Björn Garðars Daníelsson fæddist 26. ágúst árið 1932 í Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal. Hann lést 27. september 2021. Hann var sonur hjónanna Önnu Jóhannsdóttur og Daníels Júlíussonar. Systkini Björns, Steinunn, Jóhanna María, Júlíus Jón og Jóhann Kristinn, eru látin.

Björn ólst upp í Syðra-Garðshorni. Hann gekk í barnaskólann á Grund í Svarfaðardal og var síðan á Héraðsskólanum í Reykholti. Íþróttakennaraprófi lauk hann á Laugarvatni og var síðan á lýðháskóla í Svíþjóð. Björn kenndi íþróttir í nokkrum skólum í Reykjavík en var síðan kennari við Húsabakkaskóla í Svarfaðardal frá 1962 til 2000 er hann lét af störfum.

Björn var fulltrúi kennara í fræðsluráði Norðurlands eystra og hafði átt sæti í skólanefnd Svarfaðardals. Lengi var hann endurskoðandi Svarfaðardalshrepps og í kjörstjórnum hreppsins og Dalvíkurbyggðar. Þrjá áratugi var Björn bókavörður Bókasafns Svarfdæla og lengi formaður þess. Hann hafði gegnt formennsku í Framsóknarfélagi Svarfdæla og verið forseti Kiwanisklúbbins Hrólfs á Dalvík.

Björn ólst upp við mikinn söng og söngurinn fylgdi honum upp frá því. Ungur söng hann með kirkjukór í sveitinni og hann hafði verið félagi í Fóstbræðrum og Karlakór Dalvíkur. Oft söng hann með kórum við útfarir og aðrar kirkjulegar athafnir í heimabyggð sinni.

Eiginkona Björns er Fjóla Guðmundsdóttir frá Kvígindisfelli í Tálknafirði. Dætur þeirra eru Bryndís, eiginmaður hennar er Svavar Alfreð Jónsson, Hrafnhildur, gift Þorsteini Hjaltasyni, og Sigríður Birna. Barnabörnin eru Björn Ingi, Sunna, Hildur Emelía, Hjalti, Hörður og Ísak. Hörður er nýlátinn. Langafabarn Björns er Þorsteinn Mikael.

Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju 15. október 2021 klukkan 13.

Þegar barnið hugsar til pabba síns er hann stór og kröftugur og getur allt. Þannig er mín bernskuminning um pabba. Þótt hann væri lágvaxinn og fíngerður fannst mér hann geta allt. Hann var sterki og duglegi pabbi minn sem ég fann öruggt skjól hjá. Hann gat brotið tvíbökur með annarri hendi og mulið út í kakósúpuna á meðan ég horfði á full aðdáunar. Ég man enn eftir glotti föðurbræðra minna þegar ég lýsti því yfir hversu sterkur pabbi minn væri.

Alltaf fylgdi gleði og kraftur honum pabba mínum. Blístrið hans ómaði um húsið, hann söng alltaf með okkur í bílnum eða tók miklar hetjuaríur enda var hann góður söngmaður. Ferðalög og útilegur um landið urðu að stórkostlegum sögu- og náttúruviðburðum. Hann hafði einstakt lag á að glæða áhuga okkar á Íslandssögunni og fáir voru fróðari um allt er tengdist henni. Á skemmtilegan og lifandi hátt tókst honum að gæða söguarfinn lífi og tengja hann við náttúruna og staði sem við heimsóttum. Hann var kennari af Guðs náð og hafði ástríðu fyrir því að miðla þekkingu sinni á mannkynssögunni, Íslendingasögunum og íslensku mannlífi. Þar var hann svo sannarlega á heimavelli og hreif okkur dætur sínar og nemendur sína með sér með skemmtilegum útúrdúrum og leikrænni tjáningu.

Pabbi fæddist á Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal og ólst þar upp í umhverfi menningar síðustu aldar þar sem mikið var um gestagang og söng. Þennan arf bar hann áfram til okkar dætra sinna. Hann var óspar á að kynna okkur náttúru Svarfaðardals og kenna okkur nöfn fallegu fjallatindanna sem einkenna dalinn. Það gerði hann með því að skipuleggja fjallgöngur og berjaferðir til að við gætum notið náttúrunnar með honum – og árlega var farið upp á Lómatjörn með viðkomu á helstu kennileitum leiðarinnar. Þrátt fyrir að ég og systur mínar værum stundum lítið spenntar fyrir þessari útivist innrætti hann okkur elsku á náttúrunni og áhuga á umhverfi okkar.

Pabbi átti gott líf, hann var vinmargur, honum fannst gaman að hitta fólk og vera með fólki og skildi eftir hjá mér svo margt sem ég get borið áfram til minna barna.

Þrátt fyrir erfið veikindi nú síðasta árið var húmorinn aldrei langt undan og ég er þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk að eiga hann sem pabba. Ég geymi minningu hans í hjarta mér.

Bryndís Björnsdóttir.

Elsku Bubbi frændi.

Hjartans þakkir fyrir allar ljúfu og góðu samverustundirnar sem munu ávallt lifa í minningunni.

Dánarfregn

drúpa menn höfði

fer haust um huga.

Horfinn er sjónum

hann sem var áður

virtur af vinum góðum.


Góðu dagsverki

Guði og mönnum

skilaðir þú með heiðri.

Vinamargur ætíð

og vinafastur

nafn þitt hjá niðjum geymist.


Sveitungar, vinir

og söngvabræður

kveðja þig klökkum huga.

Verður enn lengi

vandfyllt skarð

í kærum kunningjahópi.


Far svo í friði

frændi og vinur sæll

til ljóssins landa.

Letra ég hryggur

við leiði þitt þakkir

og kærleikskveðju.

(Halldór Jóhannesson)

Þín

Anna María og fjölskylda.

Jæja, þá er síðasta systkini mömmu farið yfir móðuna miklu. Hann Björn bróðir, eins og mamma sagði alltaf þegar hún minntist á hann, en við frændsystkinin kölluðum hann alltaf Bubba frænda. Ég man hvað mamma hélt alltaf mikið upp á litla bróður sinn, enda var hann yngstur þeirra systkina og mamma passaði hann alltaf þegar þau bjuggu á æskustöðvunum að Syðra-Garðshorni norður í Svarfaðardal.

Hún sagði mér oft frá því þegar hún var unglingsstúlka og var ein inni í bænum að passa Björn sem þá var tveggja ára þegar Dalvíkurskjálftinn reið yfir árið 1934. Hitt heimilisfólkið var úti á engjum að vinna. Er bæjarhúsið tók að hrynja yfir þau Björn, tók hún hann í fangið og skýldi þeim undir vegg. Þetta snarræði hennar mun hafa bjargað lífi þeirra beggja.

Þegar ég var ungur austur á Eskifirði hlakkaði ég alltaf til að fara með mömmu þegar hún fór norður til að heimsækja systkin sín þar og foreldra. Alltaf var tilhlökkun að heimsækja Björn og Fjólu á Húsabakka og skemmtilegu stelpurnar þeirra þær Bryndísi, Hrafnhildi og Sigríði Birnu sem eru á mínum aldri. Það var hreinasta ævintýri að koma til þeirra á heimavistarskólann að Húsabakka þegar þau bjuggu þar í kennaraíbúð, þar sem þau höfðu gert sér fallegt og notalegt heimili. Frelsið sem maður naut hjá þeim á svæðinu í kringum Húsabakka sem staðsettur er miðsvæðis í hinum fagra Svarfaðardal, skilur eftir dásamlegar minningar þar sem við frændsystkinin höfðum mikið athafnafrelsi og ótakmarkaðan tíma að okkur fannst. Og alltaf skein sólin þar, svona í minningunni. Björn var líka vinmargur og oft og tíðum fékk hann heimsóknir og var þá kátt á hjalla á Húsabakkanum, mikið spjallað, hlegið og jafnvel tekið lagið af svo bar undir og Bubbi spilaði á píanóið í stofunni hjá sér og söng hátt og snjallt svo að undir tók.

Það var alltaf gaman að heimsækja Björn og konu hans Fjólu, eða frú Fjólu, eins og hann kallaði hana stundum til hátíðarbrigða. Björn og Fjóla voru alltaf mjög samrýnd og voru einatt nefnd í sömu andrá. Björn var ákaflega hress og skemmtilegur, mjög glaðsinna, hrókur alls fagnaðar og var orðlagður fyrir fyndni og orðheppni og skemmtilegar frásagnir. Hann hafði gaman af að spjalla, var ræðinn mjög og kölluðu eldri bræður hans, þeir Júlíus og Jóhann, hann „Mælska Björn“ í góðlátlegu gríni, enda voru þeir líka orðlagðir húmoristar eins og Björn.

Björn var góður söngmaður og söng mikið, hátt og snjallt með sinni hljómfögru söngrödd, lengst af með Karlakór Dalvíkur. Hann var og ómissandi á öllum söngferðalögum karlakórsins, var orðlagður fyrir söngsnilli sína sem og skemmtilegheit. Björn ferðaðist vítt og breitt um landið með kórfélögum sínum og einnig til Norðurlandanna.

En nú kveð ég Björn eða Bubba frænda eins og ég kallaði hann alltaf og verður söknuður að þessum góða og einstaklega skemmtilega manni. Eftirlifandi eiginkonu hans, Fjólu og dætrum sem og fjölskyldum þeirra, votta ég og fjölskylda mín dýpstu samúð.

Örn Jónasson, Mosfellsbæ.

Mig langar að minnast Björns Daníelssonar kennara, eða Bubba eins og hann var alltaf kallaður, með nokkrum orðum. Bubbi var minn aðalkennari öll mín barnaskólaár í Húsabakka í Svarfaðardal, en þar kenndi hann um áratuga skeið. Þegar ég lít til baka sé ég hversu Bubbi reyndist mér einstaklega vel í glímunni við mínar veiku hliðar í náminu.

Mér gekk vel í öllu bóklegu, en ég er örvhent og í þá daga þurftu allir að skrifa með blekpenna. Í skrifbókinni minni var iðulega kám og blekklessur, því höndin á mér rakst í blautt blekið. Ég skammaðist mín mikið fyrir að geta ekki gert betur, en mér fannst Bubbi sýna mér mikið umburðarlyndi. Aldrei man ég eftir að hann gerði nokkra neikvæða athugsemd við skriftarbókina mína, heldur reyndi hann að benda mér á hvernig best væri að beita hendinni.

Eins var það í sundinu, þar sýndi Bubbi mér mikinn stuðning. Ég var vatnshrædd og óörugg með mig í sundi og árangurinn var eftir því. Bubbi hjálpaði mér og hvatti mig áfram, þannig að mér tókst að lokum komast í gegnum öll sundstigin.

Á Húsabakkaárum mínum vorum við krakkarnir mikið bæði á skíðum og skautum og kepptum í hvoru tveggja. Bubbi stýrði þessum keppnum og studdi okkur með ráðum og dáð. Honum tókst að skapa góða stemningu og hvatti alla til að taka þátt. Þar sveif alltaf skemmtilegur léttleiki yfir vötnum, fannst mér og mikið lagt upp úr leikgleðinni.

Ég var ekki góð á skíðum. Skíðaskórnir mínir voru nokkrum númerum of stórir á mig og það hjálpaði ekki til, en ég tók alltaf þátt. Þegar við vorum að keppa í svigi þá höfðum við Bubbi með okkur alveg sérstakt samkomulag um að ég færi síðust í brautina, því ég laskaði hana yfirleitt á leiðinni niður. Við Bubbi gerðum góðlátlegt grín að öllu saman og ég skemmti mér.

Það gekk bókstaflega brúsæði á árunum mínum í Húsabakkaskóla. Við spiluðum allar lausar stundir hvar sem við fundum stað, þar á meðal inni í skólastofunum. Eins og þeir vita sem þekkja til þessarar spilamennsku þá gátu orðið ryskingar og skólabækurnar fengu stundum að finna fyrir því. Þá var Bubbi ótrúlega umburðarlyndur og við fundum að hann skildi vel þessa spilaþrá okkar, enda annálaður brússpilari sjálfur.

Í minningunni voru alltaf tvær samliggjandi kennslustundir í teikningu eftir hádegi á fimmtudögum í Húsabakka, einmitt þegar óskalagaþáttur sjómanna var í útvarpinu. Ég átti lítið útvarp og kom það iðulega í minn hlut að biðja Bubba um að fá að hafa útvarpið í gangi í þessum tímum. Ég man aldrei eftir að Bubbi hafi sagt nei við okkur.

Á síðustu árunum mínum í Húsabakka vorum við vinkonurnar stundum að passa dætur Bubba og Fjólu, þær Bryndísi, Hrafnhildi og Sigríði Birnu, sem þá voru á leikskólaaldri. Þetta fannst mér mikil upphefð og man ekki eftir öðru en þær systur hafi alltaf verið einstaklega ljúfar og góðar. Kæra Fjóla, Bryndís, Hrafnhildur og Sigríður Birna, ég votta ykkur og fjölskyldum ykkar mínar innlegustu samúðarkveðjur.

Hulda Steingrímsdóttir.

Eftir að við fluttum í Tjarnargarðshorn árið 2004 tókst mikil og góð vinátta með okkur og Birni og Fjólu sem bjuggu aðeins neðar í Laugahlíðinni í Svarfaðardal, dalnum hans Bubba eins og Björn var gjarnan kallaður. Við höfðum reyndar þekkt þau og vitað af þeim miklu lengur. Jóhann var í sveit í Syðra-Garðshorni, æskuheimili Björns, og móðir mín hafði kynnst þeim Garðshornsbræðrum þegar hún flutti ung kona til Dalvíkur og talaði þannig um þá að mér fannst ég hafa þekkt þá jafnlengi og hún. Leiðir okkar sköruðust líka um samkomur hjá Jóhanni Dan. bróður Björns og svo auðvitað í hinu sameiginlega félagslífi Húsabakkaskóla og Dalvíkurskóla þaðan sem minnisstæðast er þegar þeir Birnir á Húsabakka, The Singing Bears, tróðu upp. Það er ógleymanlegt.

En þarna voru þau orðin okkar næstu nágrannar. Og fljótlega komst það á að ef heldur mikið hafði verið tekið frá til dagsins í Tjarnargarðshorni var hóað í Björn og Fjólu, sem stauluðust upp hólinn, eins og Björn orðaði það, og jafn oft trítluðum við tindilfætt niður brekkuna til að njóta veitinga Fjólu og félagsskapar þeirra hjóna, sem jafnan einkenndist af gleði, jákvæðni, sögum og vísum. Einnig voru þau hjón mjög áhugasöm um pólitík og höfðu gaman af því að pæla í því sem gerðist á þeim vettvangi. En umfram allt nutum við umhyggju þeirra og vináttu. Eftir að við fluttum niður á Dalvík varð lengra á milli samfunda, en engin samkoma á heimili okkar í Görðum varð veisla fyrr en þau hjón voru mætt og sest í sín sæti við gluggann. „Það er gamli vaninn sagði Björn og þaðan nutum við frásagna hans, sagna sem við vildum heyra aftur og aftur því frásagnarsnilldin var slík að hver saga var alltaf sem ný. Og svo var sungið. Ef jólin voru í nánd gátu það verið hátíðarsöngvar séra Bjarna, síðan álfa- og áramótasöngvar eða að karlaraddir æstu sig upp í karlakórasöng. Alls staðar var Björn gjaldgengur og hrókur alls fagnaðar.

Síðustu misseri hafa verið erfið. Einangrun og veikindi Björns hafa sett sinn svip á samskiptin. Við áttum þó yndislega samveru á veröndinni við nýju íbúðina þeirra á Akureyri nú í haust, samveru sem við erum þakklát fyrir að hafa fengið að njóta með okkar góðu vinum, þar sem allir voru glaðir og sólin skein.

Við munum áfram eiga góðar stundir með Fjólu, bæði á nýja heimilinu og á ýmsum samkomum í vinahópnum. Og Björn mun lifa áfram með okkur. Við munum rifja upp skemmtilegu augnablikin, sögurnar og sönginn og þannig halda minningu hans á lofti, minningu um góðan mann sem við vildum öll eiga að vini og erum þakklát fyrir að hafa fengið að verða samferða.

Við sendum Fjólu og öðrum ástvinum Björns okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Svanfríður og Jóhann.

Bubbi var vinur minn. Ég man þegar ég sá hann fyrst, sumarið 1982. Hann var jafn gamall pabba mínum og ég var nýútskrifaður kennari. Ég kom í Svarfaðardal til að líta á verðandi vinnustað minn, Húsabakkaskóla. Fyrir framan skólahúsið var maður að dytta að bátnum sínum. Það var Bubbi – og ekki er ólíklegt að kisan Lurfa hafi verið í námunda við hann. Síðar var oft minnst á „túnfiskveiðar“ Bubba, þegar skondið þótti að sjá bát á túni frammi í sveit.

Á haustdögum 1982 hófst skemmtileg og gefandi samvinna okkar við skólann. Bubbi og Fjóla bjuggu á hæðinni undir heimavist eldri nemenda. Oft hafa þau þurft að taka á þolinmæðinni þegar hlaupið var um ganginn uppi, hurðum skellt og hávaðinn fór aðeins yfir eðlileg mörk. En við vorum einstaklega heppin með krakkahópinn okkar og kennari á heimavistarvakt gat yfirleitt haft taumhald á liðinu eða sent það út í fótbolta til að losa umframorku.

Krökkunum fannst afar vænt um Bubba, sem var góður kennari með mikla frásagnargáfu. Hann sagði frá afrekum fornaldarkappa með leikrænum tilþrifum, auk ýmissa sagna af þeim himnafeðgum. Hann var drátthagur, kenndi teikningu og átti mikið myndasafn í fórum sínum, sem krökkunum fannst gaman að spreyta sig á að teikna eftir. Hann kenndi líka íþróttir og sund í Sundskála Svarfdæla, enda alltaf léttur á sér, fimur og sprækur og íþróttakennari í grunninn.

Bubbi var mikill gleðimaður. Ég minnist óteljandi stunda við söng, brússpil og bókaleiki. Einu sinni var ákefð hans svo mikil í bókaleiknum að hann braut festingar á rúmbotni í einu heimavistarherbergjanna (eða þannig er það í minningu minni), enda þátttakendur leiksins margir miklir keppnismenn, svo hart var barist til sigurs í hverjum leik.

Í Bakkagerði bjó frændi og vinur Bubba og þangað fór stundum hópur glaðbeittra karla til að draga aðeins fyrir strá, spila, hlæja og og yrkja skemmtivísur um menn og atburði líðandi stundar. Þessa texta sungu þeir svo af miklum þrótti og gleði og lifa margir þeirra enn. Oft barst leikurinn út á tún, þar sem söngurinn „Fram, fram fylking“ ómaði skyndilega í vornóttinni frá þessum glaðværa hópi. Þarna var Bubbi hrókur alls fagnaðar og lék svo gjarnan samkomurnar síðar, ef mikið fjör hafði verið, – gjarnan með formálanum „... og nú dettur mér í hug smásaga ...“

Síðasta ár fór heilsu Bubba að hraka. Hugurinn dvaldi þá oft með horfnum bændum og vinum í dalnum. Hann gladdist mjög þegar Siggi bauð honum í bílferðir um sveitina og í sumar fóru þeir fram í gangnamannakofann Stekkjarhús. Þá sagði hann frá gömlum tíma, minntist foreldra sinna og samferðamanna. Bubbi fagnaði alltaf heimsóknum vina og naut þess að spjalla yfir kaffibolla. Hann fylgdist með ferðum Sigga um Laugahlíðarveginn og þeir áttu góðar samverustundir í eldhúsinu hjá Fjólu, allt þar til kraftar þrutu nú í sumarlok.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar, elsku Fjóla, Bryndís, Hrafnhildur, Systa og fjölskyldur.

Takk fyrir góðar stundir og ljúfar minningar, kæri vinur.

„Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.“

Helga Hauksdóttir.