumarkaðinn og vann lengi í fiskvinnslu, bæði á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Henni varð þriggja barna auðið. Elstur er Magnús, fæddur 14.10. 1974, sem hún eignaðist með Magnúsi Jónssyni frá Ólafsfirði. Sambýlismaður Heiðbjartar var síðan Gísli Bogi Jóhannesson frá Grímsgerði í Fnjóskadal og eignuðust þau tvö börn. Þau slitu samvistir. Eldra barnið er Sigrún, fædd 12.12. 1977. Hún á dótturina Ásgerði Erlu. Sambýlismaður hennar er Flosi Jónsson. Yngra barnið, Jóhannes Helgi, fæddist 2.2. 1981.

Ævi Heiðbjartar var ekki alltaf rósum stráð. Hún flutti til Reykjavíkur eftir samvistarslit og átti hún þar góða daga og slæma. Oft varð henni hugsað heim til Akureyrar og hringdi þá gjarnan til að fá fréttir af fólkinu sínu og fylgdist vel með systkinum sínum og þeirra lífi. Hún vildi alltaf öllum hjálpa þótt hún af veikum mætti ætti oft erfitt með það.

Í sumar sem leið heimsótti hún Magnús son sinn sem býr í Danmörku og fjölskyldu hans; sambýliskonuna Tínu og börnin Freyju og Daníel. Hún var viðstödd fermingu sonardóttur sinnar, Freyju, og var hún óumræðilega ánægð með ferðina.

Heiðbjört átti við vanheilsu að stríða síðustu mánuðina og kannski má segja að hún hafi uppfyllt sínar hinstu óskir með ferð sinni til Danmerkur.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Magnús, Sigrún, Jóhannes Helgi og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Elsku systir hvíl í friði.

Björk, Ingibjörg, Jóna, Kristján, Sigurbjörn,

Halla, Svala og fjölskyldur.