Héðinn Unnsteinsson
Héðinn Unnsteinsson
Eftir Héðin Unnsteinsson: "Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði landsmanna og skilning á málaflokknum."

Nú á tímum er geðheilbrigði ofarlega á baugi í almennri umræðu. Fleiri og fleiri takast á við vanlíðan og geðrænar áskoranir í samfélagi sem tekur örum breytingum. Flestir sem til þekkja eru á þeirri skoðun að geðheilbrigðiskerfið hafi ekki þróast í takt við þær öru breytingar. Almennt eru breytingar forsenda allrar framþróunar. Það á einnig við um geðheilbrigðismál. Ýmislegt hefur verið rætt. Hugmyndir um breytta þjónustu, t.a.m. stóraukna samfélagsþjónustu, skjólshús, opnar deildir, viðsnúning á viðhorfum til geðrænna áskorana og geðheilsu eða hvernig við getum bætt tengsl innan samfélagsins, en góð tengsl milli fólks eru ein mikilvægasta undirstaða geðheilsu.

Á aðalfundi landssamtakanna Geðhjálpar hinn 8. maí 2021 var skipulagsskrá „Styrktarsjóðs geðheilbrigðis“ samþykkt. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði landsmanna og skilning á málaflokknum. Að stíga lítið skref í þá átt að gera fleirum kleift að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum. Þriggja manna stjórn stýrir sjóðnum og fimm manna fagráð fjallar um umsóknir. Sjóðurinn er sjálfstæður og er með öllu aðskilinn öðrum rekstri Geðhjálpar. Fyrsta úthlutun sjóðsins fór fram í gær en í ár bárust sjóðnum alls 54 umsóknir, í heild var sótt um styrki að upphæð 137 milljónir króna.

Fjármögnun og úthlutanir

Landssamtökin Geðhjálp eru stofnaðili sjóðsins og leggja til 100 m.kr. stofnframlag. Úthlutað var 10 m.kr. til 16 verkefna í ár og fjármagnaði Geðhjálp auk annarra velunnara þessa fyrstu úthlutun. Stjórn sjóðsins hefur óskað eftir því að ríkið gerist einnig stofnaðili með sama framlagi og Geðhjálp og að atvinnulífið leggi sjóðnum einnig sambærilegt lið. Geðhjálp mun að auki leggja sjóðnum til ákveðið hlutfall af rekstrarafgangi samtakanna miðað við rekstrarumhverfi hverju sinni. Ástæða er til að hvetja almenning og fyrirtæki sem nú þegar styðja við bakið á Geðhjálp að gera það áfram með fullvissu um að umframfjármagn renni ár hvert í sjóðinn.

Í þessari fyrstu úthlutun fá ólík og spennandi verkefni brautargengi. Þau snúa að geðrækt, starfsendurhæfingu, virkni, tæknilausnum og listum. Þessi verkefni verða vonandi til hagsbóta fyrir fanga, langveik börn, framhaldsskólanemendur, ungt fólk, aðstandendur og vonandi allan almenning.

Tilurð sjóðsins

Árið 1998 eignaðist Geðhjálp fasteignina Túngötu 7 í Reykjavík. Húsnæðið var gjöf til félagsins frá ríkissjóði en ríkið eignaðist húsið við lát Önnu E.Ó. Johnsen, ekkju Gísla Johnsens konsúls. Það var vilji Gísla og Önnu að húsnæðið yrði notað fyrir heilbrigðistengda starfsemi. Geðhjálp starfaði í húsinu næstu 15 árin en viðhaldsþörf var of mikil fyrir rekstur samtakanna og því var húsið selt árið 2013. Með því var hægt að greiða skuldir og kaupa annað ódýrara og hentugra húsnæði. Frá þeim tíma hefur Geðhjálp ávaxtað það sem eftir stóð af söluhagnaðinum með það fyrir augum að það kæmi að notum í góðum verkefnum geðheilbrigðismála. Þessar ráðstafanir gerðu Geðhjálp kleift að leggja til 100 milljóna króna stofnframlag í Styrktarsjóð geðheilbrigðis.

Fram á veginn

Í kjölfar Covid-faraldursins hefur geðheilbrigðismálum verið gefinn aukinn gaumur og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað ríki heims við að tíðni geðrænna úrlausnarefna geti aukist í kjölfar faraldursins. Því er mikilvægt að við bregðumst strax við og setjum aukinn þunga í málaflokkinn. Umfang geðheilbrigðismála fyrir Covid-faraldurinn var áætlað um 30% af heilbrigðiskerfinu – en ætluð fjármögnun nam aðeins um 12%.

Ég vil óska öllum styrkþegum hjartanlega til hamingju og um leið þakka félögum mínum í stjórn sjóðsins, þeim Guðrúnu Sigurjónsdóttur og Haraldi Flosa Tryggvasyni, og fagráði sjóðsins, þeim Helgu Sif Friðjónsdóttur formanni, Birni Hjálmarssyni, Hrannari Jónssyni, Huldu Dóru Styrmisdóttur og Svövu Arnardóttur, fyrir óeigingjarnt starf.

Með sjálfstæðum styrktarsjóði geðheilbrigðis vonast Geðhjálp til að hægt verði að stuðla að breytingum og nýsköpun sem eru grunnstoðir framþróunar innan geðheilbrigðismála. Erindið hefur aldrei verið brýnna.

Höfundur er formaður stjórnar Styrktarsjóðs geðheilbrigðis.