Heiðurslistamaður Elísabet Kristín Jökulsdóttir opnar hátíðina.
Heiðurslistamaður Elísabet Kristín Jökulsdóttir opnar hátíðina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Myndlistarhátíðin Sequences hefst í dag, föstudaginn 15. október, en lýkur þann 24. október. Hún er haldin í tíunda sinn og yfirskriftin að þessu sinni er „Kominn tími til“.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Myndlistarhátíðin Sequences hefst í dag, föstudaginn 15. október, en lýkur þann 24. október. Hún er haldin í tíunda sinn og yfirskriftin að þessu sinni er „Kominn tími til“. Sýningarstjórar hátíðarinnar í ár, Þóranna Björnsdóttir og Þráinn Hjálmarsson, segja samvinnu einkenna Sequences í ár. „Þetta eru listamenn sem eru mikið að skapa list sína í samvinnu við aðra og þessi verk teygja sig líka út í samfélagið,“ segir Þóranna og Þráinn bætir við: „Samtalið er svo tímamiðað. Það er þetta litla augnablik þar sem samtalið á sér stað. Það er þessi hugmynd um tímann sem varðveitist í þessu samtali og að útkoma verkanna varðveiti þetta augnablik. Hátíðin sprettur fram í þennan stutta tíma og hverfur svo.“

Sýningarstjórarnir vekja athygli á því að hátíðin teygir anga sína út á landsbyggðina í fyrsta sinn. „Við erum að virkja inn á hátíðina þessi listamannareknu rými sem hafa sprottið upp úti á landi,“ segir Þóranna og nefnir sem dæmi verk Gunnars Jónssonar sem sýnt verður í Gallerí Úthverfu á Ísafirði, sýningu Freyju Reynisdóttur á Akureyri og sýningu Önnu Margrétar Ólafsdóttur á Seyðisfirði. „Hátíðin teygir ansi vel úr sér, út á land og inn í samfélagið líka,“ segir Þráinn.

Sterk nærvera og góð orka

Elísabet Kristín Jökulsdóttir er heiðurslistamaður hátíðarinnar í ár og segir Þóranna valið hafa tengst þessari hugmynd um samtalið. „Hún smýgur inn í samfélagið, hvort sem það er í eigin persónu, með lifandi verki eða ritlist sinni. Hún örvar ímyndunaraflið á margan hátt með því sem hún leggur fram. Hún hefur gríðarlega sterka nærveru og góða orku.“

Elísabet mun opna hátíðina með gjörningnum Sköpunarsögur í Veröld, húsi Vigdísar, í dag kl. 17. Útilistaverkið Þetta líður hjá eftir þau Matthías Rúnar Sigurðsson verður til sýnis í Hveragerði. Þá frumsýnir Ásta Fanney Sigurðardóttir kvikmyndina Munnhola, obol ombra houp-là (a series of performances) í Bíó Paradís í kvöld kl. 20.

Á morgun, laugardag, verður svo opnuð sýning Sequences, sem ber titilinn Sköpun/Eyðing , í Marshallhúsinu. Sýningin tekur yfir sýningarrými Nýlistasafnsins og Kling & Bang. Í sýningarrými Nýlistasafnsins sýna þau Björk Guðnadóttir, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Gunnhildur Hauksdóttir og Pétur Magnússon ný verk. Í sýningarrými Kling & Bang sýna Andreas Brunner, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Bergrún Snæbjörnsdóttir sömuleiðis ný verk. Nemendur 6. bekkjar í Fellaskóla stýra sýningu í fremra rými Nýlistasafnsins og heiðurslistamaðurinn Elísabet tekur yfir fremra rýmið í Kling & Bang.

Sýningarrýmin eru ekki öll hefðbundin sem er dæmi um hvernig verkin teygja sig inn í samfélagið. Sæmundur Þór Helgason mun til dæmis sýna verk sitt Solar Plexus Pressure Belt™ G2 í ELKO-búðinni á Granda. Sú sýning verður opnuð á laugardag. Á miðvikudagskvöld verður Tunglkvöld N°XIII haldið úti í Gróttu, í samstarfi við Tunglið forlag. Þar verður fagnað útgáfu tveggja nýrra Tunglbóka eftir Elísabetu Jökulsdóttur og Dag Hjartarson.

Viðburðir hátíðarinnar eru fjölmargir og forvitnilegir og má dagskrá hennar finna á vefsíðunni sequences.is.