Ráðstefnugestir Um 1.300 manns frá yfir 50 löndum sækja ráðstefnu Arctic Circle, sem hófst í Hörpu í gær.
Ráðstefnugestir Um 1.300 manns frá yfir 50 löndum sækja ráðstefnu Arctic Circle, sem hófst í Hörpu í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Oddur Þórðarson Gunnlaugur Snær Ólafsson Inga Þóra Pálsdóttir Fullt var út úr dyrum er setningarathöfn Arctic Circle-ráðstefnunnar hófst klukkan eitt í Hörpu í gær. Um 1.

Oddur Þórðarson

Gunnlaugur Snær Ólafsson

Inga Þóra Pálsdóttir

Fullt var út úr dyrum er setningarathöfn Arctic Circle-ráðstefnunnar hófst klukkan eitt í Hörpu í gær. Um 1.300 stjórnmálamenn, sérfræðingar og vísindamenn, embættismenn, fulltrúar frumbyggja og fólk úr viðskiptalífinu frá yfir 50 löndum sækja ráðstefnuna að þessu sinni sem lýkur á laugardagskvöld.

Létt var yfir Ólafi Ragnari Grímssyni, formanni stjórnar Arctic Circle, sem hóf ræðu sína á: „Gott fólk, okkur tókst þetta.“ Uppskar hann lófatak viðstaddra enda kom kórónuveirufaraldurinn í veg fyrir að ráðstefnan í fyrra færi fram auk þess sem fjöldi málþinga undir merkjum hennar fór aðeins fram í gegnum fjarskiptabúnað.

Hnattræn hamfarahlýnun er mannanna verk og þess vegna hvílir það á mannkyninu að bregðast við og snúa þróuninni jörðinni í vil. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í opnunarávarpi sínu. Katrín sagði að vísindamenn væru ómyrkir í máli þegar þeir segðu að hamfarahlýnun væri staðreynd. Kvaðst hún telja mikilvægt að eiga samtal um málefni norðurslóða, í stað þess að fara fram með hernaðarbrölti og stríðsrekstri. Því fagnaði hún því að ráðstefnan færi fram í dag.

„Er von til framtíðar?“ spurði Katrín í ræðu sinni. „Menn eru ábyrgir fyrir stöðunni og menn geta lagað hana. Ég er viss um að vísindin geti breytt stöðunni,“ sagði Katrín.

Vill samning við Íslendinga

Það vakti töluverða athygli fundargesta Arctic Circle er Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður Alaska-ríkis á Bandaríkjaþingi, lýsti því yfir á málþingi um nýja stefnu Bandaríkjanna á norðurslóðum að full ástæða væri til að brýna fyrir ríkisstjórn Joe Bidens, forseta Bandaríkjanna, mikilvægi fríverslunarsamnings Bandaríkjanna við Ísland. Þá sagði hún jafnframt að vakin hefði verið athygli Biden-stjórnarinnar á þessu.

Murkowski sagði áhuga Bandaríkjanna á norðurslóðum hafa vaxið mikið á undanförnum árum og sú þróun muni halda áfram á komandi árum óháð því hver sitji í Hvíta húsinu. „Áhugi Bandaríkjanna á norðurslóðum hefur breyst algerlega frá því að við hófum þessa vegferð,“ sagði hún og vísaði til upphafs Arctic Circle-ráðstefnunnar, en Murkowski hefur sótt hana frá upphafi.

„Fæstir áttuðu sig á að Bandaríkin eru norðurslóðaríki og á það við embættismenn, stjórnmálamenn og almenning,“ sagði Murkowksi. Sú staða væri nú breytt. Það sæist bersýnilega í ráðstöfun fjármagns til málaflokksins og því, að komið hefði verið upp sérstakri skrifstofu innan bandarísku utanríkisþjónustunnar um málefni norðurslóða, stýrihóp í Hvíta húsinu og að stofnaðir hefðu verið rannsóknasjóðir. Jafnframt hefði verið fjárfest í smíði ísbrjóta og ræðismannaskrifstofa opnuð í Nuuk á Grænlandi.

Gera kröfur til Kína

Þegar rætt var um aðkomu Kínverja að málefnum norðurslóða sagði Jim Dehart, umsjónarmaður norðurslóðamála hjá banadaríska utanríkisráðuneytinu, að „Kína sýnir vilja til auka viðveru sína með tilliti til öryggismála. Frá okkar sjónarhóli er það hlutverk ríkja á norðurslóðum að stýra svæðinu. [...] Við leggjumst ekki gegn öllum fjárfestingum frá Kína, en förum fram á að gerðar séu strangar kröfur og farið eftir alþjóðalögum.“

Yfirlýsingin skipti máli

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kveðst ánægður með hugmyndir Lisu Murkowski öldungadeildarþingmanns um að Bandaríkin ættu að gera fríverslunarsamning við Ísland.

„Lisa er auðvitað mikill Íslandsvinur og einn af þeim öldungadeildarþingmönnum sem við höfum rætt þetta mikið við. Við höfum fengið nokkuð stöðugar fréttir af því að Lisa, og fleiri öldungadeildarþingmenn, séu að ýta á það að gerður verði fríverslunarsamningur við Ísland. Þetta skiptir verulega miklu máli og er mikil breyting frá því sem var,“ sagði Guðlaugur við mbl.is í gær.