Laus bolti Leikmenn Tindastóls og KR taka ekki augun af boltanum í vesturbæ Reykjavíkur í gær. Sigtryggur Arnar (6) skoraði sigurkörfuna.
Laus bolti Leikmenn Tindastóls og KR taka ekki augun af boltanum í vesturbæ Reykjavíkur í gær. Sigtryggur Arnar (6) skoraði sigurkörfuna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Kristján Jónsson kris@mbl.is Skagfirðingar byrja Íslandsmótið í körfuknattleik vel og hafa unnið fyrstu tvo leikina í úrvalsdeild karla, Subway-deildinni. Tindastóll hefur unnið Reykjavíkurliðin Val og KR í fyrstu umferðunum.

Körfuboltinn

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Skagfirðingar byrja Íslandsmótið í körfuknattleik vel og hafa unnið fyrstu tvo leikina í úrvalsdeild karla, Subway-deildinni. Tindastóll hefur unnið Reykjavíkurliðin Val og KR í fyrstu umferðunum.

Leikur KR og Tindastóls í Frostaskjólinu í gær var mjög spennandi og þurfti að framlengja til að knýja fram úrslit. Að henni lokinni fögnuðu Stólarnir eins stigs sigri, 83:82. KR-ingar tóku boltann inni á vallarhelmingi Tindastóls þegar tæpar fimm sekúndur voru eftir. Shawn Glover náði að losa sig og skjóta innan teigs. Boltinn skoppaði á hringnum en vildi ekki ofan í. Glover sem lék með Tindastóli um tíma á síðasta tímabili skoraði 23 stig í leiknum og tók 11 fráköst.

Javon Bess var stigahæstur hjá Tindastóli með 27 stig en sigurkörfuna skoraði Sigtryggur Arnar Björnsson með þriggja stiga skoti.

Valsmenn komnir á blað

Valsmenn sem mættu til leiks í vetur með töluvert breyttan leikmannahóp unnu Grindavík í gær en töpuðu eins og áður segir á Sauðárkróki í fyrstu umferð þar sem hittni Valsmanna var mjög slök.

Valsmenn voru yfir nánast allan leikinn og náðu mest 15 stiga forskoti, en staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 63:49. Körfuboltamenn í Grindavík eru þekktir fyrir annað en uppgjöf og reyndu að vinna upp forskotið í síðasta leikhlutanum. Þeim tókst að saxa forskotið niður í tvö stig en komust ekki lengra. Valur sigraði 81:77. Pablo Bertone var stigahæstur hjá Val með 22 stig. Ivan Alcolado skoraði 23 stig fyrir Grindavík og Kristinn Pálsson skoraði 20 stig.

Dagur Kár Jónsson hélt til Spánar í byrjun mánaðarins og Grindvíkingar hafa þurft að skipuleggja sig að einhverju leyti upp á nýtt enda Dagur mjög öflugur leikmaður. Grindvíkingar unnu Þórsara frá Akureyri í fyrstu umferðinni. Travis Atson sem gekk til liðs við Grindvíkinga fyrir nokkrum dögum skilaði átta stigum.

Njarðvíkingar öflugir

Gott gengi bikarmeistara Njarðvíkur heldur áfram en liðið byrjar keppnistímabilið af krafti. Njarðvík vann stórsigur á Íslandsmeisturunum frá Þorlákshöfn í fyrsta leiknum í deildinni og í gær vann liðið Þór 109:91 á Akureyri.

Dedrick Basile sem lék með Akureyringum á síðasta tímabili var stigahæstur með 23 stig og gaf auk þess 8 stoðsendingar. Að öðru leyti dreifðist stigaskorið nokkuð vel hjá Njarðvíkingum.

Liðið er mjög sannfærandi eins og áður segir og á þó enn Hauk Helga Pálsson inni. Eftir að hafa farið í aðgerð síðasta vetur gæti Haukur orðið leikfær í næsta mánuði eða í desember. Körfuboltaunnendur vita vel hvað Haukur kann fyrir sér. Jordan Connors var stigahæstur hjá Þór með 25 stig og tók 9 fráköst.

Stórsigur í Þorlákshöfn

Meistararnir náðu í sín fyrstu stig þegar þeir fengu Vestfirðinga í heimsókn í Þorlákshöfn. Þór vann 100:77 og náði undirtökunum strax í fyrsta leikhluta. Í þriðja leikhluta jókst munurinn verulega og þá var ljóst hvert stefndi.

Daniel Mortensen var stigahæstur hjá Þórsurum með 27 stig og tók 11 fráköst. Nemenja Knezevic, fyrirliði Vestra, skoraði 14 stig. Hann hefur tekið ógrynni frákasta fyrir liðið síðustu árin og tók 10 fráköst að þessu sinni.