Brons Kristín hefur náð ótrúlegum árangri á mjög skömmum tíma.
Brons Kristín hefur náð ótrúlegum árangri á mjög skömmum tíma. — Morgunblaðið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég var með ákveðnar draumatölur í huga þegar ég tók þátt á HM 2021 í Svíþjóð sem ég náði ekki og markmiðið fyrir Evrópumeistaramótið í desember er að ná þessum tölum,“ sagði Kristín Þórhallsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í...

„Ég var með ákveðnar draumatölur í huga þegar ég tók þátt á HM 2021 í Svíþjóð sem ég náði ekki og markmiðið fyrir Evrópumeistaramótið í desember er að ná þessum tölum,“ sagði Kristín Þórhallsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í kraftlyftingum, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Kristín, sem er 37 ára gömul, byrjaði að æfa kraftlyftingar fyrir tveimur árum en hún hefur náð undraverðum árangri á afar skömmum tíma í íþróttinni.

Hún hafnaði í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í -84 kílógramma flokki sem fram fór í Halmstad í Svíþjóð á dögunum og þá setti hún Norðurlanda- og Íslandsmet í öllum fjórum greinunum á mótinu.

„Það munaði mjög litlu að mér tækist að setja Evrópumet í bæði hnébeygju og í samanlögðum árangri á HM og mig langar mikið að ná þessum metum heim til Íslands,“ sagði Kristín.

„Ég sló Evrópumetið hérna heima en það var ekki tekið gilt þar sem lyftan átti sér ekki stað á alþjóðlegu móti. Ég náði auðvitað metinu á HM en þar sem Angelina Elovikova frá Rússlandi lyfti 217,5 kílógrömmum í hnébeygjunni mínútu á undan mér fékk hún Evrópumetið skráð á sig.“