Svikaskáld Þrátt fyrir að kaflarnir séu misgóðir í Olíu eru þeir allir merkilegir á sinn hátt, segir í rýni.
Svikaskáld Þrátt fyrir að kaflarnir séu misgóðir í Olíu eru þeir allir merkilegir á sinn hátt, segir í rýni. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Svikaskáld. Mál og menning, 2021. 182 bls.

Bókin Olía , fyrsta skáldsaga Svikaskálda, á mjög sterka spretti en kaflarnir eru svo misjafnir að gæðum að bókin nær ekki, þrátt fyrir aðdáunarverða tilraun, að verða að sterkri heild. Uppbygging bókarinnar er óvenjuleg og frískandi en þar segja sex konur sögu sína út frá eigin sjónarhorni. Engir tveir kaflar eru skrifaðir af sama skáldi. Kaflarnir tengjast hver öðrum innbyrðis en tengslin eru missterk og ekki annað hægt en að spyrja hvort sumir kaflarnir hafi í raun verið nauðsynlegir sögunni. Bókin fetar þannig einhvern undarlegan en áhugaverðan stíg á milli skáldsögu og smásagnasafns.

Ólíkindatól

Þótt byrjun þessa bókadóms megi teljast nokkuð neikvæð þýðir það ekki að bókin sé léleg, því það er hún sannarlega ekki. Hún er ólíkindatól sem er erfitt að festa fingur á, erfitt að setja í eitthvert ákveðið box og því snúið að dæma hana og greina. Samtímis er spennandi að skoða bókina vegna þess hve frásagnaraðferðin er framandi.

Svikaskáld, hópurinn sem skrifar bókina, standa undir nafni í þessu verki. Hafi lesandinn búist við skáldsögu er hann svikinn, hafi hann gert ráð fyrir smásagnasafni er hann líka svikinn. Og hann neyðist eiginlega til þess að leggja hugmyndir sínar um smásögur og skáldsögur á hilluna og lesa aftur, algjörlega opinn fyrir því sem koma skal.

Svikaskáld samanstanda af þeim Þórdísi Helgadóttur, Þóru Hjörleifsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Melkorku Ólafsdóttur og Fríðu Ísberg. Í Olíu takast þær á við tvö stór viðfangsefni sem eru ofarlega á baugi í samtímanum; stöðu kvenna og loftslagsmál. Bæði viðfangsefnin eru skoðuð út frá nokkrum sjónarhornum og ná Svikaskáldin dýpt í vangaveltum sínum, sérstaklega um loftslagsmál. Unga kynslóðin tjáir sig um málið, hrædd um það sem koma skal, elsta kynslóðin sér ekki tilgang í því að velta sér of mikið upp úr orðnum hlut, t.d.: „Ég er jafn hverfandi og jöklarnir“, og kynslóðin í miðjunni er ekki einróma í afstöðu sinni til málefnisins.

Á köflum eru textarnir hrífandi og jötunsterkir, eiga auðvelt með að taka lesandann með sér inn í söguheiminn. Sumir kaflanna eru þannig að þeir bjóða upp á mun lengri sögur, jafnvel heilu skáldsögurnar, og voru það t.d. vonbrigði þegar í ljós kom að ég myndi ekkert fá að heyra meira um Gerði, meistaralega vel smíðaðan karakter sem lítur á heiminn frá þröngu en einstöku sjónarhorni. Þá eru sumir textanna veikari en aðrir og vegna þess missir bókin stundum dampinn.

Þrátt fyrir að kaflarnir séu misgóðir eru þeir allir merkilegir á sinn hátt og fela í sér mjög sterka persónusköpun. Flestir kaflanna eru fullir af húmor og er stíll hvers höfundar fyrir sig einkennandi fyrir viðkomandi.

Ragnhildur Þrastardóttir

Höf.: Ragnhildur Þrastardóttir