Sólheimajökull Breytingarnar eru stöðugar og hraðar og frá ári til árs sést mikill munur á umhverfinu hér.
Sólheimajökull Breytingarnar eru stöðugar og hraðar og frá ári til árs sést mikill munur á umhverfinu hér. — Ljósmynd/Elísabeth Lind Ingólfsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Sólheimajökull í Mýrdal hefur hopað um alls ellefu metra síðasta árið. Þetta kom í ljós nú í vikunni þegar nemendur í 7. og 8.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sólheimajökull í Mýrdal hefur hopað um alls ellefu metra síðasta árið. Þetta kom í ljós nú í vikunni þegar nemendur í 7. og 8. bekk Hvolsskóla á Hvolsvelli fóru á vettvang og mældu hop jökulsins, eins og hefð er fyrir í skólastarfinu að sé gert. „Þetta eru mjög lærdómsríkar ferðir og fyrir nemendur er áhugavert að sjá hvernig landið breytist stöðugt,“ segir Birna Sigurðardóttir skólastjóri í samtali við Morgunblaðið.

Útkoman er misjöfn milli ára

Síðastliðin ellefu ár hafa nemendur í 7. bekk Hvolsskóla farið árlega að Sólheimajökli. Mæld er fjarlægð jökulsporðs frá upplýsingaskiltinu sem fyrsti hópurinn setti niður árið 2010. Á þeim tíma voru 318 metrar frá skilti að sporði. Nú er fjarlægðin orðin 726 metrar og hopið því orðið 408 metrar, eins og GPS-mælingar sýna. Þetta er býsna mikið, en útkoman er þó annars æði misjöfn milli ára. Var 110 metrar milli 2017-2018 – samanber að frá 1931- 2010 hopaði jökullinn um 1.255 metra.

„Í fyrstu mælingaferð Hvolsskóla 2010 var jökulsporðurinn á þurru landi en nú er stórt lón þarna framan við. Því þarf að fara þetta á bát. Þar nutum við nú eins og undanfarin ár liðsinnis björgunarsveitarinnar Dagrenningar hér á Hvolsvelli,“ segir Birna skólastjóri.

Á síðasta ári var, meðal annars vegna sóttvarna, ekki mögulegt að fara í formlega mælingaferð að Sólheimajökli. Krakkar úr þáverandi 7. bekk, nú 8. bekk, fengu því að fara með 7. bekk líðandi skólaárs, enda er þetta leiðangur sem fæstir vilja missa af. Með í ferðinni nú var Jón Stefánsson, fyrrum kennari við Hvolsskóla. Hann var upphafsmaður þessa verkefnis, sem strax fékk mikla athygli. Nefna má að fyrir framtakið fékk Jón meðal annars Náttúruviðurkenningu Sigríðar í Brattholti frá umhverfisráðherra á Degi íslenskrar náttúru árið 2019. Einnig hefur tíðkast undanfarin ár að bjóða erlendum ráðamönnum sem koma í Íslandsheimsóknir að skoða aðstæður við Sólheimajökul, með tilliti til framvindu af völdum hlýnunar andrúmsloftsins.

Umhverfismennt í samhengi

„Mælingaferðin að Sólheimajökli var ævintýri krakkanna,“ segir Þórunn Óskarsdóttir, kennari við Hvolsskóla og umsjónarkona jöklaverkefnisins. „Með því að fara á vettvang eru mál sett í samhengi, til dæmis í umhverfismennt. Krakkarnir sem við fórum með voru mörg í unglingavinnunni í sumar og minntust rigningar og kulda. Gerðu sér því fyrirfram grein fyrir því að hop jökulsins í sumar yrði ef til vill minna nú en stundum áður, eins og kom á daginn.“