Bragi fæddist á Arnarstöðum í Presthólahreppi, núverandi Öxarfjarðarhreppi, í Norður-Þingeyjarsýslu 16. águst 1931. Hann lést 1. október 2021.

Foreldrar hans voru Stefán Tómasson og Oktavía Stefanía Ólafsdóttir. Bragi var yngstur í 11 systkina hópi. Eru þau öll látin. Bragi missti móður sína á öðru ári og fór í fóstur hjá Þorbjörgu Jóhannesdóttur á Brekku í sömu sveit.

Árið 1958 giftist Bragi Ólöfu Ósk Sigurðardóttur, d. 2013, og eignuðust þau tvö börn: Sigrúnu Björgu Bragadóttur, fædda 1960, og Garðar Bragason, fæddan 1964. Þau skildu árið 1968. Þann 14. ágúst 1971 kvæntist Bragi seinni eiginkonu sinni Guðmundu Þórarinsdóttur, d. 2010. Þau eignuðust tvö börn: Hólmfríði Bragadóttur, fædda 1972, og Braga Þór Bragason, fæddan 1976. Sigrún á þrjú börn: Braga Höskuldsson, fæddan 1978, Fríðu Grace Howard, fædda 1990, og Maríu Rose Barba, fædda 1998. Bragi lætur einnig eftir sig barnabarnabörn.

Bragi lauk sveinsprófi í bifvélavirkjun árið 1954.Var hann sendur til New York á vegum SÍS til náms. Árið 1959 stofnaði hann fyrirtækið Bifreiðastillingu og starfaði þar til ársins 2004.

Útför Braga fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 11. október 2021, klukkan 13.

Streymt verður frá útförinni:

https;/youtu.be/46kV-uS7EgQ

Einnig má nálgast virkan hlekk á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi minn, nú ertu búinn að kveðja þennan heim. Og það er mikið tómlegt án þín. Ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið, ég trúi varla að þú sért farinn. Ég var alin upp stóran part af æsku minni á verkstæðinu þínu, þannig að ég var ekki venjuleg stelpa. Þú varst svo duglegur alltaf að vinna, meira segja í fríum þínum gerðir þú við bíla í leiðinni. Við fórum í mörg ferðalög, mikið norður að hitta systkini þín sem bjuggu þar. Þá var alltaf svo gaman. Þú áttir 11 systkini svo þetta var stór fjölskylda og þú varst yngstur. Nú eruð þið öll fallin frá, blessuð sé minning ykkar allra.

Lífið var nú ekkert dans á rósum hjá þér oft en alltaf reddaðir þú þér. Þú kenndir mér að biðja bænir og að veiða, við fórum í ansi margar veiðiferðir saman og þá var kátt á hjalla hjá okkur og mikið hlegið. Í einni ferð okkar norður með mömmu vorum við að nálgast Borgarnes þegar viftureimin í fína Chevy Impala-bílnum þínum gaf sig. Nú voru góð ráð dýr. Þú vippar þér yfir til mömmu og spyrð hana: Munda mín, áttu nælonsokkabuxur? Já, sagði mamma og hélt að þú værir orðinn galinn. Má ég fá þær? Já, sagði mamma. Þú gerðir við bílinn og reddaðir þessu eins og þér var einum lagið. Við héldum okkar ferð áfram alla leið í Kelduhverfi á nælonsokkabuxum mömmu.

Þú varst alltaf svo hjartahlýr og traustur, hjálpsamur og með góðan húmor. Betri manni hef ég ekki kynnst, enda ertu uppáhaldið mitt. Yndislegur faðir, afi, langafi. Ávallt boðinn og búinn að hjálpa öllum. Þrjóskur varstu líka en með mikla réttlætiskennd. Við lærðum systkinin mikið af þér hvernig við ættum að vera í vinnu og heiðarleg og traust. Þú varst mikið í Kiwanis og einn af stofnendum Jörfa-klúbbsins. Þar eignuðust þið mamma marga góða og trausta vini. Það voru ófá skiptin sem ég var að keyra ykkur og félaga ykkar fram og til baka út af Kiwanis. Það var alltaf svo gaman hjá ykkur. Þið voruð með betra félagslíf heldur en við krakkarnir áttum. Við höfum alltaf verið einstaklega náin og þú hefur alltaf staðið við bakið á mér, systkinum mínum og börnum mínum. Fyrir það er ég svo þakklát. Að við öll vorum svo heppin að hafa svona frábæra fyrirmynd eins og þig. Ég veit að þú ert kominn til mömmu svo mér líður betur að vita af ykkur saman aftur. Ég ætla ekki að kveðja þig, elsku pabbi minn, heldur segja þangað til við hittumst næst. Þú veist að ég þoli ekki kveðjustundir. Ég elska þig, pabbi minn, og takk fyrir allt saman.

Þín dóttir,

Sigrún Björg.

Elsku pabbi, nú ertu loks kominn til systkina þinna foreldra og síðast en ekki síst elsku mömmu. Get rétt ímyndað mér fagnaðarfundina í paradísinni.

Ég datt í lukkupottinn með þig og mömmu, betri foreldra hefði ég ekki getað fengið.

Og bý ég að því í dag, þú varst ákveðinn og harður en samt svo ljúfur og alltaf tilbúinn að hjálpa.

Minningarnar eru óteljandi, allar sundferðirnar, ferðalögin og á síðustu árunum söngurinn sem var svolítið okkar, enda restin af litlu fjölskyldunni laglaus að eigin sögn.

Þú kenndir mér ótal margt, m.a. bænirnar og að vinna, já það þýddi enga leti hjá þér, enda þurftirðu að hafa fyrir hlutunum frá unga aldri þar sem móðir þín lést þegar þú varst aðeins eins árs og ykkur systkinunum var komið fyrir á mismunandi bæjum. Þú sagðir mér einmitt frá fóstru þinni, hvað þú varst heppinn því hún var einstök. Fátæktin var talsverð, en fóstra þín passaði alltaf upp á hann Braga sinn, Ég gleymi aldrei sögunni um það þegar þú týndist og sveitungarnir voru farnir að ókyrrast mjög en fóstra þín var hin rólegasta og sagði: Hann Bragi minn kemur er kirkjuklukkurnar hringja, og það stóðst, svo sterk var tengingin ykkar. Og aðeins 16 ára komstu í borgina, eftir andlát fóstru þinnar og þurftir þá að sjá um sjálfan þig og stóðst þig ótrúlega, stofnaðir fyrirtæki sem er enn starfandi.

Þú varst mjög félagslyndur, enda varstu og ertu hátt skrifaður hjá Kiwanis þar sem þú lagðir svo sannarlega þitt af mörkum, og við krakkarnir nutum góðs af, því ótal voru ferðalögin. Elsku pabbi, skilaðu kærri kveðju til mömmu, þangað til næst.

Þín

Hólmfríður (Fríða).

Elsku pabbi minn, nú ertu loksins kominn til mömmu. Þín verður sárt saknað. Þótt samband okkar hafi ekki alltaf verið upp á 10, sérstaklega á yngri árum mínum, þá stóðstu alltaf upp ef á mig var hallað. Nema þegar ég gerði eitthvað af mér, sem var nokkuð oft, þá léstu mig heyra það, sem ég átti líklega skilið. Svo snerist þetta pínu við allra seinustu árin og var það þá ég sem þurfti að hnýta í þig gamli minn. Þú varst með mikla réttlætiskennd, eins og þegar ég skemmdi hurðina á bílnum ykkar þá hreinlega þurfti ég bara að borga.

Heiðarleiki var þér í blóð borinn og þið mamma þolduð ekki lygi og við krakkarnir lærðum það fljótt. Þú varst hjálpsamur með eindæmum og skipti ekki máli hvort þú þekktir til eða ekki. Þú varst harður í horn að taka, ákveðinn og með sterkar skoðanir á hlutunum, og vildir hafa allt á hreinu.

Ferðalögin voru ótalmörg, við fórum t.d. til Kýpur, Egyptalands og Ísraels, í Ísrael máttir þú ekki vera í stuttbuxum í moskunum og því þurftirðu að vera í bleikum buxum, og eigum við þessa flottu mynd af því. Við spiluðum mikið trivial á yngri árum en í seinni tíð var það ólsen-ólsen. Svo á Tene var það minigolf og pool.

Já, minningarnar eru óteljandi elsku pabbi og ég sakna þín sárt en hugga mig við að loks ertu kominn til mömmu og svo margra sem fallnir eru frá. Já, nú hlýtur að vera nokkurra daga partí þarna uppi! Ég elska þig að eilífu pabbi minn og þótt ég telji ekki upp margar minningar hér munu þær ávallt vera í hjarta mínu.

Þinn sonur,

Bragi Þór.

Ég á marga fjölskyldumeðlimi, sem ég hef hitt í gegnum tíðina, en sá sem ég sá mest af í lífi mínu var hann afi minn, Bragi Stefánsson. Á hverju sumri síðan ég var lítið barn heimsótti ég Ísland með mömmu minni til að hitta fjölskyldu mína þar og ég kaus alltaf að vera hjá afa mínum.

Ég á margar góðar minningar um að spila ólsen-ólsen með afa og frænda og þó að ég ynni heiðarlega var ég sökuð um að svindla! Við hlógum mikið að því. Einu man ég vel eftir: þegar einhver átti að draga spil var afi vanur að segja með skringilegum og fyndnum hreim: „DRAW“ sem lét okkur skellihlæja.

Ég er mjög þakklát fyrir minningarnar sem ég á með og um afa minn. Frá því að veiða í ám og vötnum á Íslandi með honum og ferðast með honum að heimsækja ættingja okkar. Ég hef lifað ríku lífi með afa mínum, hann var alltaf til staðar fyrir mig. Ef mér leið illa þá sat hann og hélt í höndina á mér og talaði við mig þangað til mér leið betur. Þannig var maður var hann afi minn.

Þegar afi var kominn á efri árin lét hann ekkert stoppa sig, eins og að klifra upp á tröppu til að skipta um perur í loftinu og hengja upp jólaskraut. Hann var svo þrjóskur. Maður gat ekki annað en dáðst af honum.

Ég á aldrei eftir að gleyma hlátri hans þegar ég var að hjálpa honum í stígvélin áður en við fórum að veiða, og hvernig hann hélt í hönd mína þegar við vorum að labba saman. Já nærvera hans var yndisleg.

Afi var alltaf snyrtilega klæddur, í litríkum skyrtum sem við mamma völdum á hann. Hann leyfði mér líka að leika við englahárið hans þannig að það stóð í allar áttir! Við hlógum að því saman.

Ég er mjög þakklát fyrir að afi varð langlífur og umvafinn fjölskyldu og ást og að þegar hann kvaddi var hann umvafinn fólkinu sem elskaði hann mest. Þótt ég hafi ekki getað verið hjá honum og haldið í hönd hans þegar hann kvaddi er ég mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að segja honum hve mikið ég elska hann áður en hann fór. Ég er líka svo þakklát og heppin að kalla Braga Stefánsson afa minn. Hans verður sárt saknað og ávallt elskaður. Elsku afi minn.

Þín

Maria Rose.

Til afa míns. Til mannsins sem var alltaf til staðar, þakka þér fyrir. Takk fyrir að elska fjölskylduna þína eins og aðeins þú gast gert. Þú hefur kennt okkur öllum hvað erfiðisvinna, traust, samviskusemi, heiðarleiki og ást er. Þú settir ekki fyrirmynd fyrir fólk heldur varstu sjálfur fyrirmyndin. Einstök fyrirmynd. Þú komst fram við fólk eins og það eitt skipti máli og gafst því alla þína athygli þegar þú ræddir við það. Virðingarvottur sem er sjaldgæfur nú til dags. Þú valdir alltaf réttu vegina í lífinu þótt sumir væru erfiðir og jafnvel hættulegir og komst alltaf í gegn sterkari en áður. Þessir vegir leiddu þig alltaf heim til þinnar einu sönnu ástar, Guðmundu Þórarinsdóttur, og fjölskyldu þinnar. Sumar af mínum uppáhaldsminningum eru um ykkur ömmu. Eins og þegar ég var lítil og beið í glugganum eftir að sjá bílinn þinn koma heim á meðan amma var að elda. Um leið og þú komst fyrir hornið hljóp ég af stað eins hratt og ég gat beint í faðm þinn. Þú hentir alltaf skjalatöskunni þinni frá þér eins og hún hefði bitið þig. Þú tókst mig í fangið og lyftir mér yfir höfuð þér og snerist í hringi með mig af einstakri ánægju og fórst að skellihlæja hlátri sem fyllti loftið í kringum okkur. Þessi augnablik voru þau bestu sem ég hef átt.

Nú þegar ég er vaxin úr grasi og sjálf búin að eignast dætur get ég stolt kennt þeim allt það sem þú kenndir mér, jafnvel þótt stundum hafi virst sem ég tæki ekki eftir. Þú kenndir mér garðyrkju og hvernig ætti að veiða fisk og gera að honum fullkomlega og að synda eins og meistari á morgnana í sundlauginni með þér og ömmu og svo margt fleira. Dætur mínar, Scarlett og Sienna, munu alltaf vita hver langafi þeirra er í gegnum sögur mínar og lexíur sem þú kenndir mér sem ég mun kenna þeim. Takk fyrir að sýna mér leiðina. Bragi Stefánsson, þú átt sérstakan sess í hjörtum okkar allra. Þótt þú hafir kvatt þennan heim mun minning þín lifa áfram í hjörtum okkar. Kysstu ömmu frá okkur.

Ég elska þig ávallt.

Þin

Fríða Grace.

Bragi föðurbróðir okkar elskulegur er látinn. Sá yngsti af 11 börnum þeirra Oktavíu Stefaníu Ólafsdóttur og Stefáns Tómassonar frá Arnarstöðum í Öxarfirði og sá síðasti af alsystkinunum að kveðja okkur rétt 90 ára. Eftirlifandi er hálfsystir, Oktavía Stefánsdóttir í Reykjavík.

Hann fór í fóstur tveggja ára þegar móðir hans fór á Kristnes vegna berkla og lést þar 43 ára gömul. Varð því Brekka fyrir utan Kópasker hans heimili og fjölskyldan þar fólkið hans. Það er mikið áfall fyrir börn að missa móður sína unga en heimilið var í kjölfarið leyst upp. Áfallið af móðurmissinum virðist hafa styrkt systkinin frá Arnarstöðum. Það var sterkt samband og kærleikur á milli þeirra alla tíð og gleði, spil og söngur í hávegum þegar þau komu saman. Bragi fór sem ungur maður til Reykjavíkur í Iðnskólann og lærði bifvélavirkjun. Fyrst í stað leigði hann sér herbergi og var í fæði hjá foreldrum okkar, bróður sínum Halldóri Gunnari, Halla, og eiginkonu hans Guðrúnu Emelíu, Emmu. Þegar foreldrar okkar flytja að Kvisthaga 9 flytur hann með þeim og býr þar þar til hann fer til Ameríku að læra að gera við sjálfskiptingar. Líklega verið sá eini á þeim tíma eða einn af fáum með þá menntun. Hann vann meðan á námi í Iðnskólanum stóð og kannski einnig eftir að heim var komið á bifreiðaverkstæði Sambandsins. Síðar stofnaði hann Bifreiðastillingu, þar sem hann starfaði æ síðan. Bragi var giftur Guðmundu Þórarinsdóttur, Mundu, og átti með henni börnin Hólmfríði og Braga Þór, áður átti hann Sigrúnu Björgu og Garðar með fyrri konu sinni Ólöfu Ó. Sigurðardóttur. Munda hans lést eftir skammvinn veikindi 18. september 2010.

Þegar foreldrar okkar voru komin á efri ár var ómetanlegur stuðningur og gleði að heimsóknum Braga og Mundu.

Bragi var einn af stofnendum Kiwanisfélagsins Jörfa, annar forseti þess og umdæmisstjóri á árunum 1988-1989. Var starf hans innan félagsins og hreyfingarinnar mikið og gott.

Römm var taugin sem tengdi hann norður í heimasveit og fyrir atbeina hans og þrautseigju er heiðarbýlið Hrauntangi nú í eigu afkomenda hans og systkina hans og afkomenda Jóns Tómassonar, föðurbróður hans.

Við viljum þakka Braga samfylgdina í lífinu og allar þær góðu minningar sem við eigum með honum, eins og silungsveiði í heiðavötnum, við kríueggjatínslu og síðast en ekki síst sviðaveislur sem hann bauð til. Við nutum þess að heimsækja hann síðasta afmælisdaginn, höfðingi heim að sækja eins og alltaf, prúðbúinn bauð hann að sjálfsögðu upp á veitingar.

Bragi lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 1. október sl., skömmu fyrir andlátið kom fram í samtali hvað væri hans uppáhaldslag. Stemningin er áþreifanleg í textanum og vel við hæfi að hafa annað erindið lokaorð í þessari kveðju um leið og við þökkum okkar kæra frænda samfylgdina í lífinu.

Eg vil dansa við þig, meðan dunar

þetta draumblíða lag, sem eg ann.

Meðan fjörið í æðunum funar

af fögnuði hjartans, er brann.

Að dansa dátt, það er gaman,

uns dagur í austrinu rís.

Þá leiðumst við syngjandi saman

út í sumarsins paradís.

(Magnús Gíslason á Vöglum)

Sigrún, Guðrún, Bryndís

og fjölskyldur.

Mig langar að minnast fáum orðum hans Braga „pabba“. Já, innan gæsalappa því hann var auðvitað ekki blóðskyldur mér heldur faðir æskuvinkonu minnar, Sigrúnar Bjargar. Ég missti minn pabba 15 ára og um það leyti vorum við Sigrún að treysta vinskapinn meira. Þær voru ófáar ferðirnar upp á verkstæði, Bifreiðastillinguna, til að betla pening og þar kom pabbi undan einhverri bilaðri bifreiðinni með tvist og smurolíuhendur, opnaði hreint og vel með farið seðlaveskið og dró upp nokkra græna slétta með stóískri ró. Í þá daga þurftum við að hafa fyrir betlinu, koma okkur suður í Kópavog og sem leið lá aftur niður á Halló (Hallærisplanið) eða í Tónabæ með aurinn. Bragi alltaf í góðu skapi, sá hann aldrei segja styggðaryrði þrátt fyrir að við Sigrún, á gelgjunni, legðum undir okkur húsið þegar við vorum að mála okkur, æfa dans og skiptast á fötum til að fara á djammið. Donna Summer í botni og klóið upptekið meira og minna. Bragi sat þá inni í stofu með vindil og hafði bara gaman af ásamt Mundu sinni, en þau höfðu sömu skapgerð. Ekkert hróflaði við þeim, þess vegna var svo notalegt að vera heimagangur í Hraunbænum. Eitt sinn sá ég í Mogganum auglýsingu frá Útsýn um ferð til Costa del sol og bar þá undir Sigrúnu hvort ekki væri nú gaman að prufa djammið á Spáni aðeins. Þá vorum við 19 ára diskódrottningar, eftir danskeppnir í Klúbbnum. Við áttum auðvitað ekki kapítal fyrir svona ferð að fullu og því síður að kaupa ferðatékka, sem þá voru skammtaðir. Við fórum ofurvarlega til pabba og med det samme skrifaði Bragi undir víxil með loforði um fullt uppgjör af okkar hálfu. „Ekkert mál, þið bara borgið til baka þegar þið getið stelpur mínar og þið standið við eitt loforð: Enga helvítis vitleysu!“ Það stóðst... svona nokkurn veginn. Okkur tókst að klára ferðatékkana á þriðja degi. Þarna komumst við sko í feitt, alls konar fatabúðir og fleira spennandi. Enginn vissi af peningaleysinu, og alls ekki Bragi! Við enduðum á að vinna við að dansa gógódans á New Pipers-diskótekinu til að komast lífs af úr Spánarferðinni! Við skiluðum okkur heilar heim eftir mikið ævintýri. Bragi sótti okkur út á flugvöll og bara: „Djö lítið þið vel út! Brúnar og flott dress!“ Íþróttaskór með fylltum hælum.

Ég man að ég fór einhvern tímann ríðandi á hestinum mínum frá Neðri-Fák og upp í Hraunbæ 93, ætlaði að koma Sigrúnu á óvart. Hún var ekki heima, nema Bragi og Munda komu til dyra og buðu okkur hestinum inn í garð og spurðu hvort þau mættu ekki grilla handa okkur. Svona var Bragi. Alltaf brosandi og með jafnaðargeð og ekkert kom honum á óvart. Treysti manni. Ég kynntist orðinu Kiwanis á þessu ágæta heimili enda Bragi mjög virtur Kiwanis-félagi. Ég sé mikið eftir Braga „pabba“, hlýjunni, brosinu og gestrisninni á hans heimili, en þar voru allir velkomnir, sendiherrar sem og hestar. Endalaus þolinmæði fyrir öllu.

Hvíl þú í friði elsku Bragi minn, Munda tekur nú við með útbreiddan faðminn aftur.

Harpa Karlsdóttir.

Hinsta kveðja frá Einherjum

Fallinn er frá félagi okkar Bragi Stefánsson.

Bragi var félagi í Kiwanisklúbbnum Jörfa og einn af stofnfélögum hans. Bragi gegndi öllum helstu embættum innan klúbbsins, en hann var annar forseti Jörfa starfsárið 1976-1977

Bragi var öflugur Kiwanisfélagi og mikill leiðtogi og hvatti félaga til góðra verka innan klúbbs sem utan, sótti fundi í klúbbnum sínum sem og hjá okkur fyrrverandi umdæmisstjórum á meðan heilsan leyfði, mikill og öflugur Kiwanisfélagi var þarna á ferð.

Bragi var svæðisstóri Þórssvæðis 1981-1982, umdæmisféhirðir 1985-1986 og umdæmisstjóri starfsárið 1988-1989.

Bragi var léttur og stutt í glettni hjá okkar manni.

Einherjar, félagsskapur fyrrverandi umdæmistjóra Kiwanis, kveðja góðan félaga. Skarð er fyrir skildi en eftir lifir minning um góðan félaga og mikinn Kiwanismann.

Einherjar færa ættingjum Braga og félögum hans í Kiwanisklúbbnum Jörfa hugheilar og innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning góðs félaga og vinar.

Fyrir hönd Einherja,

Dröfn Sveinsdóttir goði.

Vinur okkar og mikilli leiðtogi hann Bragi Stefánsson lést 1. október. Fljótlega eftir að við Björk fluttum í Hraunbæinn árið 1997 kom maðurinn í næsta húsi til mín og sagðist vera Kiwanismaður í Kiwanisklúbbnum Jörfa. Hann kvaðst hafa þekkt föður minn vel og sömuleiðis bróður minn. Það leið því ekki á löngu að ég var kominn í klúbbinn og er óhætt að segja að það hafi verið eitt af gæfusporum í lífi mínu.

Bragi var Kiwanismaður af öllu hjarta og var fyrirmynd félagsmanna í Jörfa, enda gegndi hann öllum störfum innan Kiwanishreyfingarinnar hér á landi og hafði gott lag á því að leysa öll vandamál. Bragi var einstakur félagi og það litu allir upp til hans, ekki aðeins Jörfamenn heldur einnig aðrir sem umgengust hann.

Margar veiðiferðir fórum við Bragi á æskuslóðir hans norður á Hrauntanga og til Jóns bróður í Höfðabrekku þar sem við heimsóttum gamla sveitunga og skyldfólk hans. Það var eftirtektarvert hvað hann fékk góðar móttökur alls staðar, þarna var höfðinginn Bragi kominn í heimsókn.

Bragi var einstakur vinur okkar og við munum ævinlega minnast hans í hjörtum okkar.

Samúðarkveðjur til Garðars, Sigrúnar Fríðu og Braga Þórs.

Jón og Björk í Hraunbæ.

Í dag kveðjum við kæran vin okkar, Braga Stefánsson. Minningarnar eru margar og góðar og spanna nærri fimm áratugi. Upphaf vináttu okkar félaganna var þegar Kiwanisumdæmið á Íslandi bauð til kynningarfundar þar sem markmiðið var að stofna Kiwanisklúbb í Árbæjarhverfi. Þetta var árið 1974 og þar mættum við Bragi og sýndum málinu mikinn áhuga ásamt fjölmörgum öðrum. Við vorum fengnir til forystu við stofnun klúbbsins og fengum mikinn stuðning frá reyndum og dugmiklum Kiwanisfélögum. Við tókum hlutverk okkar alvarlega og ætluðum að sanna að sá klúbbur sem við tækjum þátt í að stofna skyldi byggður á traustum grunni. Þetta tókst, Kiwanisklúbburinn Jörfi var vígður 28. maí 1975 og starfar enn af miklum myndarskap.

Fjölskyldur okkar Braga bundust vinaböndum og minningarnar eru margar og góðar. Við minnumst spilakvöldanna með þeim hjónum Mundu og Braga, við minnumst gleðistundanna í báðum fjölskyldum, afmæla, ferminga og skólaútskrifta og einnig þeirra stunda þegar sorgin knúði dyra. Við fráfall elsku Mundu sinnar árið 2010 varð Bragi ekki samur, missirinn var honum mikill.

Við minnumst allra ferðanna á Kiwanisþingin hér innanlands og einnig ferðanna á Evrópuþing og heimsþing. Börnin okkar voru gjarnan með í sumum ferðum og þeirra vinátta var falleg og fölskvalaus. Allar þessar minningar og einnig þær sem ósagðar eru geymum við í minningabankanum sem alltaf er opinn.

Bragi var einstaklega greiðvikinn maður og vinnusamur. Ótal margir leituðu til hans með bíla í viðgerð og fengu úrlausn sinna mála. Ef sá gállinn var á honum átti hann til að finna druslunni allt til foráttu og sagði án þess að hika að hræinu ætti að farga hið snarasta. Japanskir bílar voru til að byrja með ekki neinir bílar í samanburði við þá amerísku. Ef til vill verður vegurinn ekinn inn í Sumarlandið á gljáfægðum amerískum kagga.

Kært ertu kvaddur, gamli góði vin.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Sigrúnu, Garðari, Fríðu, Braga Þór og fjölskyldum.

Ásta og Ævar.

Einn af stofnendum og máttarstólpum Kiwanisklúbbsins Jörfa, Bragi Stefánsson, lést föstudaginn 1. okt. sl. Hann var virkur í Kiwanishreyfingunni allt frá stofnun Jörfa 1975 eða 46 ár. Hann gegndi fjölmörgum ábyrgðar- og stjórnarstörfum bæði í Kiwanisumdæminu Ísland-Færeyjar og enn frekar í klúbbnum Jörfa þar sem hann var einn af hornsteinum starfsins alla tíð og gegndi þar fjölmörgum embættum. Hann var ekki síður áhrifaríkur og mótandi sem einn af félögunum. Glaður og jákvæður en hreinskiptinn og sagði sína meiningu umbúðalaust en var um leið uppbyggjandi. Félagsmálamaður af bestu gerð sem lagði sig fram við verkefnin sem klúbburinn tók sér fyrir hendur. Þau miðuðust einkum við að aðstoða þá sem bágast standa, börn og ungmenni í erfiðleikum, hreyfihamlaða og geðsjúka. Að slíkum verkefnum vann Bragi af lífi og sál.

Þótt heilsan væri farin að gefa sig síðustu árin mætti hann vel á fundi og gerði ævinlega samveruna betri. Hann skilur eftir varanleg áhrif á okkur félagana og góðar minningar sem ég vil þakka fyrir hönd okkar allra í Kiwanis-klúbbnum Jörfa.

Fjölskyldu hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Haraldur Finnsson,

forseti Kiwanisklúbbsins Jörfa.

Þeir voru fáir traustari en Bragi Stefánsson félagarnir í Kiwanishreyfingunni. Nú er hann fallinn frá og mikill missir að honum. Heilsuleysi hamlaði honum nokkuð síðustu ár en andinn var alltaf til staðar.

Hann var einn af stofnfélögum í Kiwanisklúbbnum Jörfa sem stofnaður var árið 1975 í Árbæjarhverfinu. Alla tíð var hann dugmikill í starfi klúbbsins.

Hann var kallaður til starfa í umdæmisstjórn og gegndi starfi Umdæmisstjóra 1988-1989. Ég átti því láni að fagna að starfa með honum á vettvangi umdæmisstjórnar. Hann var kröfuharður og þoldi illa að menn gengju ekki fram af einurð því hann vildi ná árangri í starfi hreyfingarinnar. En jafnframt var hann góður félagi og þau hjón Guðmunda og Bragi skemmtileg, kát og glöð á góðum stundum. Blessuð sé hún minning þeirra beggja. Eftir að starfi lauk í umdæmisstjórn tókum við okkur saman níu félagar sem mikið höfðu starfað saman í umdæmisstjórn og stofnuðum lítinn félagsskap sem hafði þann tilgang að hittast einu sinni í mánuði frá hausti fram á vor og fara saman í gufubað en einnig að eiga notalega stund á eftir og njóta saman matar. Fljótlega tókum við upp á því að fara saman ásamt eiginkonum okkar í leikhús og tónleika og hittast yfir góðri máltíð, en líka að fara saman í stuttar ferðir. Við kölluðum okkur Svitabræður. Eiginkonur okkar stofnuðu fljótlega félagsskap sem heitir Perlur. Hittust þær einnig fyrsta laugardag í mánuði.

Braga var í mun að við héldum hópinn og þau Munda lögðu sig fram um að viðhalda skemmtilegum félagsskap og sannarlega tókst það. Bragi rak um árabil bifreiðaverkstæði og það voru margir Kiwanisfélagar sem áttu erindi við hann. Alltaf tók hann mönnum af alúð og vinsemd og það var fátt sem hann gat ekki lagað og menn óku betri bílum út af verkstæðinu. Ég hef grun um að ekki hafi alltaf verið rukkað fullt gjald því Bragi var ákaflega bóngóður. Margir Kiwanisfélaga renndu við á verkstæðinu til að spjalla um kiwanismál og stundum gleymdu menn sér og höfðu langan tíma af honum, en alltaf var hann til í gott spjall. Það er sannarlega eftirsjá að slíkum öðlingum og þeim fer sannarlega fækkandi.

Svitabræður og Perlur þakka að leiðarlokum. Bragi Stefánsson, hafðu heila þökk fyrir góða og innihaldsríka vináttu og margar góðar og notalegar stundir. Við sendum fjölskyldunni hugheilar samúðarkveðjur.

Ástbjörn Egilsson.