Forysta Logi Einarsson ítrekar að hann sé formaður Samfylkingarinnar í augnablikinu, en minnir á að landsfundur verði haldinn haustið 2022.
Forysta Logi Einarsson ítrekar að hann sé formaður Samfylkingarinnar í augnablikinu, en minnir á að landsfundur verði haldinn haustið 2022. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Andrés Magnússon andres@mbl.is Úrslit alþingiskosninga voru engan veginn í takti við væntingar Samfylkingarfólks, sem fram á síðustu stundu taldi stefna í ágætan árangur. Annað kom í ljós, flokkurinn fékk innan við 10% atkvæða og aðeins sex menn kjörna.

Fréttaskýring

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Úrslit alþingiskosninga voru engan veginn í takti við væntingar Samfylkingarfólks, sem fram á síðustu stundu taldi stefna í ágætan árangur. Annað kom í ljós, flokkurinn fékk innan við 10% atkvæða og aðeins sex menn kjörna.

Minnugir þess að Oddný G. Harðardóttir sagði af sér formennsku í flokknum innan við tveimur dögum eftir útreiðina í þingkosningunum 2016, þegar flokkurinn var hársbreidd frá að falla af þingi, hafa ýmsir spurt hvað verði um Loga Einarsson. Hann tók við af Oddnýju á sínum tíma og þá var upphaflega rætt um að hann yrði formaður tímabundið.

Logi ekki á förum strax

Logi segir í samtali við Morgunblaðið að slíkar vangaveltur séu ótímabærar. „Ég er formaður í augnablikinu og það er landsfundur á næsta ári.“

Eftir sem áður velta margir fyrir sér hverjir komi til greina sem arftakar hans. Sagt er að Logi hallist helst að Kristrúnu Frostadóttur, en of snemmt sé að leggja drög að því. Hún þurfi að kynna sig betur innan flokksins og sýna það að þingstörf í stjórnarandstöðu eigi við hana.

Fleiri eru nefndir til, svo sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, en á því eru ýmsir meinbugir. Fyrir það fyrsta væri óhepplegt að hafa formanninn utan þings, en síðan er alls óvíst að samstarfsflokkar í borgarstjórnarmeirihlutanum myndu fella sig við það.

Samfylkingarfólk, sem Morgunblaðið ræddi við, segir að forystumálin þurfi að leysa, en þau séu ekki brýn. Sveitarstjórnarkosningar séu næsta verkefni og þangað til geti hitt beðið.

Naflaskoðun framundan

Aftur á móti verði ekki hjá því komist að leggjast í naflaskoðun um hvað hafi farið úrskeiðis í nýliðnum kosningum.

Á því voru ýmsar og ólíkar skýringar nefndar, nokkuð eftir því í hvaða fylkingu menn skipast og einnig eftir kjördæmum. Ekki síður gátu menn nefnt helstu syndahafrana, bæði frambjóðendur og helstu trúnaðarmenn flokksins, aftur eftir því hvar heimildarmennirnir sjálfir standa.

Í því samhengi var mikið rætt um flokksskrifstofuna, en rætt er um að ráða þurfi fastan framkvæmdastjóra. Þar er oftast talað um Kristján Guy Burgess, en einnig Ólaf Kjaran Árnason. Sömuleiðis bentu margir fingri á framkvæmdastjórn flokksins, ekki síst formanninn Kjartan Valgarðsson, sem mjög skiptar skoðanir eru á.

Óljóst inntak og erindi

Burtséð frá því, hverjir veljast til forystu hjá flokknum, er mikið talað um að nú þurfi að nota tímann vel til innri íhugunar um inntak og erindi Samfylkingarinnar. Hún sé ljóslega ekki lengur sú breiðfylking sem að var stefnt í upphafi og nái ekki til fjöldans. Flokkurinn hafi leitað lengra til vinstri undanfarin ár, þar sem samkeppnin sé hörð, en fyrir vikið hafi sósíaldemókratískt miðjufylgi yfirgefið flokkinn, sem sé langtímavandi sem ekki verði leystur með reglulegum hreinsunum og öðrum skyndilausnum. Flokkurinn sé ekki klofinn, heldur tvístraður, viti ekki vel fyrir hvað hann standi og það hafi kjósendur fundið.

„Kratismi gengur út á málamiðlanir og hófsemi,“ sagði einn viðmælandinn. „Pólitík útilokunar og afarkosta fer ekki vel saman við það.“

Hrynur úr turninum

Samfylkingin varð til um aldamót við samruna Alþýðuflokks, Þjóðvaka, Kvennalista og Alþýðubandalags. Hún átti að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokk, ná meira en 30% fylgi og vera annar „tveggja turna“ íslenskra stjórnmála. Það gekk bærilega í fyrstu hjá Össuri Skarphéðinssyni, en síður eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tók við. Eftir hrun jók Jóhanna Sigurðardóttir fylgið aftur um skamma hríð, en Árni Páll Árnason náði að hækka það á ný fram að misheppnuðu mótframboði. Þá tók Oddný G. Harðardóttir örstutt við en galt afhroð í kosningum 2016. Þá varð Logi Einarsson formaður og rétti flokkinn talsvert við, en frá 2018 hefur leiðin legið niður á við.