[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef þú brýtur kexið mætir grímuklæddur böðull og skýtur þig í hausinn. Líklega yrðu flestir dálítið stressaðir í slíkum leik!

Af listum

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Suðurkóresku sjónvarpsþættirnir Squid Game , eða Smokkfisksleikurinn , hafa slegið allsvakalega í gegn og virðast vera á allra vörum. Við kaffi- og sódavatnsvélar vinnustaða er spurt: „Ertu búin/n að sjá Squid Game?!“ Og hafi viðkomandi ekki horft er svarið jafnan að hann verði einfaldlega að horfa á þættina. Ekki vill maður vera sá eini í hópnum sem hefur ekki séð þá og er ekki samræðuhæfur, eða hvað? Um hvað á þá að tala í kaffipásunni?

Squid Game er klassískt dæmi um þætti sem öðlast vinsældir með slíkum hætti, með umtali. Allir eru að tala um þá og þannig fjölgar áhorfendum gríðarhratt. Netflix er líka þannig apparat að það sem er mest horft á fer á lista yfir það sem er vinsælast og þar sem maðurinn er forvitin skepna að eðlisfari verður hann hreinlega að vita um hvað málið snýst. Eða það held ég, alla vega. Að forvitnin hafi þarna fyrst og fremst ráðið för og umtalið.

Áhorf ekki vinsældir

Gagnrýnandi danska dagblaðsins Politiken gaf frat í þættina á dögunum, tvær stjörnur af sex mögulegum. Í fyrirsögn spurði rýnirinn hvort 80 milljónir manna gætu haft rangt fyrir sér og svaraði því játandi. Jú, víst gætu þær haft rangt fyrir sér. Átti hann þar við þann fjölda sem þá hafði horft á þættina. En gagnrýnandinn skýtur sig þarna í fótinn því þó svo allur þessi fjöldi hafi horft (og líklega enn fleiri þegar þessi pistill birtist) þýðir það ekki að sami fjöldi hafi hrifist af þáttunum. Þannig að spurningin er ekki hvort áhorfendur hafi rétt eða rangt fyrir sér því þeir horfðu bara á þættina og ekki víst að þeir hafi einu sinni klárað þá. Að mati hins danska er það greinilega ekki réttlætanlegt áhorf því þættirnir eru, að hans mati, slakir. Má þá benda á að í gamla daga horfðu allir á Dallas sem þýddi þó ekki að sápuóperan væri frábær. Það var bara ekkert annað í sjónvarpinu.

En hvað er annars málið með þessa þætti, kennda við smokkfisksleik. Í þeim segir af stórskuldugu fólki sem er platað í að taka þátt í svakalegum leikum á einhverri eyju sem enginn veit hver og hvar er. Þetta fólk hefur brennt allar brýr að baki sér og hefur ekki neinu að tapa. Leikarnir snúast um vinsæla barnaleiki og þátttakendur eru í upphafi 456 talsins. Strax í fyrsta leik, hinum kunnuglega „einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, Dimmalimm!“, er stór hluti þeirra skotinn til bana af leyniskyttum. Leikurinn gengur út á að leikmenn ganga að þeim sem „er hann“ á meðan hann snýr í þá baki og standa svo grafkyrrir þegar hann snýr sér við. Hreyfi maður sig er maður úr leik, eða í þessu tilfelli skotinn til bana.

Manndráp gerð spaugileg

Rennur þá upp fyrir leikmönnum í þættinum að leikið er upp á líf og dauða en þó til mikils að vinna. Risastór sparigrís fullur af peningum hangir yfir þeim og aðeins einn mun hljóta þá upphæð. Þátttakendur mega reyndar hætta keppni, vilji meirihlutinn það, en löngunin í peningana reynist óttanum yfirsterkari. Þessa grunnhugmynd þáttanna hafa margir litið á sem ádeilu á kapítalisma samtímans og er það eflaust rétt. En fyrst og fremst eru þættirnir þó frumleg hrollvekja og að mörgu leyti litríkir í framsetningu og stíl og leikararnir fara margir á kostum, ekki síst sá sem fer með hlutverk aðalpersónunnar, Lee Jung-jae. Leikur hans er oft svo kómískur að halda mætti að Squid Game væru gamanþættir. Sem þeir eru reyndar að ákveðnu leyti því þetta er allt saman svo ýkt og fáránlegt að varla er annað hægt en að hlæja. Það er heldur ekkert nýtt í sögu kvikmynda- og sjónvarpsþátta að hrollur, ofbeldi og manndráp séu gerð spaugileg. Reyndar bara ansi gamalt, ef út í það er farið.

Lífsbaráttan í hnotskurn?

Leikirnir sem þátttakendurnir/ fórnarlömbin þurfa að etja kappi í eru fjölbreyttir og þrungnir spennu í framsetningu leikstjóra og höfundar þáttanna. Einn felst t.d. í því að ná ákveðnu formi út úr kexköku með títuprjóni án þess að brjóta hana. Ef þú brýtur kexið mætir grímuklæddur böðull og skýtur þig í hausinn. Liklega yrðu flestir dálítið stressaðir í slíkum leik! Nú eða reiptog þar sem tapliðið hrapar til bana úr mikilli hæð. Þannig mætti áfram telja. Spennan við áhorf þáttanna felst nefnilega ekki síst og kannski einna helst í því hvaða furðuleikur verði næstur á dagskrá og hversu margir falli í valinn. Lifa þeir sterkustu af eða kannski þeir greindustu? Er þetta kannski lífsbaráttan í hnotskurn? Eða dæmisaga um heiminn, hvernig hinir ríku kúga þá fátæku og eiga lífsviðurværi sitt þeim að þakka um leið? Í Squid Game eru það nefnilega grímuklæddir auðmenn sem skemmta sér yfir eymd og örvæntingu öreiganna. Hafa einhverjir tengt þetta við stéttaskiptingu í Suður-Kóreu, hið mikla bil sem þar er milli ríkra og fátækra.

Keppni upp á líf og dauða er gamalt umfjöllunarefni í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, eins og flestir hljóta að þekkja. Sjá til dæmis Hungurleikana þar sem börn og unglingar féllu í valinn. Myndirnar og bækurnar nutu ógnarvinsælda á sínum tíma. Það sama má segja um Flugnahöfðingjann , Battle Royale , Running Man , The Maze Runner , Westworld ... listinn er langur yfir drápsleikjaþætti og -kvikmyndir og eitthvað dregur fólk greinilega að slíkum hryllingi. Hvers vegna ætli það sé?

Snjöll kynning

Ástæðurnar eru eflaust margar en í mínum huga er þetta fyrst og fremst afþreying sem ber ekki að taka of alvarlega. Auðvitað mætti kryfja þessa þætti í löngu máli og jafnvel skrifa langar ritgerðir um hvernig þeir endurspegli ástand heimsins og óréttlæti. En ég held að ástæðan fyrir því að allar þessar milljónir smelltu á „play“ á Netflix sé einfaldlega forvitnin. Kynningin á þáttunum hitti beint í mark, líkt og nafnið, og ekki sakaði heldur hið framandi tungumál sem talað er og snjöll stikla. Líklega áttu þó fáir von á því að þættirnir yrðu á allra vörum. En ástæðan fyrir því er frekar einföld, þetta eru bara helv... góðir þættir!