Ákveðinn ljómi er eflaust yfir flestum ef ekki öllum störfum en eftir lestur glæpasögunnar Út að drepa túrista eftir Þórarin Leifsson renna sennilega tvær grímur á lesendur varðandi störf leiðsögumanna og rútubílstjóra.
Sagan lýsir fyrst og fremst ferðalagi hóps útlendinga í „skítaveðri“ á Íslandi um miðjan mars 2020, skömmu eftir að landinu var nánast lokað vegna kórónuveirufaraldursins. Dagskrá hvers dags fylgir ásamt kvöldverðarmatseðli en margt fer öðruvísi en ætlað er.
Þórarinn er leiðsögumaður. Fram kemur að frásögnin sé byggð á sannsögulegum atburðum, „en fordómar, kynþáttahatur, fitusmánun, karlremba, kvenfyrirlitning, minnihlutasmánun, mistök í leiðsögn og ýmiskonar óeðli eru ekki höfundar“.
Upplýsingar um farþega að hætti Agöthu Christie benda til að hér sé á ferð krimmi í hennar anda, en þrátt fyrir morð og fleira sem einkennir glæpasögur er þetta fyrst og fremst lýsing á ferðalagi og sér í lagi á Kalman Pétri leiðsögumanni og Magnúsi rútubílstjóra. Mennirnir eru í einu orði sagt vonlausir, bjóða ekki af sér góðan þokka, þola ekki vinnuna, ná litlu sem engu sambandi við viðskiptavini sína og eru úti að aka.
Undirtónninn er alvarlegur og viðbjóðurinn leynir sér ekki en söguþráðurinn er engu að síður fyndinn og lýsingarnar kalla oft fram óstöðvandi hlátur, þótt sumar séu á gráu svæði eins og til dæmis „djöfulsins Dalvíkingar“. Því kemur ekki á óvart að höfundur sverji þær af sér.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Baldur Eiðsson, „goðsögn í lifanda lífi“, er sérfræðingurinn í sögunni, hokinn af reynslu. Því kemur spánskt fyrir sjónir að fjölmiðlafólk viti varla af manninum, sem hættir störfum sjö dögum eftir að hann er kynntur til sögunnar.
Uppbyggingin er óvenjuleg blanda glæpa og fyndni, en þegar allt kemur til alls er það umhyggja fyrir öðrum sem öllu skiptir í þessari óvenjulegu og hressilegu sögu.
Steinþór Guðbjartsson