Gamli Garður Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, flutti ávarp.
Gamli Garður Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, flutti ávarp. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ný viðbygging Gamla Garðs, elsta stúdentagarðs Félagsstofnunar stúdenta, var vígð í gær. Vígsluathöfnin fór fram í nýjum samkomusal Gamla Garðs, sem hefur fengið heitið Stúdentabúð.

Ný viðbygging Gamla Garðs, elsta stúdentagarðs Félagsstofnunar stúdenta, var vígð í gær. Vígsluathöfnin fór fram í nýjum samkomusal Gamla Garðs, sem hefur fengið heitið Stúdentabúð.

Þar afhjúpuðu Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs HÍ, og Björn Bjarnason, forseti SHÍ þegar Félagsstofnun stúdenta var stofnuð árið 1968, listaverkið „Góða nótt ferðalangur“ eftir Helga Þórsson myndlistarmann, útfært af Rúnu Kristinsdóttur, sem tileinkað er hagsmunabaráttu stúdenta í 100 ár.

Auk þeirra Isabel og Björns fluttu Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri FS, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson háskólarektor ávörp.

Nýja húsið er samsett úr tveimur álmum með tengigangi en þar eru 69 einstaklingsherbergi með sér baðherbergi og deila íbúar með sér sameiginlegri aðstöðu, eldhúsum, setustofum, samkomusal o.fl. Ístak sá um framkvæmd verksins.

Gamli Garður reis upphaflega árið 1934, en hann var teiknaður af Sigurði Guðmundssyni húsameistara ríkisins. Viðbyggingin nú var hönnuð af Andrúm arkitektum, og var lögð áhersla á að byggingin félli vel að eldra húsinu, öðrum nærliggjandi byggingum við Hringbraut og Aðalbyggingu Háskóla Íslands.