Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Málum sem komið hafa til kasta starfsfólks sem veitir þjónustu í Barnahúsi hefur fjölgað mikið á undanförnum mánuðum. Voru skýrslutökur fyrir dómi alls 213 á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs eða 43% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Þær voru 149 á sama tímabili í fyrra en til samanburðar voru þær 88 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Málum sem komið hafa til kasta starfsfólks sem veitir þjónustu í Barnahúsi hefur fjölgað mikið á undanförnum mánuðum. Voru skýrslutökur fyrir dómi alls 213 á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs eða 43% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Þær voru 149 á sama tímabili í fyrra en til samanburðar voru þær 88 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019.

Tvöfalt fleiri í ár

„Þá fjölgun sem má sjá á fyrstu níu mánuðum ársins 2021, miðað við sama tímabil áranna á undan, má helst rekja til fjölgunar skýrslutaka vegna kynferðislegs ofbeldis,“ segir í umfjöllun á vefsíðu Barnaverndarstofu, sem birt hefur skýrslu um fjölda mála á vegum stofunnar frá áramótum til loka september í ár.

Fram kemur að skýrslutökur í Barnahúsi vegna kynferðislegs ofbeldis eru tvöfalt fleiri í ár en á sama tímabili á seinasta ári. Er staðan sögð vera sú að nú, þegar tölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins eru teknar saman, komi í ljós að skýrslutökur vegna kynferðislegs ofbeldis voru samtals 133 á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs og þegar orðnar 15,6% fleiri en allt árið 2020.

Heildarfjöldi skýrslutaka frá áramótum til loka september vegna líkamlegs ofbeldis og heimilisofbeldis er orðinn svipaður og samanlagður fjöldi slíkra mála á árunum 2018 og 2019. Á seinasta ári voru líka óvenju margar skýrslutökur vegna líkamlegs og heimilisofbeldis. Voru skýrslutökur í Barnahúsi 27 á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, 76 á sama tímabili í fyrra og hefur svo fjölgað í 80 frá janúar til september í ár.

Flestar skýrslutökurnar í Barnahúsi á þessu ári vörðuðu kynferðislegt ofbeldi, eða 62,4% allra skýrslna sem teknar voru. „Þá voru skýrslutökur vegna kynferðisofbeldis 82,2% fleiri á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 samanborið við sama tímabili árið 2020. Skýrslutökur fyrstu níu mánuði ársins 2021 er vörðuðu líkamlegt og heimilisofbeldi voru 80, sem er svipaður fjöldi skýrslutaka og á sama tímabili 2020 en vert er að taka fram að árið 2020 voru óvenju margar skýrslutökur vegna líkamlegs ofbeldis, miðað við árin á undan,“ segir í skýrslunni.

Eru þegar orðnar 56,4% fleiri en yfir allt árið 2018

Þróunin hefur verið sú á undanförnum mánuðum að strax á fyrri helmingi þessa árs voru skýrslutökur vegna kynferðislegs ofbeldis orðnar fleiri en allt árið 2018, allt árið 2019 og nálgast það að vera jafn margar og allt árið 2020.

„Nú, þegar tölur fyrir fyrstu 9 mánuði ársins eru teknar saman, má sjá að skýrslutökur vegna kynferðislegs ofbeldis á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 eru 56,4% fleiri en allt árið 2018, 26,7% fleiri en allt árið 2019 og 15,6% fleiri en allt árið 2020,“ segir þar.