Gunnar Gunnarsson
Gunnar Gunnarsson
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Í gögnum sem Creditinfo hefur tekið saman sést að konur hafa aðeins verið ráðnar í 20% tilvika þar sem fyrirtæki eru að ráða til sín framkvæmdastjóra. Er það lægra hlutfall en í fyrra þegar það var 24%.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Í gögnum sem Creditinfo hefur tekið saman sést að konur hafa aðeins verið ráðnar í 20% tilvika þar sem fyrirtæki eru að ráða til sín framkvæmdastjóra. Er það lægra hlutfall en í fyrra þegar það var 24%. Hins vegar er hlutfallið núna í takti við stöðuna hin síðustu ár en árið 2020 skar sig úr.

Konur eru nú framkvæmdastjórar í 18% virkra fyrirtækja en þar er miðað við þau 6.000 fyrirtæki hér á landi sem eru í virkum rekstri og með tekjur yfir 30 milljónum króna síðustu þrjú ár. Bendir Creditinfo á að hlutur kvenna sé enn rýrari þegar rýnt er í 1.000 tekjuhæstu fyrirtækin. Þar er hlutdeild þeirra í stöðu framkvæmdastjóra aðeins 13%. Eins og greint var frá í Dagmálum í gær eru konur aðeins 10% í hópi framkvæmdastjóra framúrskarandi fyrirtækja.

„Við sjáum í gögnum okkar að almennt séð lækkar hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðu eftir því sem fyrirtæki eru stærri. Niðurstaðan er í takti við það sem við höfum séð undanfarin ár, en vissulega mikil vonbrigði að hægt hafi aftur á ráðningum kvenna í stöður framkvæmdastjóra. Fyrir liggur að með þessu áframhaldi koma markmið Jafnvægisvogar FKA, um að fyrir árið 2027 verði hlutfall kynjanna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja að minnsta kosti 40/60, ekki til með að nást. Til þess þyrfti stórátak í ráðningum kvenna í hóp stjórnenda,“ segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar Creditinfo á Íslandi.

Sé rýnt sérstaklega í tölur Creditinfo má sjá að í hópi 1.000 tekjuhæstu fyrirtækjanna er hlutfall kvenna meðal æðstu stjórnenda hæst í ferðaþjónustu og afþreyingu eða 20%. Hins vegar er það lægst meðal fyrirtækja sem skilgreind eru í framleiðslu. Þar er hlutfallið 8%.